11:19:07
Nóttin var víða spennu þrungin í NBA-deildinni í nótt þar sem tveir leikir réðust á lokasekúndunum og einn enn fór í framlengingu. Þá lagði Denver New Orleans í viðureign liðanna sem eru í 2. og 3. sæti í Vesturdeildinni.
Úrslit og nánari umfjöllun hér að neðan…
Miami Heat – New Jersey Nets 101-96
Dwayne Wade og Miami Heat þurftu að taka á öllu sínu til að skríða upp úr holunni sem þeir lentu í í upphafi leiks. Þeir lentu 16 stigum undir strax í fyrsta leikhluta, en með frábærri frammistöðu Wades á báðum endum vallarins komust þeir inn í leikinn og höfðu forystu þegar venjulegur leiktími var að renna út. Keyon Dooling jafnaði hins vegar metin fyrir leikslok, en Heat skreið framúr í framlengingunni. Þetta var annar framlengdi leikur Nets í röð en kvöldið áður höfðu þeir lagt Atlanta.
Wade var með 29 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar fyrir Heat. Auk þess var hann með 4 varin skot, þar af 3 á lykilstundum í leiknum.
Dooling var stigahæstur Nets með 23 stig, Vince Carter var með 20 og Bobby Simmons 19.
Atlanta Hawks – Houston Rockets 103-100
Eftir að hafa tapað fyrir Nets í síðasta leik á dramatísku lokaskoti Vince Carters voru Atlanta Hawks réttu megin í svipaðri sögu í gær þar sem stórskyttan Mike Bibby var örlagavaldurinn. Bibby fékk boltann í hendurnar frá Joe Johnson sem keyrði inn að körfunni og dró að sér varnarmenn áður en hann sendi á Bibby. Hann lét ekki bjóða sér þetta tækifæri tvisvar og smellti niður sigurkörfunni þegar rúm sekúnda var eftir af leiknum. Aaron Brooks fékk færi á að knýja fram framlengingu með 3ja stiga skoti um leið og lokaflautið gall, en hann missti marks.
Josh Smith var stigahæstur hjá Atlanta með 29 stig, Flip Murray var með 17 og Joe Johnson var óvenjurólegur í stigaskoruninni með 14 stig en var með annað eins í stoðsendingum.
Í vængbrotnu liði Houston var Carl nokkur Landry stigahæstur með 18 stig, Von Wafer var með 17, Luis Scola var með 16 stig og 11 fráköst og Yao Ming með 16 stig og 15 fráköst.
San Antonio Spurs – Philadelphia 76ers 108-106
San Antonio Spurs voru næstum búnir að klúðra leik sem var í þeirra höndum þegar Tony Parker bjargaði þeim á ögurstundu.
Eftir að hafa komið upp 21 stigs forskoti með leiftursókn í fyrsta leikhluta slökuðu Spurs á klónni og með frábærri frammistöðu Andre Miller komust Sixers smátt og smátt aftur inn í leikinn. Miller gerði 16 stig í 3. leikhluta einum og kom sínum mönnum yfir í fyrsta sinn, 78-79, með vítaskoti undir lok 3. leikhluta.
Endaspretturinn var svo æsispennandi. Roger Mason, sem hitti úr öllum 5 3ja stiga skotum sínum í leiknum, gaf Spurs 5 stiga forystu, 96-91 þegar fjórði leikhluti var hálfnaður, en Miller jafnaði leikinn að nýju, 104-104 þegar rúm mínúta var eftir af leiknum. Manu Ginobili kom Spurs yfir enn og aftur með sniðskoti en Andre Iguodala jafnaði leikinn jafnharðan þegar 51 sek var eftir.
Parker klikkaði á stökkskoti eftir það, en Ginobili stal boltanum af Miller í næstu sókn. Ginobili tók svo 3ja stiga skot sem geigaði, en Parker náði frákastinu í horninu og skaut til sigurs þegar 0.9 sek voru eftir.
Spurs hafa nú unnið sjö af síðustu átta leikjum, en Philadelphia hafa enn ekki náð að snúa við blaðinu eftir að hafa skipt um þjálfara fyrir nokkrum vikum.
Tim Duncan var stigahæstur Spurs með 26 stig og 12 fráköst, Ginobili var með 21, Mason 19 og Parker var með 15 stig og 10 stoðsendingar. Michael Finley bætti við 14 stigum og hitti úr 4 af 6 3ja stiga skotum. Spurs, sem eru besta 3ja stiga lið deildarinnar, hitti úr 15 af 26 slíkum skotum í þessum leik.
Hjá Sixers var Miller með 28 stig, Iogudala var með 25/8/8 og Thaddeus Young var með 19.
Úrslit næturinnar:
Sacramento 117
Indiana 122
Houston 100
Atlanta 103
Milwaukee 92
Charlotte 102
New Jersey 96
Miami 101
Minnesota 102
Chicago 92
Philadelphia 106
San Antonio 108
New Orleans 100
Denver 105
ÞJ



