18:45
{mosimage}
(Candace Parker, troðsludíva!)
Nokkur mynd er komin á deildarkeppnina í WNBA deildinni í Bandaríkjunum þar sem Los Angeles Sparks leiðir Vesturströndina með 10 sigra og 3 tapleiki en Connecticut Sun stendur best að vígi í Austurdeildinni með 11 sigra og þrjá tapleiki. Candace Parker leikmaður LA Sparks tróð aftur í nótt en hún gerði slíkt hið sama á dögunum og varð þar með aðeins önnur konan til að troða boltanum í körfuna í WNBA deildinni.
Sex leikir fóru fram í deildinni í nótt en deildarkeppnin hófst í maí og lýkur í september.
Úrslit leikjanna í nótt:
Washington Mystics 90-98 Phoenix Mercury
Detroit Shock 68-85 Connecticut Sun
Sacramento Monarchs 73-78 Indiana Fever
New York Liberty 69-91 Minnesota Lynx
San Antonio Silver Stars 81-82 Houston Comet (framlengt)
Seattle Storm 62-76 Los Angeles Sparks
Diana Taurasi er um þessar mundir stigahæsti leikmaður deildarinnar með 25,4 stig að meðaltali í leik en Taurasi leikur með Phoenix Mercury og er 26 ára gömul og skilar stöðu bakvarðar. Næststigahæsti leikmaður deildarinnar er Cappie Pondexter en hún leikur við hlið Taurasi í liði Mercury og saman skipa þær eitt sterkasta sóknarbakvarðapar deildarinnar. Gengi Mercury hefur þó ekki verið sem skyldi það sem af er leiktíðar en liðið situr í næstneðsta sæti Vesturstrandar með 5 sigra og 7 tapleiki.
Candace Parker sem á dögunum komst í heimspressuna fyrir það að verða önnur konan í WNBA deildinni til þess að troða í leik tróð aftur í nótt gegn Seattle Storm en Parker er tíundi stigahæsti leikmaður deildarinnar með 17,2 stig að meðaltali í leik. Parker er nýliði í WNBA deildinni og leikur stöðu framherja.
Parker er því að stimpla sig inn í deildina svo um munar en í nótt gerði hún 22 stig og tók 11 fráköst fyrir Sparks auk þess að verja 3 skot.



