spot_img
HomeFréttirStáltaugar Þórs á lokasprettinum tryggði þeim í úrslitaleikinn

Stáltaugar Þórs á lokasprettinum tryggði þeim í úrslitaleikinn

Þórsarar tryggðu sér í kvöld miðann í úrslitaleik Maltbikarsins gegn KR eftir æsispennandi lokamínútur í undanúrslitaleiknum. Þórsarar virtust ætla að gera útaf við leikinn um miðjan fjórða leikhluta en Grindvíkingar sem voru pirraðir í kvöld settu saman sterkar lokamínútur. Tobin Carberry var aftur á móti of erfiður viðureignar fyrir Grindavík og hafði Þór því sigur að lokum.

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins

Það var bara eitt lið á vellinum fyrstu mínúturnar þar sem Grindvíkingar virtust hreinlega vera andlega enn á reykjanesbrautinni. Þór komst í 11-2 strax í upphafi leiks en frábært 14-4 áhlaup Grindavíkur á síðustu þrem mínútum leikhlutans minnkaði muninn niður í eitt stig. Þórsarar voru yfir meirihluta hálfleiksins og komust tvisvar í ansi þægilega forystu en Grindavík átti alltaf svör og héldu muninum í tvem stigum í hálfleik. Frábær sóknarleikur Þórsara í fyrri hálfleik var helsti munurinn en Grindavík átti engar leiðir til að stoppa háloftafuglinn Tobin Carberry. 

 

Þriðji leikhluti var jafn framan af en þegar þeir Ólafur Ólafsson og Dagur Kár fengu báðir sína fjóru villu og fengu bekkjarsetu í verðlaun. Skortur á breidd grindvíkinga kom þá bersýnilega í ljóst því liðið sem kom inná hjá liðinu átti lítið í Þórsara. Þeir Ólafur Helgi og Halldór Garðar sem höfðu spilað frábæra vörn í öllum leiknum fengu svo sína fimmtu villu seinni part fjórða leikhluta þegar allt leit út fyrir að Þór væri að sigla sigrinum heim. 

 

Síðustu mínúturnar snerust svo uppí þriggja stiga sýningu þar sem liðin skiptust á að ná forystu. Grindavík jafnaði leikinn þegar 50 sekúndur voru eftir og eins og hendi væri veifað var þetta orðið að spennuleik. Við tók ógnarspennandi lokamínúta þar sem Tobin Carberry tryggði sigurinn af vítalínunni. 

 

Hetjan

Hvað er hægt að segja um þennan Tobin Carberry? Leikmaðurinn var ævintýralegur í þessum leik. Hann endar með 44 stig, 16 fráköst og 53% skotnýtingu. Grindavík réð ekki einu sinni pínu við leikmanninni sóknarlega sem tók liðið á sínar herðar þegar á þurfti. 

 

 

Pirringur Grindavíkur

Frá því ljóst var að Grindavík kæmist í undanúrslit hefur mikil orka hjá liðinu farið í að pirra sig útí nýtt fyrirkomulag bikarkeppninnar sem þeir voru greinilega ekki sáttir með. Spurning er hvort sá pirringur hafi setið í mönnum því spennustigið var alltof hátt á leikmönnum. Þáttur Ómars Sævarssonar í leiknum var hreinlega til skammar, hann endaði með 4 stig, 1 frákast, 4 villur og var rekin útúr húsi fyrir tvær tæknivillur sem hann beinlínis bað um sjálfur. Ómar var ekki að byrja að leika íþróttina í gær og með hreinum ólíkindum að hann skuli hafa sig út í þetta, því liðið hans hefði svo sannarlega þurft á framlagi hans að halda. 

 

Kjarninn

Ljóst er að það verða sömu lið í úrsltaleiknum í bikarkeppni karla og á síðasta ári. Það var alveg klárt í upphitun að Þórsarar ætluðu að bæta upp fyrir síðustu ferð í Laugardalshöll. Sóknarlega er Þór með virkilega mörg vopn og erfitt að stoppa þá. Spennandi verður að sjá hvort Þórsarar finni enn blóðbragðið frá síðasta úrslitaleik þar sem KR vann nokkuð auðveldlega. Miðað við frammistöðu þessara liða í dag er von á hörku körfuboltaleik á laugardaginn í Laugardalshöll. 

 

Grindavík spilaði fínan leik í dag og þá sérlega sóknarlega en ansi margt vantaði uppá varnarlega. Eini leikmaðurinn sem barðist á báðum endum vallarins hjá Grindavík var Ólafur Ólafsson en hann og Dagur Kár drógu vagninn hjá liðinu í leiknum. Grindavík getur að einhverju leyti sjálfum sér um kennt, agaleysi í leik þeirra á ögurstundu var þeirra banabiti. Liðið er vel mannað þrátt fyrir skort á breidd og ef menn skrúfa hausinn rétt á og bæta spilamennskuna getur það náð langt. 

 

Þórlákshafnarbúar fá þriðja leikinn sinn í Laugardalshöll á einu ári og morgunljóst að stemmningin verður enn meiri á Laugardaginn er liðið mætir KR kl 16:30. 

 

Tölfræði leiksins.

 

Myndasafn #1

 

Mynd / Bára Dröfn

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

 

Fréttir
- Auglýsing -