spot_img
HomeFréttirSnarpar hviður og úrhelli í Iðu

Snarpar hviður og úrhelli í Iðu

Úrslitakeppni 1. deildar hófst í kvöld með tveimur leikjum á Suðurlandi. Hamar lék gegn ÍA í Hveragerði en kröpp lægð gekk yfir Valsmenn á Selfossi með úrhelli og stormi. Í mestu hviðunum var vindhraðinn yfir 40 m/s, trauðla stætt, og með þessu má segja að himnarnir hafi opnast, slík var ofankoman. Valur sá aldrei til sólar, þó háfleygur geti verið, og réði ekki við aðstæður að þessu sinni. Ekki var það þó Ingó Veðurguð sem teiknaði veðurkort kvöldsins, heldur Erik Olson og hans piltar í FSu-liðinu. Það var ekki fyrr en löngu eftir að örlög voru ráðin að vind lægði og gestirnir réttu úr aðeins kútnum.
 
 
Liðin skoruðu tvær körfur hvort fyrstu 2 mín. en þá byrjaði að hvessa af suðri og fyrstu dropar að falla. FSu náði 9 stiga forystu eftir 8 mínútur en gestirnir drógu fram regnhlífar og minnkuðu muninn í 23-18 fyrir lok fyrsta leikhluta. Þá brast hann á af alvöru og eftir eina mínútu í 2. leikhluta var staðan orðin 31-18 og eins og hellt væri úr fötu, regnhlífarnar virkuðu ekkert í stormhviðunum og úrhellið gusaðist eins og brotsjór yfir Valsmenn. Í hálfleik var munurinn orðinn 57-34 og fjölmargir áhorfendur á bandi heimaliðsins trúðu varla sínum eigin augum. Enn bætti í vindstyrk og úrkomu í þriðja hluta, eftir 28 mínútur var staðan 86-43! og við lok þriðja leikhluta leiddi FSu með 41 stigi, 93-52. Þá var leikurinn búinn og í síðasta fjórðungi var hæg, breytileg átt og aðgerðalítið veður, mestmegnis vestangola þó sem læddist af Faxaflóanum yfir Hellisheiðina, austur með Ingólfsfjalli og hreyfði lauf í húsagörðum á Selfossi. Lokatölur 106-85 og varamenn farnir að stýra umferðinni í báðum liðum.
 
Þetta var alveg stórskemmtilegur leikur, alla vega fyrir okkur stuðningsmenn FSu. Liðið lék við hvern sinn fingur, bauð upp á blússandi hraðan og árangursríkan sóknarleik með fallegum fléttum, sniðskotum eða þriggjastigaskotum sem rötuðu nánast undantekningalaust rétta leið. Allt gekk upp. Liðið var meira en tilbúið í átök, allir á tánum í vörn, hjálparvörnin góð og einbeitingin skær og geislandi. Nú þekkti maður liðið loksins aftur frá því það lék hvað best fyrir áramót. Allir leikmenn lögðu nú vel í púkkið og þá er það erfitt við að eiga. Frábær liðsbolti.
 
Valsmenn mættu ekki eins reiðubúnir til leiks, þeir vissu hreinlega ekki hvaðan á þá stóð veðrið og mættu ofjörlum sínum í kvöld. Þar með er ekki sagt að þeir muni ekki bíta frá sér í næsta leik. Þeir munu leggjast undir feld og finna sín ráð, enda geta þeir hringt ókeypis í vin í gegnum Vodafone. Nathen Garth var óheppinn í upphafi leiks, kominn með 3 villur í fyrsta fjórðung, þar af fiskaði FSu vörnin á hann tvo ruðninga. Hann náði sér ekki á neitt strik eftir það, fyrr en á kafla í seinni hálfleik en spilaði bara rúma 21 mínútu. Garth var stigahæstur Valsmenna með 19 stig og 50% nýtingu. Benedikt Blöndal skoraði 14 stig á 25 mínútum, sum á ævintýralegan hátt úr neyðarskotum. Illugi Auðunsson skoraði 11 stig og tók 7 fráköst, var framlagshæstur Valsmanna með 16 punkta og gerði oft vel gegn hinum öfluga varnarmanni, Collin Pryor. Sigurður Rúnar setti líka 11 stig, þar af 7/7 í vítum, geri aðrir betur, enda þekkir hann vel til í Iðu frá upphafsárum FSu-liðsins. Bjarni Geir skoraði 8 stig, Kormákur 7, Leifur Steinn 5, Kristján Leifur 4 og þeir Bergur Ástráðsson og Jens Guðmundsson skoruðu hvor sinn þristinn.
 
FSu-liðið var allt í sínu besta formi. Hlynur Hreinsson var frábær fyrstu þrjá leikhlutana, hraðinn og útsjónarsemin, og hitti úr öllu á þessum tíma, setti 19 stig og gaf 7 stoðsendingar. Ari Gylfason var stigahæstur heimamanna með 22 stig, hélt sér til hlés utan þriggjastigalínunnar í fyrri hálfleik en í þeim seinni opnuðust flóðgáttir, 62% skotnýting (4/8 í þristum), 4 fráköst og 22 í framlag. Collin Pryor skoraði 20 stig og tók 13 fráköst, flott nýting og 33 framlagsstig. Það sem skipti sköpum í kvöld var að aðrir leikmenn stigu nú upp á hárréttum tíma og sýndu sitt rétta andlit. Birkir Víðisson var mjög góður með 15 stig og góða nýtingu, Erlendur Ágúst sömuleiðis með 7 stig, 7 stoðir og 4 fráköst, auk þess sem báðir þessir piltar spiluðu fantagóða vörn. Maciej Klimaszewski, U-20 landsliðsmiðherjinn ungi, setti 12 stig og Svavar Ingi sýndi gamalkunna takta með 8 stig. Arnþór Tryggvason flaug heim frá Bergen og gladdi hjörtu áhorfenda með sínum alkunna baráttuanda, 3 stig og 3 fráköst á sínum fáu mínútum. Fraser Malcolm, Geir Elías og Þórarinn Friðriksson náðu ekki að skora en lögðu sitt í púkkið.
 
 
Staðan í einvíginu: FSu 1-0 Valur
 
Umfjöllun: Gylfi Þorkeilsson 
Mynd úr safni: Collin landaði tvennu fyrir FSu í kvöld
Fréttir
- Auglýsing -