spot_img
HomeFréttirSpenna og fjör í Suðurnesjarimmum

Spenna og fjör í Suðurnesjarimmum

13:34 

{mosimage}

 

 

Þriðji leikur Njarðvíkur og Grindavíkur í undanúrslitum Iceland Express deildar karla fer fram í Ljónagryfjunni í kvöld kl. 20:00. Staðan í einvíginu er 1-1 eftir sinn hvorn glæstan heimasigurinn hjá liðunum. Njarðvíkingar höfðu öruggan 96-78 sigur í Ljónagryfjunni í fyrsta leik en Grindavík jafnaði metin í Röstinni með 88-81 sigri eftir að hafa leitt 56-26 í hálfleik. Mikið mæðir á fyrirliðum liðanna um þessar mundir sem og öðrum leikmönnum en þeir Friðrik Stefánsson og Páll Axel Vilbergsson höfðu þetta að segja um einvígið:

 

Friðrik Stefánsson

Varnarleikur okkar mun skipta sköpum í kvöld, þ.e. hvort hann verði til staðar eða ekki. Nú eru bæði lið búin að blása út og ég reikna með jafnari leikjum héðan í frá. Við erum að spila við hörkulið og þessir Grindvíkingar eru engir aumingjar. Maður leggur sig fram allt árið til að komast þar sem við erum nú, fólkið er loks farið að fylla húsin og þá eru allir glaðir. Það er frábær skemmtun í vændum og fyrrum þjálfari okkar er með Grindvíkingana. Þeir búa vel að því að hafa Friðrik í brúnni og hann kann að koma okkur í Njarðvík í vont skap.

 

Páll Axel Vilbergsson

Ég bara veit vart við hverju á að búast í kvöld. Við vorum burstaðir í fyrsta leik en komum sterkir til baka í öðrum leiknum. Þetta getur spilast á alla vegu í kvöld en liðin eru mjög ólík. Síðustu leikir hafa verið skemmtilegir hjá okkur í Girndavík og við höfum verið að ná góðum leikjum og leikköflum og við ætlum bara að halda áfram að hafa gaman af þessu og þá getur allt gerst. Það er engin brjáluð pressa á okkur að vinna leikinn í kvöld, pressan er á Njarðvík, en vitaskuld ætlum við okkur sigur.

 

Hvor fyrirliðinn hefur betur í Ljónagryfjunni kemur í ljós í kvöld kl. 20:00 en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitin svo næsta viðureign eftir leik kvöldsins fer fram í Grindavík á mánudag.

 

Í kvennaboltanum er staðan 2-1 fyrir Keflavík gegn Grindavík en leikir þessara liða í undanúrslitunum hafa verið frábær skemmtun. Keflavík tók forystuna í einvíginu á þriðjudag þegar þær lögðu Grindavík 99-91 en Keflavík leiddi allan tímann. Tamara Bowie hefur verið að skora að vild fyrir Grindavík en á þriðjudag tókst Keflavík að hafa hemil á henni þar sem Bowie gerði aðeins 14 stig í leiknum. Í fyrstu tveimur leikjunum gerði hún alls 81 stig, fyrst 39 og svo 42. Stigaskorið hefur verið heldur dreifðara í herbúðum Keflavíkur en TaKesha Watson hefur farið fyrir Keflavík í sókninni en varnarlega hefur Keflavíkurliðið verið að vinna vel og svæðisvörn liðsins hefur oftar en ekki sent Grindavíkurkonur í öngstræti. Þá hefur Birna Valgarðsdóttir verið að koma sterk inn fyrir Keflavík en fyrir úrslitakeppnina var talið að hún gæti ekki leikið með Keflavík sökum meiðsla. Liðin mætast í fjórða leiknum á morgun og fer hann fram í Röstinni í Grindavík og hefst kl. 19:15.

 

www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -