spot_img
HomeFréttirSpennandi lokamínútur á Akureyri

Spennandi lokamínútur á Akureyri

Það var fátt sem benti til þess í  upphafi leiks í kvöld að lokakaflinn yrði jafn spennandi og fjörugur og raunin varð á þegar Hamar heimsótti Þór á Akureyri í 1. deild karla. Rétt eins og í síðasta heimaleik Þórs þegar Haukar komu sáu og gjörsigruðu Þór virtist sem sagan ætlaði að endurtaka sig í kvöld enda náðu gestirnir fljótlega 20 stiga forskoti strax í fyrsta leikhluta.
 
Á sama tíma og allt gekk á afturfótunum hjá Þór gekk allt upp hjá leikmönnum Hamars. Þórsarar náðu þó undir lok fjórðungsins að laga stöðuna svo þegar annar leikhluti hófst höfðu gestirnir 11 stiga forystu 15-26.
 
Annar leikhlutinn var tiltölulega jafn en gestirnir voru þó alltaf skrefinu á undan og unnu leikhlutann með fjórum stigum og leiddu því í hálfleik með 15 stigum 32-47.
 
Það er ljóst að hálfleiksræða Bjarka Ármanns þjálfara Þórs hafi haft áhrif því leikmenn Þórs komu gríðarlega vel stemmdir til síðari hálfleiks og voru greinilega staðráðnir í að koma sér í alvöru inn í leikinn á ný. Smán saman tók liðið að saxa á forskot gestanna. Leikhlutann vann Þór með 6 stigum og munurinn á liðunum aðeins 9 stig þegar fjórði leikhlutinn hófst 54-63.
 
Fjórði leikhlutinn var afar fjörugur og æsispennandi allt frá upphafi til loka. Gríðarleg barátta í báðum liðum og Þór hélt áfram að saxa á forskot gestanna og þegar um sex mínútur voru eftir af leiknum jafnaði Þór 68-68. Það var svo þegar 3:44 lifðu leiks komst Þór yfir 72-70 og í hönd fóru æsispennandi lokakafli. Þórsliðið virtist komið á bragðið og hlutirnir fóru að falla með þeim og þegar 1:51 var eftir hafði Þór fjögurra stiga forskot 78-74 útlitið gott. En á þessum tæpu tveimur mínútum snérist dæmið aftur við og gestirnir skoruðu 14 stig gegn 4 Þórs og lönduðu 7 stiga sigri 81-88.
 
Það má eiginlega segja að slök byrjun Þórs, þegar Hamar náði 20 stiga forskoti í fyrsta leikhluta hafi verið það sem felldi þá þegar upp var staðið. Of mikil orka fór í að vinna upp það forskot og því fór sem fór. En ef frá er skilin þessi dapri kafli í upphafi leiks lék Þórsliðið annars ágætlega í kvöld og hefðu allt eins geta tekið sigurinn undir lokin hefðu þeir haft örlitla heppni með í farteskinu. En sigur Hamars engu að síður sanngjarn þegar upp var staðið.
 
Stig Þórs gerðu: Ólafur Aron Ingvason 19, Halldór Örn Halldórsson 18, Darko Milosevic 13, Óðinn Ásgeirsson 12,Elías Kristjánsson 10, Bjarni Konráðsson 5 og Sindri Davíðsson 4.
 
Hjá gestunum var Jerry Lewis Hollis stigahæstur með 36 stig, Örn Sigurðsson og Halldór Gunnar Jónsson með 16 hvor.
 
 
Mynd og umfjöllun/ Páll Jóhannesson
Fréttir
- Auglýsing -