spot_img
HomeFréttirSólsteinar og Stjarnan í eina sæng

Sólsteinar og Stjarnan í eina sæng

 
Brjánn Guðjónsson framkvæmdastjóri Sólsteina í Kópavogi og Gunnar Kristinn Sigurðsson formaður KKD Stjörnunnar undirrituðu á dögunum nýjan samning þess efnis að Sólsteinar verði út þetta tímabil aðalstyrkaraðili úrvalsdeildarliðs Stjörnunnar.
Fram að þessu höfðu Subwaybikarmeistararnir leikið án aðalstyrktaraðila og hafði Gunnar haft það á orði við Karfan.is að Stjörnumenn hefðu unnið bikarinn á röngu ári. Þessi staða hefði væntalega ekki verið uppi hefði félagið unnið bikarinn t.d. árið 2007.
 
,,Það hefur gengið vel að ná í styrktaraðila í kjölfar fréttarinnar á Karfan.is um þá vöntun hjá okkar félagi. Nú hafa bæst við nokkur fyrirtæki sem verða sterkir bakhjarlar deildarinnar í vetur og vonandi til framtíðar,“ sagði Gunnar í samtali við Karfan.is.
 
Sólsteinar er steinsmiðja í Kópavogi sem framleiðir granítplötur fyrir heimili og fyrirtæki auk flísa og þá framleiða þeir einnig legsteina.
 
,,Ég er stoltur af því að geta stutt við bakið á Stjörnunni og því góða fólki sem að þar vinnur frábært og óeigingjarnt starf. Það er mín von að stuðningur Sólsteina verði til þess að efla þetta góða lið,“ sagði Brjánn Guðjónsson framkvæmdastjóri Sólsteina.
 
Stjörnumenn geta því tekið gleði sína á nýjan leik og hætt að auglýsa Landsbankann frítt en fram að þessu hafði félagið leikið með merki bankans framan á búningum sínum, stofnuninni að kostnaðarlausu.
 
Fréttir
- Auglýsing -