Hann var ekki áferðarfagur leikurinn sem boðið var upp á í Dalhúsum í kvöld þegar Fjölnir tók á móti Keflavík í fjórðungsúrslitum Lengjubikarsins. Keflvíkingar virðast engan veginn tilbúnir í slaginn í Dominosdeildinni miðað við frammistöðu þeirra í kvöld.
Sterkar varnir einkenndu leik beggja liða í upphafi. Fjölnismenn hreyfanlegir og fljótandi í vörninni en Keflvíkingar fastir fyrir. Þó tókst Fjölni að nýta þau fáu færi sem þeir fengu mun betur en Keflvíkingar, sem ítrekað glutruðu frá sér galopnum færum til að skora. Lítið breyttist í öðrum hluta og voru barátturglaðir Fjölnismenn yfir í hálfleik 30-24 þar sem bæði lið skutu vel undir 40%.
Sóknin glæddist örlítið hjá Keflavík í þriðja hluta en þegar líða fór á seinni hálfleik réði andleysið algerlega ríkjum. Fjölnismenn fóru að hitta úr ótrúlegustu skotum og setja niður körfur út ómögulegum færum.
Lokatölur 71-58 fyrir Fjölni í leik sem varð aldrei spennandi.
Frákastabaráttan var algerlega eign Fjölnis með 47 gegn 26 frá Keflavík. Allir sem voru í gulum búningi réðust að körfunni og rifu niður alla lausa bolta. Keflvíkingar hins vegar dunduðu sér við að taka ljósmyndir á meðan.
Daron Sims leiddi heimamenn með 19 stig en næstur á eftir var Davíð Ingi Bustion með 11 stig, en hann var eins og raketta um allan teiginn á meðan hann var inni á vellinum.
Hjá Keflavík var Guðmundur Jónsson eini á lífi með 17 stig en þau komu langflest í seinni hálfleik. Davíð Hermannsson bætti við 12 stigum og tók 6 fráköst en Keflvíkingar bíða enn eftir manni að vestan og mun það mál vera í vinnslu og munar þar um minna.
Mynd: Davíð Ingi Bustion fór oft illa með Damon Johnson í leiknum. ([email protected])



