spot_img
HomeFréttirSpurs vélin rúllaði yfir OKC í fyrsta leik

Spurs vélin rúllaði yfir OKC í fyrsta leik

Það var vitað mál að það yrði á brattann að sækja fyrir OKC nú þegar Serge Ibaka er líklegast meiddur út tímabilið. Hann er of mikilvægur liðinu, bæði í vörn og sókn. Scott Brooks, þjálfari OKC ákvað að henda Nick Collison í byrjunarliðið í staðinn fyrir Ibaka til að fylla í gatið í vörninni sem Ibaka skilur eftir sig. Collison spilaði mjög vel, þrátt fyrir að skora ekki neitt, en það vekur furðu að hann fékk aðeins 15 mínútur af leiktíma þrátt fyrir það.
 
Spurs voru alltaf skrefinu á undan Thunder en náðu aldrei að hrista þá almennilega af sér fyrr en í fjórða hluta þar sem Parker, Leonard og Duncan gáfu í og unnu fjórðunginn 33-23 og tryggðu öruggan 122-105 sigur á gestunum. Manu Ginobili átti líka góða innkomu í fjórða og setti 18 stig í öllum leiknum.
 
Tim Duncan leiddi Spurs með 27 stig og 7 fráköst. Tony Parker gaf 12 stoðsendingar og gerði bakvörðum OKC lífið leitt. Hjá OKC voru það Durant og Russ sem drógu vagninn með 28 og 25 stig. Reggie Jackson átti góða innkomu af bekknum með 13 stig en gamla brýnið Derek Fisher var seigur með fjóra mikilvæga þrista í sex tilraunum. Nóg eftir á tankinum hjá honum greinilega.
 
Varnarleikur Thunder liðsins var arfaslakur. Lítið um hjálp en það er svo sem lítið hægt að gera þegar Spurs liðið spilar eins og það gerði í gær. Nýttu sér fjarveru Ibaka til hins ítrasta og skoruðu yfir 60 stig inni í teignum. Skoruðu 128,7 stig per 100 sóknir í öllum leiknum! 9/17 í þristum og þar af var Danny Green 4/5.
 
Spurs eru tilbúnir í slaginn en nú þarf Scott Brooks að draga einhverjar kanínur úr hattinum sínum til að finna svar við Texas liðinu þegar það spilar svona fullkominn sóknarbolta.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -