spot_img
HomeFréttirSný aftur Vestur um fertugt til að klára ferilinn

Sný aftur Vestur um fertugt til að klára ferilinn

15:07
{mosimage}

(Baldur í leik með KFÍ gegn Blikum á þarsíðustu leiktíð)

Þær fregnir bárust nýverið að bakvörðurinn og þriggja stiga skyttan Baldur Ingi Jónasson myndi leggja skónna á hilluna í bili en kappinn lék með Þór Akureyri á síðustu leiktíð. Baldur er þó þekktari fyrir mínúturnar sínar með KFÍ þar sem hann fór m.a. með félaginu upp í úrvalsdeild í fyrsta sinn árið 1996. Karfan.is náði tali af Baldri sem stundar nám á Akureyri ásamt því að vera yfirþjálfari Þórsara í yngri flokkum.

Af hverju að hætta núna, áttu ekki 1-2 ár eftir í þér?
Jú, jú, ég á nóg eftir en ég er farinn að finna fyrir því að hugurinn er talsvert á undan líkamanum í öllum framkvæmdum og það getur verið erfitt að sætta sig við það að vera ekki alveg 100%.  Þar að auki hefur tími minn á varamannabekknum síðustu ár farið vaxandi og það á ég erfitt með að meðhöndla. Maður eyddi nú alveg nægilega miklum tíma á tréverkinu þegar maður var yngri og að hefja æfingar í körfunni en ég er nú bara þannig gerður að ég vill helst vera inni á vellinum allan tímann eins og örugglega flestir. Það er þó sjálfsagt kominn tími til að víkja fyrir ungum og upprennandi leikmönnum sem vonandi fá eitthvað að spreyta sig í vetur.

Annars held ég að þeir sem hafa einhvern tímann spilað eða æft körfuknattleik, hætti í raun aldrei. Maður hættir ekki í körfubolta þó svo að maður hætti að spila í deildarkeppni.  Það eru allsstaðar hópar einstaklinga sem koma saman og spila þessa eðlu íþrótt enda einstaklega góð hreyfing til að viðhalda sæmilegu líkamlegu formi.  Þá eru þeir sem hætta að spila jafnan fengnir til starfa eða þá að þeir sjálfviljugir bjóða sig fram í störf í þágu körfuboltans á sínum heimaslóðum, hvort sem um ræðir þjálfun, stjórnarstörf eða önnur sjálfboðastörf.

Hvað er svona minnisstæðast af ferlinum hér heima?
Það var einkar minnisstætt þegar við í KFÍ komumst upp úr fyrstu deildinni í fyrsta skipti 21. mars 1996 þegar við lögðum Þór Þorlákshöfn í úrslitaleik heima á Ísafirði. Það ár myndaðist alveg einstök stemning á leikjum og í allri umgjörð um körfuboltann sem/og nokkur ár á eftir, enda í fyrsta skipti í langan tíma þar sem lið af Vestfjörðum keppti í efstu deild í hópíþrótt. Það sem er nokkuð merkilegt þó við það lið var að það var að mestu skipað heimamönnum. Liðið var skipað eftirfarandi heiðursmönnum: Jóni H. Guðnasyni, Magnúsi F. Sveinbjörnssyni heitnum, Þórði Jenssyni, Hrafni Kristjánssyni, Finni G. Þórðarsyni, Magnúsi G. Gíslasyni, Unnari Hermannssyni, Ingimari Guðmundssyni, Christopher Ozment og undirrituðum.

Þá var ég þess heiðurs aðnjótandi fyrstu ár mín í úrvalsdeild að spila undir stjórn Guðna Guðnasonar, en eins og allir vita sem hann þekkja, þá er þar um einstaka persónu að ræða. Þá kynntist ég líka öðrum einstökum karakter í honum Friðriki Stefánssyni sem jafnan tók upp á ýmsum fáránlegum uppátækjum sem ekki verða nefnd hér.
 
Guðni kom okkur meðal annars í úrslit bikarkeppninnar 1998 þar sem við mættum sterku liði Grindvíkinga sem höfðu helvítið (afsakið orðbragðið) hann Darryl Wilson innanborðs ásamt Konstantinos Tsartsaris sem nú spilar með landsliði Grikkja.  Það er óhætt að segja að það hafi verið stemning á þeim leik þar sem Laugardalshöllin var nánast full upp í rjáfur enda ekki oft sem lið frá Ísafirði kemst þetta langt. Wilson reyndist okkur Þrándur í götu og við töpuðum leiknum. Var það í eina skiptið sem ég hef verið nálægt því að grenja eftir tap.

Ég verð að viðurkenna að mér þótti það ekki leiðinlegt, þegar ég tók þátt í þriggja stiga skotkeppninni 1997, að sigra Guðjón Skúlason í bráðabana. Reyndar komu margir að máli við mig eftir það, jafnvel fólk sem ég þekkti ekki neitt og sögðu þetta hreint út sagt glæsilegt, þar sem þetta minnkaði kannski aðeins rostann í Suðurnesjamönnum. Maður hefur reyndar ávallt skynjað einhverja andúð gagnvart þeim í gegnum tíðina.

Það er nú kannski ekki minnisstætt heldur fremur áhugavert að hafa upplifað þær breytingar sem hafa átt sér stað í íslenskum körfubolta undanfarin ár. Það er alveg ljóst að við höfum stigið feti framar í gæðum og virðumst vera á góðri braut hvað vinsældir varðar. Vonandi er það þróun sem verður viðvarandi.

Þá tel ég að körfuboltinn hafi gefið manni afar mikið í gegnum tíðina, þó svo að árangur KFÍ hafi kannski ekki verið upp á marga fiska, þá hefur maður kynnst mörgum góðum einstaklingum einmitt í gegnum starfið.  Ég tel það fólk gleymi því svolítið, eins og Geoff Kotila benti mér og fleirum á, í fyrirlestri sem hann hélt í Laugardalnum, að þegar maður lítur til baka, átti maður sig á því hversu mikið körfuboltinn hefur gefið manni í raun. Reyndar er það svo að ég kynntist unnustu minni í gegnum körfuboltann þar sem ég þjálfaði meistaraflokk kvenna í KFÍ nokkur tímabil. Að sjálfsögðu gripu gárungar tækifærið og töldu mig liggja á liði mínu, kannski ekki að ástæðulausu því nú á ég tvo efnilega tappa í körfunni með henni.

Þú lýkur ferlinum sem leikmaður Þórs, kom það aldrei til greina að klára hjá KFÍ?
Að sjálfsögðu hefði ég helst viljað enda ferilinn á heimaslóðum, en þar sem ég hugðist mennta mig frekar, þá varð ég að færa mig um set til að geta sinnt því. Það er þó ekki öll nótt úti enn því ég hugsa að ég klári það nám sem ég er í núna, snúi síðan aftur til Ísafjarðar um fertugt og klári þá eitt tímabil með KFÍ. 

Ætlar þú eitthvað að þjálfa núna þegar þú ert hættur?Ég hef verið meira og minna viðloðandi þjálfun allt frá því um 1990, mest þá í þjálfun yngri flokka en einnig meistaraflokka KFÍ. Eins og ég segi hér að ofan þá hættir maður aldrei í körfubolta og nú í vetur hef ég tekið að mér yfirþjálfarastöðu yngri flokka Þórs hér á Akureyri ásamt því að aðstoða við stjórnarstörf. Ég býst fastlega við því að ég muni þjálfa eitthvað í framtíðinni enda er það afar skemmtilegt og gefandi starf.

Hvernig líst þér á næsta tímabil hjá þínum liðum, Þór í IE deildinni og KFÍ í 1. deildinni?
Ég tel að Þórsarar eigi góða möguleika á því að komast í úrslit ef lykilmenn haldast ómeiddir. Í sannleika sagt verður þó að segjast að breidd hópsins gæti verið meiri, en ég tel samt sem áður að þeir sem eru á kantinum muni stíga upp í vetur og hafa jákvæð áhrif á leik liðsins. Þá veltur þetta að sjálfsögðu líka á því hvernig nýju útlendingarnir koma til með að falla inn í leik liðsins. Þar sem ég þekki vinnubrögð Hrafns í þeim efnum, þá er ég viss um að það verður ekki vandamál. Einnig býst ég við að Guðmundur Jónsson muni koma til með að styrkja liðið til muna, a.m.k. ef tekið er tillit til þeirra hæfileika sem hann hefur yfir að ráða og hefur verið að sýna á æfingum undanfarið. Ég tel að hann muni blómstra í nýju umhverfi hér fyrir norðan.

Í fyrra komumst við í úrslit en vorum ekki nógu góðir til að klára Keflavík hér heima í leik tvö, þar sem við töpuðum með einungis tveimur stigum. Markmið Þórs í vetur ætti því að vera að komast í úrslitakeppnina þar sem allt getur gerst.

KFÍ mun koma til með að eiga sitt besta tímabil í langan tíma í vetur. Borce mun vonandi ná að púsla vel úr þeim hópi sem hann hefur yfir að ráða en það verkefni verður að sjálfsögðu ekki auðvelt. Þeir munu að venju fá nokkra erlenda leikmenn þar sem aðstæður þarna fyrir vestan bjóða því miður ekki upp á annað ef liðið ætlar sér að vera samkeppnishæft. Einnig munu koma inn nokkrir ungir og efnilegir leikmenn sem verða að halda sig við efnið og æfa stíft, ætli þeir sér að ná einhverjum árangri.

Það er ljóst að nokkur lið í 1. deildinni gætu hæglega verið að gera ágætis hluti í úrvalsdeildinni þannig að styrkur þeirrar deildar fer vaxandi og er það liður í því sem ég nefndi hér að ofan, að gæði körfuknattleiks á Íslandi eru að aukast. Ég er hins vegar afar bjartsýnn fyrir hönd KFÍ í vetur og óska þess að þeir verði í einu af fjórum efstu sætunum og komist von bráðar í úrvalsdeild að nýju.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -