spot_img
HomeFréttirSópurinn á loft í Vesturbænum

Sópurinn á loft í Vesturbænum

 

Í kvöld mættust KR og Þór Akureyri í DHL höllinni í leik sem bæði liðin þurftu að sigra. Þórsarar höfðu væntanlega engan áhuga á því að fara í sumarfrí en á sama tíma er erfitt að sjá fyrir sér að KR-ingum hafi langað sérstaklega mikið aftur til Akureyrar.

Eftir jafnan leik þá reyndust KR sterkari á lokasprettinum og höfðu sigur 90-80. Hjá heimamönnum var Pavel Ermolinski með þrefalda tvennu, 10 stig, 16 fráköst og 10 stoðsendingar, en hjá gestunum var Tryggvi Snær Hlinason atkvæðamestur með 16 stig og 14 fráköst.

 

Gangur leiksins

 

Leikurinn var jafn og spennandi alveg frá byrjun og höfðu Þórsarar yfirhöndina nær allan 1. leikhluta eftir að KR-ingar höfðu byrjað örlítið betur. Undirritaður hafði það á tilfinningunni að heimamenn hafi haldið að Þórsarar myndu bara mæta með skottið á milli lappanna en annað kom á daginn, gestirnir hittu vel fyrir utan og KR voru duglegir að hjálpa til með lélegum töpuðum boltum og áhugalausri vörn.

 

Í 2. leikhluta hélt spennan áfram og létu leikmenn beggja liða hlutina fara svolítið í taugarnar á sér, Pavel Ermolinski fékk á sig villu fyrir að hrinda Sindra Davíðssyni undir körfunni og hinum megin á vellinum þá áttust Þröstur Leó og Brynjar Þór við þangað til dómarar leiksins þurftu að grípa inn í. Það þurfti eitthvað mikið til þess að kveikja í áhorfendum og Þórir Þorbjarnarson gerði sitt besta til þess með tilþrifum leiksins, greip sendingu og tróð boltanum yfir Tryggva Snæ. Frábærlega gert. Tryggvi áttaði sig á því í kjölfarið að hann var langstærsti leikmaður vallarins og tróð yfir Snorra Hrafnkelsson og fékk villu að auki. Leikurinn var áfram jafn og voru lálfleikstölur 41-45.

 

Eftir leikhléið virtust KR-ingar ætla að sprengja upp leikinn þegar að þeir skoruðu fyrstu 6 stigin og Þórsarar áttu í miklum vandræðum með að skora, þeir unnu sig þó út úr því og spilaðist 3. leikhluti mikið til eins og 2. leikhlutinn gerði, Þórsarar með nauma yfirhönd en KR aldrei langt undan og virtust svara hverju áhlaupi Þórsara með þriggja stiga körfum. Staðan eftir 3 hluta var 59-62 Þór í vil og kannski farið að fara um einhverja KR-inga í stúkunni.

 

Það reyndist þó alger óþarfi, því þó svo að leikurinn hafi verið jafn allan 4. leikhluta þá eru KR-ingar einfaldlega með leikmenn sem kunna að klára svona leiki þegar það þarf og voru Brynjar Þór og Jón Arnór sérstaklega sterkir undir lokin. KR skellti í alvöru vörn síðustu mínúturnar og voru opnu þristarnir sem Þórsarar voru orðnir vanir ekki lengur til staðar. KR-ingar voru svo svellkaldir á vítalínunni í lokin og sendu Þórsara í sumarfrí.

 

 

Vítalínan

 

Vítalínan reyndist báðum liðum erfið í kvöld en þó sérstaklega Þórsurum, sem gáfu tóninn með því að klikka úr fyrstu 4 vítunum sínum í leiknum, 50% vítanýting í jöfnum leik á móti frábæru KR liði er ávísun á tap, KR-ingar skutu 60% sem í sjálfu sér er ekkert til að hrópa húrra fyrir, en vítanýting KR-inga lagaðist mikið þegar að líða fór á leikinn.

 

 

Endakallar

 

Þetta var ekki vel spilaður leikur hjá KR-ingum framan af og voru helstu skorarar liðsins ekki að gera miklar rósir í fyrri hálfleik. Það er þó þannig, að til þess að vinna jafn frábærlega mannað lið og KR þá þarf einfaldlega að skila boltanum í körfuna í sókninni í lok leikja, því að KR er með ótrúlegt samansafn af mönnum sem kunna að setja stór skot sama hversu góður varnarleikur er spilaður. Brynjar svaraði öllum stóru skotunum hjá Þór í 4. leikhluta og svo komst Jón Arnór að, skoraði 6 stig í röð og lokaði leiknum.

 

 

Í síðasta skipti (haltu í höndina á mér)

 

Eftir frábæran feril og góðan vetur þá höfum við líklega séð það síðasta af hinum stórskemmtilega Darrell Lewis. Hann fór út með hvelli í kvöld og átti fínan leik og reyndist KR-ingum erfiður ljár í þúfu með 14 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar.

 

Einnig má telja það mjög líklegt að Tryggvi Snær Hlinason hafi sagt sitt síðasta á Íslandi í bili, strákurinn fer sennilega út í sumar og það verður virkilega gaman að fylgjast með honum hvar sem hann verður að spila á næsta tímabili.

 

 

Næstu skref

 

Þrátt fyrir að hafa verið sópað út í fyrstu umferð þá verður að telja þetta tímabil sem gott hjá Þórsurum, frábært hjá nýliðum sem misstu byrjunarliðsmanninn Danero Thomas á miðju tímabili að skila sér í úrslitakeppnina.

 

KR-inga geta fengið hin ýmsu lið í næstu umferð, Grindavík, Þór Þorlákshöfn eða ÍR. Líklegt er að þeir fái aðeins meiri mótspyrnu en þá þýðir líka ekki að byrja leikina með slappri sókn og lélegri vörn eins og í kvöld. Það er samt erfitt að sjá KR-inga vera stoppaða fyrr en mögulega í úrslitum, en það getur auðvitað allt gerst.

 

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson

Myndir Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -