spot_img
HomeFréttirStáltaugar meistaranna lönduðu sigri í Seljaskóla (Umfjöllun)

Stáltaugar meistaranna lönduðu sigri í Seljaskóla (Umfjöllun)

23:53
{mosimage}

 

(Pálmi gerði tröllakörfur í framlengingunni í kvöld) 

 

Stáltaugar Íslandsmeistara KR fleyttu þeim áfram í oddaleik gegn ÍR en KR hafði magnaðan 80-86 sigur á ÍR í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Iceland Express deildarinnar. ÍR vann fyrsta leikinn í DHL-Höllinni en í kvöld tókst KR að jafna metin eftir framlengdan leik. Fjölmenni fylgdist með Reykjavíkurstórveldunum berjast í Seljaskóla og var lífleg stemmning á pöllunum. Bakverðirnir Avi Fogel og Nate Brown áttu glimrandi kvöld en það var Joshua Helm sem kom KR í lykilstöðu í framlengingunni með teigskoti og breytti stöðunni í 80-84 þegar 7,2 sekúndur voru til leiksloka.

 

Hverri körfu í kvöld var fagnað eins og hún væri sú síðasta enda var liðunum nokkuð mislagðar hendur í sókninni og áherslan heldur meiri á varnarleiknum. KR komst í 5-11 snemma leiks með 7-0 áhlaupi og leiddu síðan 19-23 að loknum fyrsta leikhluta. Reyndar hefði munurinn getað verið meiri en Nate Brown tók til sinna ráða hjá ÍR og gerði 5 síðustu stig ÍR á rétt rúmum 10 sekúndum.

 

Skarphéðinn Ingason var í byrjunarliði KR í kvöld en í fyrsta leikhluta hélt hann af velli með skurð ofan við hægra auga og blæddi talsvert úr sárinu. Skarphéðinn er ekki þekktur fyrir uppgjöf og innan skamms var hann kominn aftur í baráttuna, heftaður á brún.

 

{mosimage}

(Skarphéðinn eins og hnefaleikakappi)

 

Lítið var skorað framan af öðrum leikhluta en Ómar Sævarsson átti fína innkomu hjá ÍR og hóf að rífa niður fráköstin. Þegar líða tók á leikhlutann fundu heimamenn fjölina og náðu að jafna metin 33-33 með körfu frá Tahirou Sani. Það voru svo heimamenn sem leiddu 39-38 í leikhléi.

 

Nate Brown var með 11 stig í hálfleik og Hreggviður 9 en þeir félagar voru mikil ógn í sókninni hjá ÍR í kvöld. Avi Fogel átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik enda Brown að leika góða vörn á hann. Fogel var samt stigahæstur með 8 stig og Helm með 7. Fogel átti þó eftir að láta vel að sér kveða í síðari hálfleik.

 

Fannar Ólafsson fékk snemma sína þriðju villu í liði KR og var ekki sáttur er hann hélt á tréverkið. Nate Brown hrökk svo í gang og setti niður stóran þrist sem kom ÍR í 51-44. Framan af þriðja leikhluta gekk hvorki né rak í sóknarleik KR og heimamenn náðu svo 10 stiga forskoti 55-45 þegar Sveinbjörn Claessen tók sóknarfrákast og lagði boltann viðstöðulaust í netið.

 

Íslandsmeistarar KR gerðu aðeins 5 stig á fyrstu fimm mínútunum í þriðja leikhluta en þeim óx ásmegin á lokasprettinum og tóku 6-0 áhlaup og staðan því 55-51. KR skipti í svæðisvörn sem virtist í fyrstu slá ÍR út af laginu sem sættu sig við erfið skot og Sani tók til að mynda tvö þriggja stiga skot sem voru varla í spjaldradíus.

 

En það virtist vera sagan í síðari háflleik að þegar Nate Brown tók ,,æði” eins og Rúnar Júlíusson rokkari myndi segja þá varð Avi Fogel ávallt fyrir svörum. Brown kom ÍR í 60-52 með þrist en Fogel svaraði í sömu mynt og staðan því 60-55 fyrir fjórða leikhluta.

 

{mosimage}

(Ómar Sævarsson)

 

Villuvandræði lykilmanna í báðum liðum settu strik í reikninginn og fór Hreggviður Magnússon snemma af velli í fjórða leikhluta með fjórar villur. ÍR jók snemma forystuna í 67-59 en þá var Íslandsmeisturunum nóg boðið og með mikilli baráttu tókst Vesturbæingum að jafna metin í 68-68 þegar Joshua Helm stal boltanum, brunaði upp völlinn og skoraði og fékk villu að auki. Helm brenndi þó af vítinu en vítanýting beggja liða var hræðileg í kvöld. ÍR skoraði úr 11 af 21 víti og KR úr 16 af 27 vítum. Nýting sem er engan veginn viðeigandi á þessum tímapunkti Íslandsmótsins.

 

ÍR komst svo í 72-70 þegar 1.45 mín. var til leiksloka en hvorugt lið náði að skora fyrr en 22 sekúndur voru til leiksloka og það gerði Avi Fogel af vítalínunni og staðan orðin 72-71. ÍR-ingar héldu í sókn og þegar 13 sekúndur voru eftir brutu KR á Nate Brown og setti hann síðar vítið ofan í og staðan 73-71. Enn og aftur var það Avi Fogel sem kom KR til bjargar með gegnumbroti og jafnaði metin í 73-73 þegar 6 sekúndur voru til leiksloka. ÍR náðu ekki að skora úr sinni síðustu sókn og því varð að framlengja.

 

Allt var í lás í framlengingunni og stemmningin stigmagnaðist á pöllunum með hverri sekúndu. Helgi Magnússon kom KR í 73-74 með víti þegar 3.28 voru til leiksloka en það tók liðin s.s. eina og hálfa mínútu að skora í framlengingunni.

 

Jeremiah Sola fékk svo sína fimmtu villu og var allt annað en sáttur og minnstu munaði að dómarar leiksins misstu þolinmæði sína. Sola náði þó að hemja sig.

 

Pálmi Freyr Sigurgeirsson verður auðveldlega sagður maður framlengingarinnar. Hann kom KR í 74-77 með villu og körfu góðri og stuttu síðar kom hann KR í 79-82 með risavaxinni þriggja stiga körfu úr horninu þegar 55 sekúndur voru til leiksloka. Sani minnkaði muninn í 80-82 en það var svo Helm sem kom KR í bílstjórasætið með teigskoti þegar 7,2 sekúndur voru til leiksloka og staðan 84-80 KR í vil. Nate Brown reyndi gegnumbrot en það gekk ekki eftir og því brutu ÍR-ingar strax á KR sem luku leiknum á vítalínunni og fögnuðu innilega.

 

{mosimage}

(Helm sækir að körfu ÍR. Sveinbjörn Claessen er til varnar)

 

Avi Fogel var besti maður KR í kvöld með 23 stig, 7 stig og 7 fráköst en í síðari hálfleik var hann jafnan haldreipi Íslandsmeistaranna. Pálmi Freyr steig upp á réttum tíma og gerði 12 stig og tók 8 fráköst. Þá var Helm með 14 stig og 8 fráköst.

 

Hjá ÍR var Nate Brown kyngimagnaður með 25 stig, 10 stoðsendingar og 6 fráköst en Tahirou Sani var með 18 stig og 8 fráköst. Hreggviður átti magnaða spretti þar sem hann lék vörn KR oft illa en hann var með 15 stig og Sveinbjörn Claessen með 16.

 

Liðin mætast því í oddaleik á fimmtudag í Vesturbænum og gera má ráð fyrir svakalegum leik og fullri DHL-Höll.

 

Tölfræði leiksins

[email protected]

Myndir: Snorri Örn Arnaldsson

{mosimage}

(Hreggviður Magnússon)

{mosimage}

(Nate Brown)

{mosimage}

(Helgi Magnússon ver skot frá Sani)

Fréttir
- Auglýsing -