„Þetta er líklega bara tognun í öxlinni, búið að vera svona í smá tíma,“ sagði Stefán Karel Torfason leikmaður Snæfells við Karfan.is en hann varð snemma úr leik í gærkvöldi þegar ÍR og Snæfell mættust í Domino´s deild karla. ÍR hafði mikilvægan sigur í leiknum en þrátt fyrir tapið er Snæfell í 8. sæti deildarinnar með 16 stig.
„Þetta kom fyrst upp í nóvember, meiddi mig á æfingu og spilaði eftir það nokkra leiki teipaður og var svo búinn að vera góður í smá tíma en þetta er eitthvað svona sem nagar í mann,“ sagði Stefán Karel og aðspurður um hvort hann yrði klár í næsta leik Snæfells greip kappinn í fleyg orð Jóns Páls heitins:
„Báðar hendurnar eru jafn langar svo ég get enn barist.“
Næsti leikur Snæfells í Domino´s deildinni er þann 5. mars næstkomandi þegar Tindstóll kemur í heimsókn á Snæfellsnesið. Við tökum orðum Stefáns því þannig að hann verði klár og í búning þegar Stólarnir þramma í Hólminn.



