spot_img
HomeFréttirSópurinn á loft í Ásgarði

Sópurinn á loft í Ásgarði

Stjörnumenn tóku í kvöld á móti ÍR-ingum í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Domino’s deildar karla. Eftir spennuþrungna sigra Stjörnumanna í fyrstu tveimur leikjum einvígisins var ljóst að ÍR-ingar þurftu að vinna í Ásgarði til að sleppa við sumarfríið þetta árið. Þriðji leikurinn olli ekki vonbrigðum frekar en fyrri tveir leikirnir og var hnífjafn nánast allan tímann. 

 

Eftir að Stjörnumenn höfðu náð að slíta sig frá gestunum í fjórða leikhluta og ná 10 stiga forystu virtust Garðbæingar vera komnir langleiðina í undanúrslit, en ÍR-ingar gáfust hins vegar aldrei upp og lokakaflinn varð æsispennandi. Fyrir lokasókn Stjörnunnar höfðu heimamenn þriggja stiga forskot, 75-72. Stjarnan tekur lélegt skot og ÍR-ingar ná frákastinu og bruna fram í sókn. Þar fá þeir galopið þriggja stiga skot í horninu, sem þeir hins vegar klikkuðu á um leið og lokaflautan gall og sigur Stjörnunnar því staðreynd, 75-72. Sópurinn fer því á loft í Garðabænum þetta árið, því Stjörnumenn unnu einvígið 3-0 og eru komnir í undanúrslit í fyrsta sinn síðan 2014. 

 

Lykillinn

Leikur kvöldsins var hnífjafn og spennandi allan tímann en líkt og í fyrri tveim leikjunum var það einfaldlega reynsla heimamanna sem kom þeim yfir línuna. Leikmenn eins og Hlynur Bæringsson og Justin Shouse voru gulls ígildi fyrir heimamenn og þrátt fyrir hetjulega baráttu Breiðhyltinga í öllum þremur leikjum einvígisins var það reynslan sem skildi á milli í þeim öllum þremur.

 

Hetjan

Hlynur Bæringsson var einfaldlega frábær í kvöld og steig upp á risastórum augnablikum bæði í vörn og sókn.  Hlynur lauk leik með 20 stig, 10 fráköst og 2 varin skot.

 

Tölfræðin

3-0, eina tölfræðin sem skiptir máli. Stjarnan fer áfram, ÍR er úr leik.

 

Framhaldið

ÍR-ingar hafa lokið leik í Domino’s deildinni þetta árið, í einhverju jafnasta 3-0 einvígi sem undirritaður man eftir. Stjörnumenn fara hins vegar í undanúrslit, en mótherji þeirra þar er enn óráðinn þangað til aðrar seríur klárast.

 

Tölfræði leiksins

 

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson 

Myndir / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -