spot_img
HomeFréttirStefán Þór: Leiðinlegt þegar svona kemur upp

Stefán Þór: Leiðinlegt þegar svona kemur upp

Oddaleikur Hauka og Snæfells í Domino´s-deild kvenna og oddaleikur Fjölnis og Skallagríms í 1. deild karla munu báðir fara fram annað kvöld. Til stóð að oddaviðureign Hauka og Snæfells færi fram á miðvikudag en færa þurfti hann fram á annað kvöld vegna annarra leikja í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði. Stefán Þór Borgþórsson mótastjóri KKÍ sagði leiðinlegt þegar svona kæmi upp en að öðru leyti hefði gengið ágætlega að komast hjá svona árekstrum í úrslitakeppninni þetta árið.

„Því miður þurfti að færa fimmta og síðasta leikdag í viðureign Hauka og Snæfells af miðvikudegi yfir á þriðjudag. Er þetta vegna annarra leikja í Schenker-höllinni í Hafnarfirði. Svo þegar það var klárt að tveir oddaleikir yrðu á þriðjudeginum skoðuðum við það að færa leik Fjölnis og Skallagríms milli daga. En það gekk ekki upp að þessu sinni að færa leikinn og því verður þetta óbreytt.

Það er leiðinlegt þegar svona kemur upp en þetta er eitthvað sem við reynum að komast hjá eins og við getum og hefur gengið ágætlega núna í úrslitakeppnum meistaraflokkana. Við deilum húsnæði með öðrum íþróttagreinum og hjá sumum þeirra er einnig úrslitakeppni í gangi núna og því er nauðsynlegt að allir vinni saman og sýni hvor öðrum skilning. Það hefur verið gert enda er búið að færa til handboltaleiki á síðustu dögum vegna körfuboltaleikja,“ sagði Stefán við Karfan.is í dag. 

Fréttir
- Auglýsing -