spot_img
HomeFréttirSópurinn er kannski ekki svo slæmur eða hvað?

Sópurinn er kannski ekki svo slæmur eða hvað?

Leiktíðinni lauk hjá kvennaliði Stjörnunnar í gærkvöldi þegar liðið tapaði þriðja undanúrslitaleik sínum gegn Snæfell í Domino´s-deild kvenna. Garðbæingar þurfa ekki að örvænta en kvennalið félagsins var að taka þátt í sinni fyrstu úrslitakeppni í úrvalsdeild í sögu félagsins. Með því að láta sópa sér 3-0 út í sumarið verður Stjarnan níunda kvennaliðið til þess að verða fyrir barðinu á sópnum í sinni fyrstu atrennu að úrslitakeppninni.

ÍR á „heiðurinn“ að því að vera fyrsta kvennaliðið í sögunni til að verða sópað út í sinni fyrstu úrslitakeppni en það var árið 1993. En þessi niðurstaða Stjörnunnar er ekki alslæm þar sem Garðbæingar deila þessari reynslu t.d. með Snæfell sem var sópað 2-0 út úr sinni fyrstu úrslitakeppni árið 2010. Skjótt skipast veður í lofti í boltanum og nú er Snæfell á leið í úrslit í fjórða skipti í röð!

Stjarnan kom upp í úrvalsdeild síðastliðið sumar sem nýliði eftir sigur í 1. deild kvenna og fór í gegnum sína fyrstu deildarkeppni með 50% sigurhlutfall, 14 sigrar, 14 tapleikir.

Ef við svo skoðum lið sem hefur verið sópað út í fyrstu tilraun sinni í úrslitakeppni þá eru þrjú lið af þessum níu sem síðar hafa haldið áfram og orðið Íslandsmeistarar en það eru Snæfell, Haukar og Njarðvík. Það má þá kannski leiða að því líkum að sópurinn sé ekki svo slæmur eftir allt saman, eða hvað?

Kvennalið sem sópað hafa verið út í sinni fyrstu úrslitakeppni
(Miðað við fyrstu tilraun liðanna)

 
1993: ÍR (ÍR 0-2 KR) (undanúrslit)
1994: Tindastóll (Keflavík 2-0 Tindastóll) (undanúrslit)
1997: ÍS (KR 2-0 ÍS) (undanúrslit)
2001: KFÍ (Keflavík 2-0 KFÍ) (undanúrslit)
2003: Njarðvík (Keflavík 2-0 Njarðvík) (undanúrslit)
2005: Haukar (Grindavík 2-0 Haukar) (undanúrslit)
2009: Valur (Hamar 2-0) (undanúrslit)
2010: Snæfell (Keflavík 2-0 Snæfell) (undanúrslit)
2017: Stjarnan (Snæfell 3-0 Stjarnan) (undanúrslit)

Mynd/ Þorsteinn Eyþórsson

Fréttir
- Auglýsing -