spot_img
HomeFréttirSpá fyrir Dominos deild kvenna – 8. sæti: Skallagrímur

Spá fyrir Dominos deild kvenna – 8. sæti: Skallagrímur

Árleg spá Körfunnar fyrir Dominos deildirnar er nú klár en sérstakir sérfræðingar Körfunnar settu saman spánna. Sérfræðingarnir eru pennar Körfunnar, leikmenn og þjálfarar sem leikið hafa í Dominos deildunum eða þekkja vel til. Það styttist óðum í að Dominos deildin hefjist og því við hæfi að byrja að telja niður með því að spá í spilin.

Við hefjum þessa spá með því að kynna liðið sem er endar í 8. sæti og því neðsta samkvæmt spánni.

8. sæti – Skallagrímur

Mikil óvissa hefur umlukið Skallagrím í sumar, á tímabili var ekki ljóst hvort liðið yrði með í Dominos deildinni og hvaða leikmenn myndu leika í Fjósinu. Síðustu daga hafa hinsvegar verið bjartari fyrir Skallagrím þar sem hlutirnir hafa verið að skýrast og leikmannamál með. Liðið verður skipað fjórum erlendum leikmönnum líkt og á síðasta tímabili og mun mikið mæða á þeim ásamt Sigrúnu Sjöfn. Undirbúningstímabil liðsins er nýbyrjað og þjálfari liðsins án reynslu af þjálfun í efstu deild. Of mörg hættumerki eru í kringum Skallagrím og því erfitt að spá þeim góðu gengi.

Komnar og farnar:

Komnar:

Emilie Hesseldal frá Vitória S.C. (Portúgal)

Charlotte Thomas-Rowe frá Lemvig (Danmörk)

Inga Rósa Jónsdóttir frá Snæfell

Farnar:

Ines Kerin til Bolzani (Slóvenía) 

Shequila Joseph til Rutronik Stars Keltern (Þýskaland)

Brianna Banks óljóst

Fanney Lind Thomas til Breiðablik

Mikilvægasti leikmaður:

Án efa Sigrún Sjöfn Ámundadóttir. Sigrún hefur lang mestu reynsluna í liðinu og ætli Borgnesingar sér að halda sér í deildinni þá er algjör forsenda fyrir því að Sigrún leiki eins vel og hún getur. Hún náði sér ekki fullkomlega á strik á síðustu leiktíð og vill væntanlega sýna sitt rétta andlit í vetur.

Fylgist með

Lisbeth Inga Kristófersdóttir og Heiður Karlsdóttir eru 14 ára gríðarlega efnilegar körfuboltastúlkur úr Borgarfirðinum. Skallagrímur býr ekki yfir mikilli breidd og gæti því verið að þær Lisbeth og Heiður fái einhverjar mínútur á vellinum í vetur.

Þakið:

Erlendir leikmenn liðsins verða virkilega öflugar og stemmningin í liðinu verður betri en síðustu ár. Þá nær liðið að berjast um úrslitakeppnissæti.

Gólfið:

Liðið nær ekki upp stemmningu og lenda í vandræðum allt tímabilið, fallið verður staðreynd.

Spá Körfunnar fyrir Dominos deild kvenna 2019/2020

  1. _________________
  2. _________________
  3. _________________
  4. _________________
  5. _________________
  6. _________________
  7. _________________
  8. Skallagrímur
Fréttir
- Auglýsing -