spot_img
HomeFréttirSóknarfráköst vinna bikarmeistaratitla :Haukar Bikarmeistarar kvenna 2010!

Sóknarfráköst vinna bikarmeistaratitla :Haukar Bikarmeistarar kvenna 2010!

Magnaður bikarúrslitaleikur kvenna endaði með sigri Hauka í Laugardalshöllinni í dag, 83-77. Þó að það hafi aðeins munað 6 stigum á liðunum í leikslok þá unnu Haukar þvílíkan yfirburðasigur í fráköstunum að annað eins hefur ekki sést í langan tíma. Þegar yfir lauk höfðu Haukar tekið 27 sóknarfráköst gegn 4 sóknarfráköstum Keflavíkur og til gamans má geta að Keflavík náði aðeins að hirða einu fleiri varnafráköst en sóknarfráköst Hauka, eða 28 stykki.

Keflavík hafði forskotið eftir fyrsta leikhluta en strax í upphafi annars leikhluta tóku Haukar frumkvæðið og héldu því lengst af þar til yfir lauk. Stigahæst í liði Haukar var Heather Ezell með þrefalda tvennu, 25 stig, 11 stoðsendingar og 15 fráköst. Næst var hin unga og efnilega María Lind Sigurðardóttir með 20 stig og 9 fráköst( þar af 7 sóknarfrákast) á um aðeins 23 mínútum, en hún átti hreint út sagt frábæran leik í höllinni í dag og var hún verðlaunuð í lok leiks með titlinum “Maður leiksins” Hjá Keflavík var Birna Valgarðsdóttir atvkæðamest með 22 stig en næstar voru Kristi Smith með 20 stig og Bryndís Guðmunsdóttir með 19 stig.
 
Leikurinn fór hratt af stað og bæði lið keyrðu völlinn strax frá fyrstu mínútu. Jafnt var á stigum framan af en þegar leið á leikhlutan náði Keflavík frumkvæðinu. þegar leikhlutinn var rétt tæplega hálfnaður tóku Haukastúlkur leikhlé en þá hafði Keflavík yfir, 10-13. Heather Ezell var sjóðandi heit fyrir utan þriggja stiga línuna og hélt Haukastúlkum inní leiknum með þremur þriggja stiga körfum á fyrstu 5 mínútunum. Keflavík helt frumkvæðinu út leikhlutan og höfðu yfir 19-20 þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta. Haukar virtust ætla að vinna leikinn fyrir utan þriggja stiga línuna en þaðan höfðu þær skotið 10 sinnum í fyrsta leikhluta, þar af fóru þrjár fyrstu ofaní.
 
Haukar byrjuðu annan leikhluta betur og náðu frumkvæðinu strax í upphafi hans. Keflavík gekk illa að nýta sóknirnar sínar og Haukastúlkur nýttu tækifærið. Þegar fjórar mínútur voru liðnar hafði Keflavík hins vegar náð forskotinu aftur en þær voru þá farnar að pressa hátt og spila aggressívan varnarleik, 27-30. Stuttu síðar tók Henning Henningsson, þjálfari Hauka leikhlé að því er virtist til þess að finna lausn á pressuvörn Keflavíkur, 29-33. Leikhléið virkaði vel á leikmenn Hauka sem voru búnar að jafna og komnar yfir um það bil tveimur mínútum seinna, 36-35, og Keflavík brá á það ráð að taka leikhlé. Liðin skiptust á að skora næstu mínúturnar og leikurinn var í járnum. Heather Ezell kláraði fyrri hálfleik fyrir Hauka með seinustu stigum hálfleiksins þegar um það bil fjórar sekúndur voru eftir sem tryggði Haukum forskotið þegar farið var til klefa í hálfleik, 46-45.
 
Stigahæst í liði Hauka í hálfleik var Heather Ezell með 13 stig og 6 stoðsendingar en næstar voru María Lind Sigurðardóttir og Kiki Jean Lund báðar með 9 stig. Hjá Keflavík Bryndís Guðmundsdóttir með 15 stig en næstar voru Birna Valgarðsdóttir og Kristi Smith með 12 stig hvor.
 
Jón Halldór Eðvaldsson var ekki ánægður með byrjun Keflavíkur í seinni hálfleik og strax eftir rúmlega þrjár mínútur af leik en Haukar höfðu þá yfir, 51-48. Það einkenndi þriðja leikhluta að varnarleikur beggja liða var farinn að skila árangri og þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum höfðu Haukar aðeins skorað 10 stig gegn 8 stigum Keflavíkur. Þetta var algjör viðsnúningur frá fyrri leikhlutum, 56-53. Haukar náðu svo mesta forskoti leiksins fram að því þegar ein mínúta var eftir af þriðja leikhluta, 60-55, þegar Heather Ezell setti laglega þriggja stiga körfu ofaní. Keflavík rétti þó sinn hlut á lokamínútunni og var forskot Hauka komið niður í 2 stig 62-60.
 
Stemmingin magnaðist með hverri mínútnni sem leið og stuðningsmenn Hauka létu vel í sér heyra í lokaleikhlutanum. Jón Halldór tók leikhlé þegar tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum en þá var forskot Hauka komið upp í 6 stig, 69-63. Í hvert skipti sem Keflavík virtist vera líklegt til þess að jafna metin svöruðu Haukar með þriggja stiga körfu og sigu þannig frammúr. þegar fjórði leikhluti var hálfnaður höfðu Haukar 7 stiga forskot, 74-67. Jón Halldór, þjálfari Keflavíkur tók leikhlé þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum, 78-69, sem virtist lítil áhrif hafa því alltaf jókst forskot Haukastúlkna og þegar rúmlega ein og hálf mínúta var eftir af leiknum tók Henning Henningsson leikhlé fyrir Hauka með 9 stiga forskot í farteskinu. Haukar héldu svo haus það sem eftir lifði leiks og höfðu á endanum 6 stiga sigur 83-77.
 
Ljósmyndir/Snorri Örn og Tomasz Kolodziejski: Haukakonur senda bikarinn á loft.
Umfjöllun: Gísli Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -