00:14
{mosimage}
(Hólmarar gerðu góða ferð á Krókinn)
Landsbyggðin mættist í kvöld í Síkinu á Króknum í formi Tindastóls og Snæfells. Stólarnir tefldu fram liði eingöngu skipað Skagfirðingum og lið Snæfells var mestu skipað heimamönnum fyrir utan allavega einn erlendan leikmann. Liðin voru fyrir leikinn með jafnmörg stig í fimmta og sjötta sæti deildarinnar. Allt svona fyrirfram tilbúið í spennandi leik. Lið heimamanna í byrjun skipuðu Axel Kárason, Friðrik Hreinsson, Svavar Birgisson, Ísak Einarsson og Helgi Rafn Viggósson. Fyrir gestina frá Stykkishólmi stigu fyrstir á dúk; Hlynur Bærings, Jón Jóns, Slobodan Subasic, Gunnlaugur Smára og Sigurður Þorvalds.
Fyrstu mínúturnar skiptust liðin á körfum, en síðan kom góður kafli Snæfells sem orsakaði það að Kristinn Friðriksson tók leikhlé í stöðunni 6 – 15. Leist honum ekkert á málin og reyndi að hrista sína menn í gang. Það tókst því Stólarnir tóku smá sprett og komu muninum niður í fimm stig 15 – 20. Þá komu 6 stig í röð frá gestunum, en karfa frá Ísak í lok leikhlutans lagaði stöðuna örlítið. Staðan 17 – 26 eftir fyrstu 10 mínúturnar.
Annar leikhluti hélst í jafnvægi mest allan tímann. Stólarnir minnkuðu muninn minnst niður í fimm stig, en annars hélst munurinn í kringum tíu stigin. Tvær góðar körfur frá Ísaki í lok hálfleiksins settu stöðuna í 45 – 51 og leiddu því gestirnir með 6 stigum í hálfleik. Sigurður Þorvalds var illviðráðanlegur fyrir Stólana í fyrri hálfleik og var kominn með 23 stig. Sóknarnýting gestanna var mjög góð og rötuðu flest þeirra skot niður. Varnarleikur Tindastóls var slakur á löngum köflum, en sóknin þokkaleg. Ísak var stigahæstur sinna manna með 11 stig í hálfleik. Enn var munurinn ekki yfirstíganlegur fyrir heimamenn, en ljóst var að þeir urðu að bæta varnarleikinn til þess.
Nonni Mæju og Axel Kára skiptust á fyrstu körfum síðari hálfleik og skoraði Nonni fyrstu 7 stig Snæfells í þriðja leikhluta. Síðan tóku félagar hans við, settu niður 8 stig í röð og munurinn skyndilega orðinn 16 stig í stöðunni 50 – 66. Aftur brá Kiddi á það ráð að taka leikhlé. Stólarnir náðu að laga sóknarleikinn, en ekki nægilega mikið til að saxa á forskotið sem hafði myndast. Staðan 58 – 72 eftir þriðja fjórðung og lítið útlit fyrir spennandi lokamínútur. Nonni Mæju vaknaði til lífsins í þessum leikhluta og skoraði 11 stig. Hjá Stólunum hélt stigaskorið áfram að dreifast.
Ef það var einhvern von fyrir Tindastól að minnka muninn þá hvarf hún í upphafi síðasta leikhluta. Þristar frá Agli Egilssyni og Gunnlaugi Smárasyni settu muninn í tuttugu stig á fyrstu tveimur mínútunum og Snæfellingar héldu síðan þeim mun eiginlega til leiksloka. Þegar ein og hálf mínúta var eftir var staðan 76 – 93 og Snæfellingar skiptu öllu byrjunarliðinu útaf og leyfðu guttunum að ljúka leiknum. Stólarnir nýttu sér það og sérstaklega Helgi Rafn sem skoraði átta stig á lokamínútunni. Það nægði hinsvegar ekki til annars en koma muninum niður í 7 stig fyrir leikslok. Lokastaðan 88 – 95, í leik sem varð aldrei spennandi í síðari hálfleik. Snæfell vann því sanngjarnan sigur á heimamönnum að þessu sinni. Tindastóll náði sér aldrei almennilega á strik. Sóknarleikurinn stundum fálmkenndur, en þokkalegur lengst af. Varnarleikurinn var ekki góður og sést best á því að sóknarnýting Snæfells var mjög góð eða rúm 76% hittni úr tveggja stiga skotum og þeir skoruðu 95 stig sem er þeirra besta skor í vetur. Jón Jónsson og Sigurður Þorvaldsson drógu vagninn fyrir Snæfell í stigaskorinu og síðan átti Hlynur góðan leik að vanda. Aðrir skiluðu sínu þegar þess þurfti. Hjá Stólunum var Helgi Rafn stigahæstur með 18 stig, en næstur kom Ísak með 17 stig. Ísak ásamt Axeli voru skástir heimamanna, aðrir náðu sér ekki alveg á strik, þó þeir ættu einn og einn sprett.
Stigaskor Tindastóls: Helgi Rafn 18, Ísak 17, Svavar 14, Friðrik 13, Axel 11, Óli 6, Halli 5, Matti og Einar Bjarni 2 stig hvor.
Snæfell: Sigurður 29, Jón 22, Hlynur 14, Slobodan 10, Atli 7, Gunnlaugur 5, Egill 3, Daníel 3 og Guðni 2.
Dómarar leiksins voru þeir Björgvin Rúnarsson og Halldór Geir Jensson. Betri dómgæsla hefur sést á Króknum, en hafði ekki áhrif á úrslit leiksins.
Nokkar tölur úr leiknum: 6-8, 9-15, 15-23, 17-26, – 25-30, 30-37, 36-46, 45-51, – 50-58, 52-66, 55-70, 58-72, – 64-80, 71-87, 76-93, 88-95.
Texti: Jóhann Sigmarsson
Myndir: Sveinn Brynjar Pálmason
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



