spot_img
HomeFréttirSpennuleikir í NBA í nótt

Spennuleikir í NBA í nótt

13:14:42
Nóttin í NBA var spennuþrungin svo ekki sé meira sagt þar sem einn leikur réðist eftir framlengingu og tveir eftir tvær framlengingar. Svo var það leikur Atlanta og Chicago sem var ekki framlengdur en þar voru engu að síður skoruð fleiri stig en í nokkrum hinna framlengdu.

Nánar um leikina hér að neðan…

Charlotte Bobcats – New Jersey Nets  103-114

New Jersey Nets eru með einn besta árangur allra liða í NBA á útivelli, en hafa átt í erfiðleikum heima við. Charlotte Bobcats voru í nótt enn eitt liðið til að liggja heima gegn Vince Carter og Nets.

Nets virtust ætla að klára leikinn en Bobcats klóruðu sig aftur inn með frábæru framlagi frá Gerald Wallace, sem skoraði 16 stig í fjórða leikhluta, og jöfnuðu leikinn.

Í framlengingunni voru það hins vegar Nets sem áttu meira inni og bekkurinn þeirra skilaði öruggum sigri að lokum.

Nets: Carter (28/3/6), Harris (26 stig), Hayes (14 stig), Boone (12 stig), Lopez (13 fráköst).
Bobcats: Wallace (32/9), Bell (18 stig), Okafor (16/10), Felton (13 stig).

Atlanta Hawks – Chicago Bulls 129-117

Atlanta Hawks hófu leiktíðina af miklum krafti en gáfu svo eftir á tímabili, en hafa verið að koma sterkir inn að nýju og hafa nú unnið 7 af síðustu 8 leikjum. Þeirra helsti styrkleiki hefur verið vörnin, en í gær var annað uppi á teningnum. Atlanta vann Chicago í æsilegum hlaupa- og sóknarbolta þar sem Ben Gordon hjá Chicago og Joe Johnson hjá Atlanta fóru á kostum.

Fljótlega varð ljóst í hvað stefndi þar sem stigin hrönnuðust upp og var staðan í hálfleik 68-63 fyrir Atlanta.

Ben Gordon var sjóðheitur í langskotunum, og setti 6 af 8 3ja stiga körfum, flestar í fyrri hálfleik, og sló með þeim met Scottie Pippens yfir flestar 3ja stiga körfur í sögu Chicago Bulls.

Joe Johnson og félagar hans voru hins vegar líka á skotskónum og voru bæði lið raunar með skotnýtingu langt yfir 50%. Hawks voru svo líka miklu sterkari í fráköstunum og í stigum undir körfunni.

Á lokasprettinum voru Hawks svo seigari þar sem Marvin Williams breytti stöðunni í 119-112 með körfu og víti þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka, skömmu síðar kom Josh Smith þeim svo í 121-112 og leikurinn var úti.

Hawks: Johnson (41/3/8), Smith (24/7/5), Bibby (17/2/7), Williams (16/8), Horford (10/10/5), Pachulia (10/7).
Bulls: Gordon (33/4/6), Rose (27/4/7), Thomas (15 stig), Sefolosha (14), Nocioni (11 stig), Hughes (11 stig).

Houston Rockets – Utah Jazz 120-115

Utah Jazz eru nú í svipuðum málum og houston var í upphafi leiktíðar þar sem stór hluti af byrjunarliðinu er í meiðslum. Þrír efstu menn Jazz í stigaskorun og fráköstum eru fjarverandi vegna meiðsla, þeir Carlos Boozer, Paul Millsap og Mehmet Okur.

Þeir sem eftir eru stóðu sig hins vegar hetjulega gegn Houston, sem léku að vísu án Tracy McGrady, sem enn og aftur er kominn á meiðslalistann, og gáfu sig ekki fyrr en eftir tvær framlengingar.

Það var varnarleikur Jazz í fjórða leikhluta sem kom þeim aftur inn í leikinn, en þar unnu þeir upp 10 stiga forskot Rockets. Í fyrri framlengingunni skoruðu liðin fimm stig hvort, en í þeirri seinni var það Ron Artest sem tók sína menn í Houston á bak sér og tryggði þeim seiglusigur.

Rockets: Artest (28/8/4), Yao (26/11), Alston (13/7), Battier (11/4), Scola (11/14), Head (10 stig), Brooks (10 stig).
Jazz: Brewer (23/7/4), Kirilenko (20/10/5/3/2), Miles (15 stig), Williams (14/3/11), Koufous (14 stig), Korver (13/3/6), Fesenko (12/11).

San Antonio Spurs – Memphis Grizzlies 106-103

Tim Duncan og félagar hans í San Antonio Spurs sýndu það og sönnuðu enn einu sinni í nótt að reynsla og rólegheit undir pressu er affarasælast þegar komið er í spennuleiki.

OJ Mayo og Memphis Grizzlies fóru næstum alla leið gegn stórveldinu gamalreynda, en undir lokin voru það Tony Parker, sem setti tvær af þremur körfum Spurs í lokaleikhlutanum, og Michael Finley, sem varði síðasta skot Rudy Gay, sem riðu baggamuninn.

Memphis byrjaði betur og leiddu allt fram í fjórða leikhluta, en máttu sætta sig við 12. tapið í 14 útileikjum. Spurs eru hins vegar á réttri leið eftir erfiða byrjun á leiktíðinni og hafa unnið fimm leiki í röð og 11 af síðustu 13 leikjum.

Spurs: Parker (32/4/5), Duncan (29/5/3), Ginobili (20/4/4), Finley (10/6/5).
Grizzlies: Mayo (29/4/3), Hakim Warrick (16/7), Gasol (15/10), Gay (13/11), Conley (11/5).

Úrslit næturinnar:

Chicago 117
Atlanta 129

New Jersey 114
Charlotte 103

Oklahoma City 95
Washington 104

Orlando 118
Minnesota 94

Detroit 87
Milwaukee 76

Utah 115
Houston 120

Memphis 103
San Antonio 106

Toronto 89
Portland 102

Tölfræði leikjanna

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -