spot_img
HomeFréttirSpanoulis spilar alltaf með landsliðinu – stefnir á verðlaun

Spanoulis spilar alltaf með landsliðinu – stefnir á verðlaun

Einn sterkasti leikmaður Evrópu er án efa Grikkinn Vassilis Spanoulis sem kom öllum á óvart á dögunum og skipti frá Panathinaikos yfir í Olympiakos. En eins og flestir vita er það fátítt að leikmenn fari á milli þessara erkifjenda og stórvelda í Aþenu. Spanoulis verður á ferð með gríska landsliðinu í sumar eins og önnur sumur en þessi stjórstjarna er ólíkur mörgum körfuboltamönnum að því leyti að hann er alltaf með landsliðinu á sumrin.
Spanoulis segir að stefnan sé að komast í undanúrslit og þ.a.l. eiga möguleika á að komast í verðlaunasæti. Grikkir fengu silfur fyrir fjórum árum á HM í Japan og bronsið á EM í fyrra. ,,Okkar takmark er undanúrslit og verðlaun,” sagði Spanoulis og bætti við. ,,Þetta er langtímamarkmið. Við verðum að taka einn leik í einu en við megum ekki vera hræddir og fara í felur. Við megum ekki vera smeykir við að segja sannleikann og segja frá okkar metnaðarfullu markmiðum. Við höfum sýnt það undanfarin ár að Grikkland er eitt besta lið heims. Við viljum gera Grikkland stolt enn og aftur.”
 
Í fyrra tók Grikkland bronsið á EM þar sem Spanoulis var einn besti leikmaður liðsins. Í ár verður liðið skipað að mörgu leyti sömu mönnum og því er ekkert óeðlilegt að Spanoulis vilji að liðið stefni langt. ,,Við þekkjum hvorn annan mjög vel, við vitum hvað við viljum og við þekkjum aðferðafræði þjálfarans. Við vitum hvað hann vill, hvað hann hugsar og hvers hann ætlast af okkur. Þannig að það auðveldar hlutina afar mikið.”
 
Sumarið í ár verður sjöunda sumarið í röð sem Spanoulis er á vaktinni með landsliðinu. Hann segir að það hafi aldrei hvarflað að sér að taka hvíld eitt sumar. ,,Ekki eins og er. Ég er mjög stoltur að keppa í landsliðsbúningnum. Hvað mig varðar er það mikill heiður að keppa í búning með þjóðfánanum á og það er frábært ef liðið getur glatt heiminn. Hvað mig varðar er ekki hægt að breyta því. Ég vil vera hér,” sagði Spanoulis.
 
Mynd: Spanoulis í leik með Grikkjum gegn Ísrael – kemst hann á pall enn á ný í sumar?
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -