spot_img
HomeFréttirStefán Karel fór mikinn í sigri Þórs gegn Skallagrím

Stefán Karel fór mikinn í sigri Þórs gegn Skallagrím

Þór og Skallagrímur mættust í íþróttahöllinni á föstudagskvöld í hreint mögnuðum leik í 1. deild karla þar sem Þórsarar höfðu sigur þótt ekki hafi blásið byrlega í upphafi. Gestirnir komu gríðarlega vel stemmdir til leiks og hreinlega keyrðu yfir Þórsliðinu í fyrsta leikhluta. Umfjöllun og viðtal við Stefán Karel eftir leik í boði www.thorsport.is
Þegar staðan var orðin 2-12 tók Nebosja leikhlé fyrir Þór og lét hann sína menn hafa það óþvegið enda frammistaða liðsins langt frá því að vera ásættanleg. Ræðuhöld þjálfarns höfðu ekki mikil áhrif á leik Þórsara til að byrja með og gestirnir léku við hvurn sinn fingur og áður en menn vissu af var staðan orðin 4-18.
 
Þór náði þó að klóra aðeins í bakkann undir lok leikhlutans og lauk honum með því að Eric Palm reyndi flautukörfu langt utan af velli í vonlausri stöðu og brotið á honum. Eric setti niður þrjú víti og staðan af fyrsta leikhluta loknum 14-21.
 
Gestirnir hófu þriðja leikhlutann líkt og þann fyrsta og héldu lengst af 7-10 stiga forystu en þegar leið á fjórðunginn náðu Þórsarar að narta í hæla gestanna og náðu að komast yfir 35-34. Þá fór í hönd ótrúlegur kafli og í stöðunni 35-38 fékk Darko á sig tæknivillu og mótmælti hann kröftuglega og uppskar ríkulega aðra tæknivillu sem þýddi að hann var  rekin út úr húsi. Sindri Davíðsson var ekki par sáttur við þessi viðskipti og blandaði sér í málið með þeim afleiðingnu að hann uppskar eina tæknivillu. Þar með fengu gestirnir 9 vítaskot og boltann að auki. Hafi heimamenn farið illa að ráði sínu þarna má einnig segja að gestirnir hafi einnig farið illa með góða stöðu þar sem þeir hittu aðeins úr 3 vítum af 9. Leikhlutanum lauk með því að hvort lið skoraði 21 stig og staðan því 35-42 gestunum í vil þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik.
 
Þriðji leikhlutinn var hreint út sagt ótrúlegum svo ekki sé nú dýpra í árina tekið. Gestirnir mættu ákveðnir til leiks en það var þó í raun ekki nema í fyrstu 2-3 sóknum þeirra því þá hrökk allt í baklás og heimamenn gengu á bragðið og náðu undirtökunum í leiknum og snéru honum sér í vil. Á sama tíma og það virtist ekki hafa áhrif á leik heimamanna að Darko Milosevic var farin af velli misstu gestirnir Lloyd Harrison af velli með 5 villur þegar um mínúta var eftir að leikhlutanum. Vörn Þórs var ógnarsterk í þessum leikhluta og skilaði því að gestirnir skoruðu aðeins 6 stig gegn 18 stigum Þórs. Staðan þegar leikhlutanum lauk var 53-48.
 
Fjórði og síðasti leikhlutinn var afar jafn og spennandi allt frá fyrstu mínutu og til enda. Þór var þó ávallt skrefinu á undan og virtist ætla landa öruggum sigri en gestirnir með góðum endaspretti hleyptu mikilli spennu í leikinn á lokamínútunni. En Þórsliðið hélt haus og tveggja stiga sigur 70-68 staðreynd og sæti í úrslitakeppninni er enn raunhæfur möguleiki þegar tveir leikir eru eftir. Eftir sigurinn á föstudag er Þór komið með 14 stig og allt getur gerst.
 
Stefán Karel Torfason var maður leiksins, um það verður ekki deilt. Stefán var gríðarlega öflugur en hann skoraði 24 stig tók 7 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Næstir komu Eric J Palm með 18 stig og Spencer Harris 13. Hjá Skallagrími var Hörður Helgi Hreiðarsson atkvæðamestur með 21, Summer með 12 og Lloyd með 11.
 
Heimasíða Þórs fékk Stefán Karel í stutt viðtal í leikslok.
  

Fréttir
- Auglýsing -