Breiðablik verður meðal liða í Dominos deild kvenna á næstu leiktíð og er þessa dagana að styrkja lið sitt fyrir komandi átök.
Í sumar hefur hávær orðrómur verið um að Sóllilja Bjarnadóttir muni snúa til baka eftir árs fjarveru frá liðinu þar sem hún lék með liði KR. Þær fregnir virðast nú staðfestar samkvæmt félagaskiptasíðu KKÍ þar sem félagaskipti hennar frá KR til Breiðabliks eru gengin í gegn.
Sóllilja á að baki sex landleiki auk þess að hafa leikið mörg tímabil í efstu deild með Breiðablik og Val. Hún var með 5,4 stig að meðaltali í leik með öflugu liði KR á síðustu leiktíð en var algjör lykilleikmaður hjá Blikum tímabilið þar á undan.
Þetta er enn einn leikmaðurinn sem KR missir en fyrir höfðu þær Danielle Rodriquez, Hildur Björk Kjartansdóttir, Sanja Orazovic, Eygló Kristín Óskarsdóttir og Emma Sóldís Svan hafa allar yfirgefið liðið og heyrst hefur að fleiri séu á útleið. Fran Garcia tók við þjálfun liðsins af Benedikt Guðmundssyni í sumar.