Álftanes lagði Njarðvík 93–92 í æsispennandi leik í Bónusdeild karla í kvöld. Heimamenn voru mun ákveðnari framan af, en þurftu að þrauka í lokasprettinum þegar Njarðvík sótti fast. Eftir leikinn er Álftanes í fjórða sæti deildarinnar með þrjá sigra á meðan Njarðvík er sjöunda sætinu með tvo sigra.
Gestirnir úr Njarðvík leiddu lengst af í fyrri hálfleiknum. Álftnesingar voru þó aldrei langt undan og þegar í hálfleik var komið voru þeir komnir með sex stiga forystu, 54-48.
Í seinni hálfleiknum ná heimamenn svo að halda í forystuna, en þá var komið að Njarðvík að elta og áttu þeir í mestu basli með það lengst af í hálfleiknum, þar sem forysta Álftaness fór mest í 15 stig um miðjan fjórða leikhlutann.
Var þá komið að Njarðvík að bíta í skjaldarrendur og tókst þeim að vinna muninn niður. Undir lokin var leikurinn gífurlega jafn og var það nokkur lukka fyrir heimamenn að hafa landað sigrinum í ljósi þess að síðasta karfa sem þeir skora í leiknum var þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir.
Njarðvíkingar fengu tækifæri til þess að fullkomna endurkomu sína og stela sigrinum á lokasekúndunum, en allt kom fyrir ekki. Eins stig sigur heimamanna staðreynd, 93-92.
Álftanes var öflugra inni í teignum og fékk mikinn kraft af bekknum, þar sem þeir fengu 22 stig á móti 9 hjá Njarðvík. Heimamenn nýttu sér einnig stig eftir sóknarfráköst og tapaða bolta mun betur.
Hörkuleikur sem var hin besta skemmtun fyrir áhorfendur.
Stigahæstir í liði Álftaness voru Haukur Helgi Briem Pálsson með 23 stig og David Okeke með 17 stig.
Fyrir Njarðvík var stigahæstur Dwayne Lautier með 28 stig og Brandon Averette bætti við 22 stigum.
Myndasafn (Gunnar Jónatans)
Álftanes: Haukur Helgi Briem Pálsson 23/5 fráköst/8 stoðsendingar, David Okeke 17, Sigurður Pétursson 12/5 fráköst, Hilmir Arnarson 11, Shawn Dominique Hopkins 11, Ade Taqqiyy Henry Murkey 11/5 fráköst, Dúi Þór Jónsson 8/9 stoðsendingar, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 0, Duncan Tindur Guðnason 0, Arnór Steinn Leifsson 0, Ingimundur Orri Jóhannsson 0, Almar Orn Bjornsson 0.
Njarðvík: Dwayne Lautier-Ogunleye 28/6 fráköst, Brandon Averette 22/4 fráköst, Julio Calver De Assis Afonso 11/6 fráköst, Mario Matasovic 11/11 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 11/6 fráköst, Dominykas Milka 5, Brynjar Kári Gunnarsson 4, Sigurbergur Ísaksson 0, Sigurður Magnússon 0, Kristófer Mikael Hearn 0, Snjólfur Marel Stefánsson 0, Guðmundur Aron Jóhannesson 0.



