Íslenska U20 landsliðið í körfubolta hefur tryggt sæti sitt í átta liða úrslitum A-deildar evrópumótsins. Það gerði liðið með mögnuðum sigri á Svíþjóð í sextán liða úrslitum mótsins.
Ísland byrjaði leikinn mjög illa en eins og áður kom liðið til baka og náði 38-8 áhlaupi fyrir hálfleikinn. Liðið bætti svo í muninn í seinni hálfleik sem má helst þakka stórkostlegum varnarleik íslenska liðsins.
Gangur leiksins:
Eins og í mörgum leikjum liðsins fór Ísland illa af stað. Staðan eftir fjórar mínútur var 10-2 og Íslenska liðið hálfsofandi í öllum sínum aðgerðum. Þá snerist taflið við, Ísland smellti í 38-8 áhlaup fyrir hálfleik og leiddi leikinn 40-21.
Liðið hélt svíum í fimm stigum í öðrum leikhluta með ótrúlegum varnarleik og Ísland sótti fyrir vikið auðveldar körfur. Staðan góð í hálfleik en liðið þurfti að halda sér á jörðinni í seinni hálfleik.
Ísland byrjaði þriðja leikhluta á að setja fyrstu tvær körfur seinni hálfleiks. Við það virtist allur vindur úr liði Svíþjóðar sem komst aldrei á skrið.
Íslenska liðið spilaði framúrskarandi varnarleik í leiknum. Hélt Svíþjóð í 39 stigum allann leikinn og gaf þeim ekkert pláss. Að lokum sigraði Ísland 73-39 sigur á Svíþjóð og er þar með komið í átta liða úrslit mótsins í fyrstu tilraun.
Tölfræði leiksins:
Íslenska liðið var með nærri helmingi betri nýtingu í leiknum auk þess að senda 18 stoðsendingar gegn níu hjá Svíþjóð. Liðið spilaði frábærlega saman á báðum endum vallarins og skóp þar sigurinn í dag. Auk þess fær Ísland 29 stig frá bekknum en Svíþjóð einungis fimm.
Hetjan:
Breki Gylfason kom eins og ferskur andblær inná í liði Íslands í dag. Tvær þriggja stiga körfur hans í byrjun leik komu liðinu af stað í áhlaupið sem vann í raun leikinn. Hann endaði með 10 stig, 6 fráköst, 4 stoðsendingar og 57% skotnýtingu. Hans framlag í dag gerði gríðarlega mikið fyrir Ísland og fær hann því hetjustimpil dagsins.
Tryggvi Snær var að vanda sterkur og endaði með 13 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar í leiknum. Kristinn Pálsson og Kári Jónsson voru þá einnig öflugir.
Kjarninn:
Íslenskt körfuboltalandslið hefur aldrei komist jafn langt á lokamóti evrópumóts. Þetta var því söguleg stund í Heraklion í dag þegar ljóst var að Ísland væri á leið í átta liða úrslit. Frammistaða liðsins í leiknum í dag var í einu orði mögnuð. Það eru fá orð til sem lýsa varnarleik liðsins í dag. Snjólfur Stefánsson var til að mynda eins og flug á bakvörðum Svíþjóðar sem gátu ekkert í dag.
Íslenska U20 landsliðið er eitt af átta bestu körfuboltaliðum í evrópu. Það er staðreyndin. Liðið og leikmenn hafa lagt mikið á sig til að vera í sem besta forminu á þessum tímapunkti. Það er að uppskera í dag. Stærsta markmið mótsins var að halda sæti sínu í keppninni, það markmið er nú komið og verður Ísland meðal þátttakenda aftur að ári.
Ævintýrinu er þrátt fyrir allt langt frá því að vera lokið. Á morgun mætir Ísland Ísrael í átta liða úrslitum mótsins. Bæði lið hafa vaxið mikið frá æfingaleiknum í Reykjavík fyrir um fjórum vikum en þá vann Ísrael með sjö stigum. Möguleikar Íslands eru til staðar á að komast í undanúrslit og miðað við hugarfar leikmanna þá eru engar líkur á að menn séu saddir.
Myndband af fögnuði eftir leik
Umfjöllun, viðtöl og myndir / Ólafur Þór Jónsson