spot_img
HomeFréttirSrdjan svarar fyrir opinberar ásakanir um veðmálasvindl "Mun kæra viðkomandi aðila fyrir...

Srdjan svarar fyrir opinberar ásakanir um veðmálasvindl “Mun kæra viðkomandi aðila fyrir rógburð”

Hávær orðrómur fór af stað í gær þess efnis að leikmaður Þórs Akureyri Srdjan Stjojanovic væri flæktur í veðmálasvindl er varðaði leik félagsins gegn Njarðvík í 20. umferð Dominos deildar karla. Þetta var að sjálfsögðu eins og svo oft er með orðróma, algjörlega óstaðfest, en var þó á allra vörum fyrir leik og frameftir degi.

Þór Akureyri tapaði leiknum nokkuð örugglega fyrir Njarðvík, 97-75, en Srdjan skilaði nokkuð góðu framlagi í leiknum, 17 stigum úr 12 skotum. Orðrómurinn fékk samt sem áður að halda áfram eftir leik í hlaðvarpinu The Mike Show, þar sem talað var um að gengið hefði verið á leikmanninn á fundi fyrir leik og hann inntur um svör við þessu hugsanlega veðmálasvindli sem hann var flæktur í. Brot af því er hægt að hlusta á hér fyrir neðan.

https://youtu.be/9UhgbU3pSA0

Semsagt, það átti að hafa verið gengið á leikmanninn fyrir leik, en hann spilaði leikinn samt og skilaði 17 stigum. Karfan setti sig í samband við Srdjan og spurði hann aðeins út í atburði gærdagsins

Hvenær heyrðir þú af þessum orðróm um þig og hugsanlegt veðmálasvindl og hvernig leið þér með það?

“Ég fékk skilaboð frá vini mínum eftir leikinn, um að orðrómur væri á kreiki um að við ætluðum að hagræða úrslitunum í leiknum gegn Njarðvík og að mitt nafn væri nefnt. Fyrst hélt ég að þetta væri brandari. Svo í morgun sé ég að þetta er út um allt”

Þetta hafði semsagt engin áhrif á leikinn þinn/ykkar í gær?

“Eins og ég segi, heyrði ekki af þessu fyrr en eftir leik og ég spila alla leiki til að vinna”

Ætlar þú þér að sækja eitthvað mál gagnvart þeim sem opinberlega dreifðu þessum sögusögnum?

“Já, er á leiðinni að hitta lögfræðing og mun kæra viðkomandi aðila fyrir rógburð, lygar í fjölmiðlum, nota nafn mitt í slæmum ásetningi og skemma mannorð mitt. Þetta er þriðja árið mitt á Íslandi, hef ekki gert neitt ólöglegt og þetta er alvarleg opinber ásökun. Lögin eru með mér í liði”

Fréttir
- Auglýsing -