spot_img
HomeFréttirSögulegt teymi í Laugardalshöll

Sögulegt teymi í Laugardalshöll

Söguleg stund var í Laugardalshöll í kvöld þegar þegar íslenskt FIBA-dómarateymi dæmdi viðureign Lúxemborgar og Möltu á Smáþjóðaleikunum í kvennakörfuknattleik. Var þetta í fyrsta sinn sem alþjóðlegur körfuboltaleikur fer fram með íslensku dómarateymi.

Teymið skipuðu þeir Aðalsteinn Hjartarson, Leifur S. Garðarsson og Sigmundur Már Herbertsson. Eftirlitsmaður var Pétur Hrafn Sigurðsson fyrrum framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambands Íslands.

„Við höfum í sögunni átt fleiri FIBA dómara en það er skemmtilegt að það skuli hafa náðst að þrír íslenskir FIBA dómarar dæmi saman leik á alþjóðlegu móti. Þetta er mjög sérstakt fyrir okkur og þó víðar væri leitað og sannarlega sögulegur viðburður,“ sagði Pétur Hrafn Sigurðsson í samtali við Karfan.is eftir leik í kvöld.

Glæsileg íslensk umgjörð í kvöld en þar með er ekki allt upptalið því Kristinn Óskarsson fylgdist einnig gaumgæfilega með störfum dómara í kvöld en hann er alþjóðlegur dómaraleiðbeinandi á vegum FIBA. 

Aðalsteinn Hjartarson er svo fyrsti Íslendingurinn með FIBA réttindi sem dæmir fyrir annað land en Ísland en hann dæmir fyrir Sviss. 

Aðalsteinn tók alþjóðlega dómaraprófið árið 1999 en hann lauk dómaraprófi árið 1989.
Leifur tók alþjóðlega dómaraprófið árið 1993 en hann lauk dómaraprófi árið 1987.
Sigmundur tók alþjóðlega dómaraprófið árið 2003 en hann lauk dómaraprófi árið 1994.
Pétur Hrafn Sigurðsson tók alþjóðlegt próf sem eftirlitsmaður árið 1993.

Mynd/ [email protected] – Sögulegur hópur frá vinstri: Aðalsteinn Hjartarson, Sigmundur Már Herbertsson, Leifur S. Garðarsson og Pétur Hrafn Sigurðsson.

Fréttir
- Auglýsing -