spot_img
HomeFréttirSt. Francis í undanúrslit NEC-riðilsins

St. Francis í undanúrslit NEC-riðilsins

Gunnar Ólafsson og St. Francis Brooklyn hafa tryggt sér sæti í undanúrslitum NEC riðilsins í bandaríska háskólaboltanum eftir sigur á LIU en viðureign liðanna í átta liða úrslitum riðilsins var að ljúka. Lokatölur 79-70.
 
 
Svartfuglarnir mættu með læti til leiks og fyrir framan fulla gryfju hjá St. Francis Brooklyn opnuðu Martin, Elvar og félagar leikinn með 2-10 gusu. Heimamenn í St. Francis voru þó tiltölulega fljótir að jafna sig og komust á par við gestina, 14-14. Gunnar Ólafsson kom sterkur inn í lið St. Francis í fyrri hálfleik og skilaði sínu hlutverki vel á báðum endum vallarins. Hægt og bítandi settist St. Francis við stýrið með yfirburðum í frákastabaráttunni og sterkum varnarleik. Staðan í hálfleik 35-22 fyrir St. Francis.
 
Í síðari hálfleik tókst LIU með flottum varnarleik að minnka muninn niður í 44-40 en þá stakk St. Francis af að nýju, hertu sjálfir tökin í vörninni og refsuðu í langflestum tilfellum með körfu eftir stolinn bolta. LIU var aldrei langt undan en forysta St. Francis var þó þannig að þegar í lokasprettinn var komið hófst leikur hjá LIU við að senda St. Francis á línuna og þar var bara um að ræða leik kattarins að músinni og St. Francis kláraði dæmið 79-70.
 
Gunnar Ólafsson fékk ekki að sýna sig í síðari hálfleik sem voru nokkur vonbrigði eftir flotta frammistöðu hans í fyrri hálfleik. Gunnar lauk leik með 2 stig og 2 fráköst á átta mínútum en stigahæstur hjá St. Francis í kvöld var Brent Jones með 31 stig.
 
Hjá LIU var Atterberry með 18 stig en Elvar Friðriksson gerði 8 stig, tók 5 fráköst og gaf 7 stoðsendingar og Martin Hermannsson bætti við 8 stigum og gaf 4 stoðsendingar.
 
St. Francis heldur því áfram í keppninni en LIU hafa lokið sinni vertíð.
  
Fréttir
- Auglýsing -