Íslenska landsliðið spilaði frábæran körfubolta og bauð uppá þvílíka skemmtun fyrir áhorfendur í Laugardalshöllinni í kvöld þegar þeir tóku á móti Búlgaríu. Liðið tók forustuna strax á fyrstu mínútum leiksins og spiluðu frábæra vörn í fyrri hálfleik sem gaf þeim 8 stiga forskot í hálfleik, 41-33. Liðið gaf þó heldur eftir í þriðja leikhluta, gestirnir gengu á lagið og settu stóru skotin sem höfðu geigað hjá þeim í fyrri hálfleik. Gestirnir náðu þó aldrei að stinga af og Íslenska liðið kom alltaf til baka. Þegar á hólminn var komið dugði það ekki til því lokatilraun Íslenska liðsins geigaði þegar Jón Arnór reyndi að jafna leikinn með sniðskoti um það leiti sem lokaflautan gall en skotið var varið af hringnum og sigurinn því Búlgara. Jón Arnór fór fyrir íslenska liðinu og spilaði leik uppá 9,9 í kvöld. Hann tók af skarið þegar mest lág við, hann skoraði heil 32 stig, hirti 7 frákost, stal 4 boltum og nýtti 5 af 6 skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna.
Íslenska liðið mætti vel stemmt og tókst að spila kröftugan varnarleik sem skilaði þeim fyrstu 5 stigum leiksins. Það var ekki fyrr en eftir rúmlega tvær mínútur sem Búlgarska liðið skoraði fyrstu sigin sín. íslenska liðið ætlaði augljóslega að nýta sér þriggja stiga skotin og skutu því við hvert tækifæri. Þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður hafði Ísland náð 9 stiga forskoti, 14-5 og sett niður 4 af sex skotum utan teigs. Búlgaría tók þá leikhlé við mikinn fögnuð áhorfenda. Gestirnir voru hins vegar ekki á því að leyfa Íslenska liðinu að stinga af og höfðu minnkað muninn niður í 3 stig stuttu seinna, 14-11. Tveir þristar frá Íslenska liðinu í röð voru þó fljótir að breyta stöðunni aftur en Jón Arnór og Logi settu sitt hvorn þristinn og breyttu stöðunni í 20-11. Það voru hins vegar gestirnir sem settu næstu 6 stig og þar af tvö stig þegar ein sekúnda var eftir og minnkuðu muninn í þrjú stig, 20-17, en þannig stóðu tölur eftir fyrsta leikhluta.
Þrátt fyrir nokkrar tilraunir Íslenska liðsins þá voru það gestirnir sem settu fyrstu stig annars leikhluta og minnkuðu muninn niður í 1 stig, 20-19. Peter Öqvist tók þá leikhlé fyrir Íslenska liðið en þeir höfðu þá fengið á sig 8 stig í röð frá gestunum. Leikhléið fór vel í Íslenska liðið sem svaraði með næstu 5 stigum leiksins og virtust nokkrir gestana vera farnir að láta góðan varnarleik Íslands fara í taugarnar á sér, 25-19. Leikurinn var nokkuð hraður og íslenska liðið keyrði upp völlinn við öll tækifæri. Þeir voru að hitta vel fyrir utan og héldu forskoti sínu í 5 stigum næstu mínútur. Undir lok fyrri hálfleiks voru Búlgararnir mikið á vítalínunni og tókst þannig að minnka muninn hægt og rólega. Íslenska liði var að henda frá sér boltanum klaufalega og þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum tók Ísland aftur leikhlé, 30-29. Jón Arnór sá til þess að ná upp forskoti íslenska liðsins aftur því um mínútu eftir leikhléið var forskotið aftur komið upp í 5 stig og þar af átti Jón Arnór fjögur stig af 6 á örstuttum tíma, 36-31. Íslenska liðið pressaði gestina hátt og uppskáru 5 stig á stuttum kafla sem breytti stöðunni í 41-31. Það var svo stór og stæðilegur miðherji gestanna sem átti síðasta orðið í fyrri hálfleik með nettri troðslu, 41-33.
Íslenska liðið var að spila frábæran varnarleik sem var algjört lykilatriði í góðum leik liðsins í fyrri hálfleik. Gestirnir höfðu tapað 16 boltum í fyrri hálfleik samkvæmt tölfræði FIBA Europe sem verður að teljast ótrúlega mikið. Ísland var einnig búið að setja niður 8 þrista gegn aðeins einum þrist gestanna.
Stigahæstur í liði Íslands í hálfleik var Jón Arnór Stefánsson með 17 stig en næstu menn voru Jakob Sigurðarson með 8 stig og Hörður Vilhjálmsson með 6 stig. Hjá gestunum var Deyan Ivanov stigahæstur með 10 stig en næstu menn voru Brank Mirkovich og Pavel Ivanov með 6 stig hvor.
Það var við hæfi að Jón Arnór byrjaði seinni hálfleik en hann setti fyrstu stig háflleiksins og kom forskoti íslenska liðsins aftur í 10 stig, 43-33. Baráttan í íslenska liðinu var til algjörar fyrirmyndar og gáfu þeim fjölmörg tækifæri. Það voru hins vegar gestirnir sem minnkuðu muninn hægt og rólega en þeir tóku uppá því í seinni hálfleik að fara að skjóta vel fyrir utan þriggja stiga línuna og settu þrjár þrista á fyrstu fimm mínútum þriðja leikhluta. Ísland tók svo leikhlé þegar leikhlutinn var hálfnaður og munurinn á liðunum kominn niður í 4 stig, 49-45. Gestirnir jöfnuðu svo metin stuttu seinna í stöðunni 49-49. Íslenska liðið var ekki að hitta vel á þessum kafla og virtist einhvern kraft vanta í sóknarleikinn. Góði kafli gestanna hélt áfram og tók Ísland leikhlé þegar forskot þeirra var komið í fimm stig, 49-54. Það var Pavel sem svo loksins skoraði fyrir Ísland eftir alltof langan tíma þegar rétt rúmlega ein mínúta var eftir af þriðja, 51-56. Bæði Hörður Axel og Hlynur fengu sína fjórðu villu á skömmum tíma undir lok leikhlutans. Hörður Axel lét það þó ekki stoppa sig en hann átti síðasta orð þriðja leikhluta og minnkaði forskot gestanna í 5 stig, 55-60.
Líkt í þriðja leikhluta var það Jón Arnór sem átti fyrstu stig leikhlutans í þeim fjórða og minnkaði muninn niður í tvö stig með laglegum þrist. Sá munur hélst á liðunum næstu mínútur þangað til Jón Arnór jafnaði í stöðunni 62-62 þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Gestirnir svöruðu því þó um hæl þegar þeir höfðu náð fimm stiga forskoit aftur í stöðunni 62-67. Gestirnir voru að setja niður þriggja stiga skotin sem þeir voru að klikka á í fyrri hálfleik og voru því fljótir að ná upp forskotinu þegar þannig lág á þeim. Þegar fjórar mínútur voru til leiks fékk Íslenska liðið fjögur vítaskot þegar leikmaður Búlgaríu brauf af sér og annar fékk svo tæknivilli fyrir að láta auglýsingaskilti hafa það. Íslenska liðið setti þá 6 stiga sókn og komst yfir á það sem virtist vera nokkrum sekúndum, 73-72. Pavel setti þristinn sem kom íslenska liðinu yfir og gjörsamlega tryllti lýðinn. Gestirnir tóku leikhlé í kjölfarið. Búlgaría tók aftur forskotið stuttu seinna og náðu því upp í 2 stig, 73-75, af vítalínunni þegar tvær mínútur voru eftir. Íslenska liðinu gekk illa að nýta færin sín undir lokin og gestirnir juku muninn upp í 4 stig þegar ein mínúta var eftir, 73-77. Ísland tók þá leikhlé. Jón Arnór fór á línuna þegar 25 sekúndur voru eftir, setti annað og gestirnir tóku leikhlé, 74-77. Leikurinn færðist á vítalínuna á síðustu sekúndum leiksins og áhorfendur létu vel í sér heyra. Forskot gestana var 4 stig þegar 12 sekúndur voru eftir, 76-80. Jón Arnór setti þá upp í glæsilega þrist vel fyrir utan og minnkaði muninn í eitt stig, 79-80, og 8 sekúndur eftir. Ísland var fljótt að senda manninn á línuna, hann klikkaði úr fyrra skotinu en setti það seinna. Ísland hafði þá 5 sekúndur til þess að jafna metin, Jón Arnór brunaði fram, kom sér í sniðskotið en það geigaði og leikurinn því búinn. Bæði áhorfendur og leikmenn Íslenska liðsins létu dómaran heyra það eftir leikinn og vildu meina að skot Jón Arnórs hefði verið slegið af hringnum og karfan því átt að standa. Dómararnir gengu því af vellinum í fylgd öryggisvarða.
Grátlegt tap Íslenska liðsins sem spilaði stórkostlegan leik og áttu svo sannarlega meira skilið úr leiknum. Jón Arnór sýndi það enn og aftur af hverju hann er besti leikmaður Íslenska liðsins og gott betur en það.
Næsti leikur liðsins fer fram í Laugardalshöllinni á föstudaginn þegar liðið mætir Rúmeníu. Liðið á svo sannarlega góðan stuðning skilið líkt og í kvöld og því tilefni til þess að fjölmenna í höllina.
mynd: [email protected]