Árleg spá Körfunnar fyrir Dominos deildirnar er nú klár en sérstakir sérfræðingar Körfunnar settu saman spánna. Sérfræðingarnir eru pennar Körfunnar, leikmenn og þjálfarar sem leikið hafa í Dominos deildunum eða þekkja vel til. Það styttist óðum í að Dominos deildin hefjist og því við hæfi að byrja að telja niður með því að spá í spilin.
Við hefjum þessa spá með því að kynna liðið sem er spáð 11. sæti og þar með falli.
11. sæti – ÍR
Það er stutt á milli í þessum bransa en örfáir mánuðir eru síðan ÍR var einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og missti liðið nánast allt byrjunarliðið sitt í vetur. Önnur eins blóðtaka hefur varla sést hjá einu liði líkt og hjá ÍR í sumar. Það mun taka tíma að slípa saman þetta nýja ÍR lið en fáir þjálfarar eru betri í því en Borche og verður því gaman að sjá hvort hann geti kreist allt útúr liðinu enn og aftur. Það er þó allt útlit fyrir langan vetur í Breiðholtinu.
Komnir og farnir:Í
Komnir:
Arnór Hermannsson frá Breiðablik
Collin Pryor frá Stjörnunni
Georgi Boyanov frá Cherno More (Búlgaría)
Evan Singletary
Farnir:
Matthías Orri Sigurðarson í KR
Hákon Örn Hjálmarsson til Binghampton Bearcats (USA)
Sigurður Þorsteinsson til Frakklands
Sigurkarl Róbert Jóhnnesson hættur
Ólafur Björn Gunnlaugsson til Telekom Bonn (Þýskaland)
Kevin Capers óljóst
Gerald Robinson til Hauka
Robert Kovac til Cibona (Króatía)
Mikilvægasti leikmaður:
Daði Berg Grétarsson missti af stórum hluta síðasta tímabils vegna meiðsla en hann sýndi mikilvægi sitt í úrslitakeppninni þegar hann kom inn. Einn allra öflugasti varnarmaður deildarinnar og getur gjörsamlega tekið menn úr leik. Mun mikið mæða á honum ef hann verður heill í vetur.
Fylgist með
Sæþór Elmar Kristjánsson mun væntanlega fá stórt hlutverk á þessu tímabili. Hann hefur hrifið marga síðustu ár en þarf núna að finna stöðugleika og sýna að hann geti leitt liðið áfram.
Þakið:
Borche er þekktur fyrir að ná nákvæmlega öllu úr sínu liði og gæti ef allt gengur upp slefað inn í úrslitakeppnina. 8. sætið.
Gólfið:
Fallbaráttan verður væntanlega niðurstaðan hjá ÍR í vetur og gæti liðið farið illa úr þeirri baráttu ef allt fer í vaskinn. 12. sætið.
Spá Körfunnar fyrir Dominos deild karla 2019/2020
- _________________
- _________________
- _________________
- _________________
- _________________
- _________________
- _________________
- _________________
- _________________
- _________________
- ÍR
- Þór Ak