spot_img
HomeFréttirStáltaugar Selenu skiluðu Njarðvík tveimur stigum

Stáltaugar Selenu skiluðu Njarðvík tveimur stigum

Njarðvík marði Grindavík í Ljónagryfjunni í kvöld 68-67 þar sem Selena Lott reynidst vera með ís í æðum þegar hún tryggði Njarðvík sigurinn af vítalínunni þegar hálf sekúnda lifði leiks. Það voru stórar sveiflur í Gryfjunni þetta kvöldið, Njarðvík náði 20 stiga forystu á kafla en Grindvíkingar áttu magnaða frammistöðu í fjórða leikhluta og hefðu hæglega geta stolið sigrinum!

Emilie Hesseldal fór hamförum í fyrri hálfleik með 19 stig og 9 fráköst þar sem Njarðvík leiddi 42-26. Dagný Lísa Davíðsdóttir sem nýverið gekk í raðir Grindvíkinga staldraði stutt við í leiknum eða alls 2 mínútur uns hún varð að fara af velli með ökklameiðsli.

Grindvíkingar fóru að bíta vel frá sér í síðari hálfleik og eftir þriðja var staðan 59-44. Í fjórða leikhluta jafnaði svo Grindavík leikinn 63-63 eftir tvo þrista í röð frá Alexöndru og Brasils. Lokaspretturinn var æsispennandi og áttu Njarðvíkingar lokasóknina með fimm sekúndur eftir. Erfitt skot en rándýrt sóknarfrákast frá Lott og brotið á henni og tvö víti með hálfa sekúndu eftir. Lott setti bæði vítin og lokaskot Grindavíkur missti marks og Njarðvíkingar fögnuðu sigri.

Í fyrstu leikur sem leit út fyrir að verða hrein eign Njarðvíkurkvenna en fyrirmyndar barátta hjá Grindavík skilaði þeim aftur inn í leikinn og möguleika á því að stela sigrinum en allt kom fyrir ekki og Lott lokaði verkefninu fyrir Njarðvík.

Selena Lott var með 26 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar hjá Njarðvík og Hesseldal bætti við 24 stigum, 16 fráköstum, 3 stoðsendingum, 3 stolnum boltum og 2 vörðum skotum.

Hjá Grindavík voru Daniell og Mortensen báðar með 16 stig og sú danska einnig með 17 fráköst.  Bæði lið eiga öfluga leikmenn inni og miðað við skemmtun kvöldsins er ljóst að næsta viðureign Njarðvíkur og Grindavíkur verður ekkert slor.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -