10:10:40
Nóttin í NBA einkenndist af mikilli spennu og réðust flestir leikirnir ekki fyrr en á lokasprettinum.
New York Knicks, sem höfðu átt afar erfiða leikjatörn að baki, voru hársbreidd frá því að rjúfa þriggja leikja taphrinu þegar Brandon Roy hjá Portland Trail Blazers lagði boltann ofan í körfuna um leið og lokaflautið gall og tryggði sínum mönnum kærkominn sigur, 109-108, í baráttunni um heimaleikjarétt í Vesturdeildinni. Roy var með 19 stig fyrir Blazers, Travis Outlaw var með 23 og miðherjinn Greg Oden var með 17 stig og 12 fráköst. Hjá Knicks var maskínan David Lee með 29 stig og 11 fráköst og Al Harrington og Nate Robinson voru með 19 stig hvor.
Þá sigraði hið unga og efnilega lið Oklahoma City Thunder sacramento Kings og voru lokasekúndurnar álíka spennandi þar sem Kevin Durant og Jeff Green gerðu gæfumuninn fyrir Thunder. Lokatölur voru 113-116, en nú er Sacramento á botni Vesturdeildarinnar eftir hryllilegt gengi, á meðan Thunder og Clippers hafa verið að rétta úr kútnum.
Loks skoraði Caron Butler flautukörfu fyrir botnlið Austursins, Washington Wizards, sem tryggði sigur gegn Indiana Pacers, 119-117. Butler, sem hafði verið að berjast við flensu og misst af tveimur leikjum lét aldeilis til sín taka í leiknum og gerði 35 stig og tók 13 fráköst. Danny Granger var stigahæstur í liði Pacers með 29 stig.
Hér eru úrslit næturinnar:
San Antonio 105
Boston 99
LA Lakers 101
Cleveland 91
New York 108
Portland 109
New Jersey 84
Orlando 101
Charlotte 92
Miami 96
Indiana 117
Washington 119
Sacramento 113
Oklahoma City 116
Minnesota 97
New Orleans 101
Phoenix 107
Detroit 97
Utah 96
Golden State 116
ÞJ



