spot_img
HomeFréttirSnæfellsvélin vel smurð og gékk á öllum.

Snæfellsvélin vel smurð og gékk á öllum.

 Snæfell og Haukar hafa átt hörkuleiki í vetur en Hólmarar hafa þurft að lúta í gras í tveimur rimmum þeirra gegn Hafnfirðingum. Fyrst í Dominosdeildinni að Ásvöllum 82-77 og síðar á sama stað í 16 liða úrslitum Poweradebikarsins 90-84. Þannig að vitanlega var spenningur fyrir leik kvöldsins.
 
Haukur Óskarsson hafði skorað 4 stig Hauka gegn 14 stigum Snæfells í upphafi leiks en heimamenn í Hólminum voru sprækir í sóknum sínum þar sem Sveinn Arnar og Sigurður settu sinn þristinn hvor og Stefán Karel kom með kraft undir körfuna. Travis tróð með tilþrifum og Snæfell voru svo komnir í 21-9 með þrist frá Nonna Mæju. Varnarleikurinn var í góðum gæðum hjá Snæfelli eiginlega Dolby stereo. Haukar aftur á móti mættu seint og illa til leiks og voru á hælunum í vörn sinni og fundu engann takt í fyrsta hluta og staðan var 29-18 fyrir Snæfell en Haukur og Emil voru með mesta lífsmarkinu í Haukaliðinu.
 
Haukar fóru að lagast eillítið og sérstaklega varnarlega og Snæfell slakaði á taumnum í byrjun annars hluta og forskotið minnkaði í 35-31. Ekki kom það að sök þó Haukar sprettu smá úr spori þegar Snæfellingar tóku 10-0 kafla, gáfu vel í og kafsigldu Hauka með stórum skotum frá áðurnefndum Sigga og Svenna. Ekki verður annað hægt en að hrósa betrumbættum varnaleik Snæfells sem leiddi í hálfleik 56-40 og þar var allt liði að verki sem fleygði sér í alla lausa bolta.
 
Í liði Snæfells var Sigurður Þorvaldsson kominn með 17 stig, Nonni Mæju 11 stig og 8 fráköst. Hjá Haukum var Haukur Óskarsson þeirra maður með 16 stig og Emil Barja barðsist vel með honum með 10 stig og 5 fráköst.
 
Snæfellingar gengu berserksgang í upphafi seinni hálfleiks með tvo þrista frá Travis, brjálaða vörn, stolna bolta og komust fljótt í góða forystu 74-47. Haukar náðu einfaldlega aldrei að rúlla neinum sóknum af viti, vörnin skrefinu á eftir og menn eins og Terrence Watson hálfpartinn í felum. Án þess að fjölyrða meira um það þá var þetta leikur Snæfells frá a-ö í kvöld. Strax í þriðja hluta voru Nonni Mæju og Sveinn Arnar komnir með 4 villur hvor en allt settlegra Hafnarfjarðarmegin. Staðan 79-59 eftir þriðja fjórðung.
 
Leikurinn náði engum hæðum en Haukar reyndu að pressa um miðjan fjórða hluta en gekk ekki sem skildi. Stykkishólmsættaði Kristinn Marinósson setti eitt stykki þrist fyrir Hauka og staðan 93-72 þegar tvær mínútur voru eftir en eins og leikurinn þróaðist í fyrri hálfleik og upphafi þriðja hluta var séns Hauka enginn. Finnur Atli var að koma sterkur inn í lið Snæfells og strákurinn heldur betur að braggast.
 
Snæfellingar færðust nær Haukum sem eru í sjöunda sæti með 14 stig en Snæfellingar verma áttunda sætið með 12 stig eftir sigurleik kvöldins. Lokatölur 96-82 fyrir Snæfell.
 
Snæfell: Travis Cohn 27/4 frák/7 stoðs/ 5 stolnir. Sigurður Þorvaldsson 25/3 frák. Jón Ólafur 11/10 frák/6 stoðs. Stefán Karel 8/5 frák. Sveinn Arnar 6/3 frák. Kristján Pétur 5. Þorbergur Helgi 4. Pálmi Freyr 0. Snjólfur Björnsson 0. Viktor Alexandersson 0.
 
Haukar: Haukur Óskarsson 18/5 frák. Emil Barja 15/9 frák/4 stolnir. Kristinn Marinósson 8/5 frák. Davíð Páll 8. Terrence Watson 8/12/frák. Svavar Páll 7/4 frák. Kái Jónsson 4. Sigurður Þór 4. Hjálmar Stefánsson 3. Steinar Aronsson 2. Alex Óli 0.
 
Símon B. Hjaltalín.
Mynd: Eyþór Ben
 
Fréttir
- Auglýsing -