spot_img
HomeFréttirSópað í Síkinu!

Sópað í Síkinu!

 
Tindastóll sópaði Þór Þorlákshöfn út úr úrslitakeppninni í Dominosdeildinni í kvöld. Lokatölur urðu 88-76 fyrir heimamenn í skemmtilegum leik.
 
 
 
Um tíma var útlit fyrir að þriðji leikur Tindastóls og Þórs færi ekki fram þar sem dómarar leiksins lentu í umferðarslysi á Holtavörðuheiðinni á leið sinni norður. Þeir höfðu lent aftan á öðrum bíl í mikilli blindu, ekki teljandi skemmdir í þeim árekstri en utan úr kófinu kemur svo annar bíll og lendir á þeirra bíl með töluverðu afli svo hann skemmdist mikið og er líklega ónýtur. Hurð skall þar nærri hælum en sem betur fer urðu ekki meiðsli á mönnum í árekstrinu eða þau hafa allavega ekki komið í ljós ennþá. Það má telja hraustlega gert hjá þeim að ákveða að halda áfram og dæma leikinn eftir þessa lífsreynslu en það varð úr og Stefán Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls sótti dómarana á heiðina og það hófst að byrja leikinn kl. 20:45
 
 
Heimamenn byrjuðu leikinn ágætlega þegar hann komst loks af stað og kveiktu vel í Síkinu með troðslum frá Dempsey og Lewis snemma leiks. Þórsarar létu þetta þó ekki slá sig útaf laginu, náðu að herða á vörninni og komust yfir 18-22 eftir fyrsta leikhluta. Annar leikhluti var hraður og skemmtilegur þar sem gamla brýnið Svavar Atli Birgisson sýndi að enn lifir í gömlum glæðum þegar hann átti stóran þátt í að færa heimamönnum forystuna að nýju ásamt Myron Dempsey sem átti stórleik. Tómas með fimm snögg stig sá til þess að munurinn var þó aðeins 2 stig í hálfleik 41-39.
 
 
Í þriðja leikhluta komust Þórsarar yfir í byrjun en svo sigu heimamenn hægt en örugglega framúr. Vörnin var stórkostleg og Ingvi Rafn fór hamförum ásamt félögum sínum. 12-0 áhlaup skilaði 68-50 forystu og mestur varð munurinn 20 stig í byrjun fjórða leikhluta þegar Ingvi negldi þrist í andlit gestanna. Á þessum kafla lék Tindastólsliðið eins og það getur best og hefur best gert í vetur og í svona ham þá stendur ekkert lið í þeim. Síðustu 5 mínúturnar slökuðu þeir þó á klónni, fullmikið að mati áhorfenda í Síkinu og Þórsarar náðu að minnka muninn í 7 stig með 0-11 kafla. Brekkan var þó of erfið og heimamenn sigldu sigrinum heim tiltölulega örugglega.
 
 
Myron Dempsey var bestur Stólanna í þessum leik og leiddi vagninn með 26 stig og 10 fráköst. Varnarlega voru allir að skila sínu vel og rétt er að minnast á þátt Viðars Ágústssonar sem spilaði frábæra vörn á Darrin Govens og skilaði 7 stigum að auki. Lewis og Ingvi Rafn voru líka að leika vel og Pétur skilaði 8 stoðsendingum þó stigin hafi aðeins orðið 2 í kvöld. Áður hefur verið minnst á Svavar Atla og segja má að liðsheildin hafi skapað þennan sigur hjá heimamönnum eins og allt einvígið. Nú er bara að byrja að undirbúa næstu rimmu.
 
Grétar Ingi Erlendsson átti góðan leik með Þór og gerði 20 stig, 3-4 í þristum en hann varð frá að víkja seint í leiknum er hann meiddist á ökkla. Þá voru Govens og Tómas Heiðar einnig traustir í liði Þórsara. 
 
 
Umfjöllun og myndir/ Hjalti Árnason
  
Fréttir
- Auglýsing -