Ármann hefur tilkynnt að liðið hefði náð samningum við bandarískan leikmann að leika með þeim í efstu deild að ári. Leikmaður sá heitir Dibaji Walker og lék í efstu deild í Slóvakíu á síðustu leiktíð.
Á dögunum samdi liðið við þá Marek Dolezaj og Braga Guðmundsson um að leika með liðinu. Auk þess endursamdi liðið við Arnald Grímsson, Kára Kaldal og Frosta Valgarðsson.
Tilkynningu Ármenninga má finna í heild sinni hér að neðan:
Körfuknattleiksdeild Ármanns hefur samið við bandaríska framherjann Dibaji Walker um að leika með meistaraflokki félagsins á komandi keppnistímabili í Bónus deild karla.
Walker, sem er 25 ára gamall og 206 cm á hæð, kemur frá Spisski Rytieri í Slóvakíu þar sem hann lék stórt hlutverk á nýliðnu tímabili. Hann skoraði að meðaltali 15,4 stig, tók 5,7 fráköst og var með 1,5 stoðsendingar á leik í slóvakísku úrvalsdeildinni (Tipos SBL). Hann skilaði einnig góðum varnarleik með 1,2 stolnum boltum og 1,0 varin skot að meðaltali.
Áður en hann hóf atvinnumannaferil sinn lék Walker háskólakörfubolta með Appalachian State University og áður með UMass. Hann útskrifaðist árið 2023 og fór í kjölfarið í G-League þar sem hann lék með Cleveland Charge, áður en hann hélt til Evrópu. Dibaji er sonur Samaki Walker sem varð NBA meistari árið 2002 með LA Lakers en bróðir Dibaji, Jabari Walker leikur í NBA deildinni með Portland Trailblazers.
Við erum gríðarlega ánægð með að fá Dibaji til liðs við okkur. Hann bætir við okkur hæð, styrk og fjölhæfni sem mun nýtast liðinu vel í krefjandi deildarkeppni.
Með tilkomu Walker styrkist leikmannahópur Ármanns verulega og undirstrikar félagið metnað sinn fyrir komandi tímabil. Ármann stefnir að því að festa sig í sessi í efstu deild.
Félagið býður Dibaji Walker hjartanlega velkominn til Íslands og hlakkar til samstarfsins á komandi leiktíð.



