Íslenska landsliðið var frækilegan sigur á Bretum á miðvikudaginn í Koparkassanum og kom þar með öðrum fætinum inn á Eurobasket 2015. Margir fullyrða að þetta sé klárt, en þó líkurnar séu miklar á að Ísland endi í lokakeppninni á næsta ári, þá er það ekki enn útilokað að einhverjum liðum takist að mjaka sér ofar í töfluna.
Liðin fyrir ofan bleika kassann eru þau lið sem eru í fyrsta sæti í sínum riðli og komast því örugglega áfram, eins og staðan er í dag. Liðin í bleika kassanum eru þau 6 lið af þeim 7 sem eru í öðru sæti í sínum riðli og eru með besta stigamuninn í leikjum sínum. Efstu 6 liðin halda áfram en eitt situr eftir. Rúmenía er samkvæmt þessu dottið út á lakari stigamun.
Lykilleikurinn fyrir okkur í næstu umferð er leikur Rússlands og Ítalíu sem leikinn verður á sunnudaginn nk á heimavelli Ítala. Takist Rússlandi að sigra eru þeir komnir fyrir ofan Ísland, á töluvert betri stigamun. Tapi hins vegar Rússland verður það með 3 tapleiki og dettur því fyrir neðan Ísland. Miklar líkur eru á því að Ítalir fari í gegnum þessa undankeppni með fullt hús stiga.
Þýskaland, Svartfjallaland og Georgía eiga öll annan leikinn sinn sem eftir er gegn liði sem er nú þegar á botninum og mun sá leikur því strikast út ef fer sem horfir. Rúmenía hins vegar á báða leiki sína gegn liðum sem eru fyrir ofan botninn þannig að þeir gætu mögulega mjakast upp töfluna þegar líður að lokum.
Það er hins vegar ekkert tryggt í þessu en Ísland er samt sem áður í mjög góðri stöðu upp á framhaldið. Tala nú ekki um ef Íslandi tækist nú að sigra Bosníu í Höllinni. Það er allt hægt. Þú þarft bara að koma í Höllina á miðvikudaginn í næstu viku og öskra úr þér lungun.
ÁFRAM ÍSLAND!



