spot_img
HomeFréttirSnæfellingar bikarmeistarar í fyrsta skiptið (Umfjöllun)

Snæfellingar bikarmeistarar í fyrsta skiptið (Umfjöllun)

18:27

{mosimage}

Snæfellingar urði í dag bikarmeistarar í fyrsta sinn þegar spilað var til úrslita í Lýsingarbikar karla árið 2008.  Snæfellingar unnu lið Fjölnis nokkuð örugglega en leikurinn endaði 109-86 þar sem Justin Shouse og Sigurður Þorvaldsson fóru á kostum hjá Snæfellingum sem voru vægast sagt eldheitir og settu hverja þriggja stiga körfuna á fætur annari ofaní.  Snæfellingar náðu forskotinu strax í upphafi og gáfu það aldrei af hendi.  Stigahæstir hjá Snæfellingum voru Sigurður Þorvaldsson með 30 stig og 5 fráköst, Justins Shouse með 27 stig, 10 stoðsendingar og 5 fráköst og Slobodan Subasic með 24 stig. Þess ber að geta að Hlynur Bæringsson var eins og tröll undir körfunni í dag eins og aðra daga en í dag tók hann hvorki fleiri né færri en 18 fráköst og átti þar að auki 7 stoðsendingar.  Hjá Fjölni var Anthony Drejaj atkvæðamestur með 26 stig og 6 stoðsendingar, næstir voru Níels P. Dungal með 17 stig og Sean Kitter með 12 stig.

 

 

Byrjunarliðin

Fjölnir

#7        Pete Stroble

#5        Níels P. Dungal

#12      Helgi H. Þorláksson

#14      Sean Knitter

#8        Anthony Drejaj

Snæfell

#15      Slobodan Subasic

#11      Sigurður Þorvaldsson

#5         Ingvaldur M. Hafsteinsson

#12      Justin Shouse

#4        Hlynur Bæringsson

 

Menn mættu vel tilbúnir til leiks í dag og eftir tvær mínútur var staðan jöfn 5-5 og Pete Stroble með öll fimm stig Fjölnismanna.  Snæfell byrjaði leikinn í sterkri pressu upp allan völlinn.  Þessi vörn Snæfellinga skilaði þeim forskoti strax í upphafi leiks en þeir leiddu með 6 stigum þegar leikhlutinn var hálfnaður 15-9.  Þegar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta höfðu Snæfellingar enn aukuð við forskotið og leiddu, 22-13 en Fjölnismenn voru í miklum vandræðum með varnarleik Snæfellinga.  Það voru svo 10 stig sem skildu liðin að þegar leikhlutanum lauk en Fjölnir áttu seinustu þrjú stig leiksinns þegar Anthony Drejaj setti erfitt sniðskot ofaní og vítið þar á eftir, 30-20. 

{mosimage}

 

Snæfellingar keyrðu mikið upp hraðann í leiknum og var Justins Shouse sterkur í sóknarleiknum að vanda.  Snæfellingar skoruðu því fyrstu 5 stigin í öðrum leikhluta og munurinn því kominn upp í 15 stig þar til Tryggvi Pálsson skoraði fyrstu stig Fjölnis af vítalínunni eftir rúmlega tvær mínútur af leik.  Fjölni tókst lítið að stoppa sóknarleik Snæfellinga sem sundurspiluðu Grafarvogsbúana trekk í trekk.  Þegar leikhlutinn var tæplega hálfnaður tók Bárður Eyþórsson leikhlé í stöðunni 40-24.  Fjölnismenn náðu að skerpa sinn leik eftir leikhléið og þegar tæplega fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik höfðu Fjölnismenn minnkað muninn niður í 9 stig, 42-33.  Snæfellingar voru oft klaufar að brjóta af sér og komu því mörg stig Fjölnis af vítalínunni.  Seinni hluta leikhlutans spiluðu Fjölnismenn miklu betri vörn og náðu að því að minnka muninn niður sem varð minnstur 5 stig þegar ein mínútur var eftir af leikhlutanum, Það var hins vegar Justin Shouse sem átti seinustu stig seinni hálfleiks með glæsilegu þriggja stiga flautukörfu og endaði leikhlutinn því með 10 stiga forskoti Snæfellinga, 48-38. 

 

Ekki minnkuðu lætin í seinni hálfleik en liðin skiptust á að skora fyrstu þrjár mínúturnar og var munurinn því ennþá 10 stig, 57-47.  Anthony Drejaj var duglegur að gleðja stuðningsmenn Fjölnis með glæsilegum þriggja stiga körfum en munurinn á liðunum minnkaði þó lítið því Fjölnismenn brutu mikið af sér og fengu Snæfellingar því oftar en ekki vítaskotið að auki.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður hafði Snæfell 13 stiga forskot, 68-55, og stuðningsmenn Snæfells létu vel í sér heyra.  Fjölnismenn leyfðu Snæfellingum þó aldrei að stinga af og þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum var munurinn 11 stig 71-60.  Justins Shouse og Sigurður Þorvaldsson fóru hamförum í sóknarleik Snæfellinga en þeir skoruðu 53 af  77 stigum þeirra í fyrstu þremur leikhlutunum.  Þegar þriðja leikhluta lauk var staðan því 77-60 sem var mesti munur í leiknum hingað til.

{mosimage}

Það gekk lítið hjá Fjölnismönnum að koma boltanum ofaní körfuna í byrjun fjórða leikhluta og þegar tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum tók Bárður Eyþórsson þjálfari Fjölnis leikhé en staðan var þá 79-60 og útlitið því ekki bjart fyrir Grafarvogsbúa.  Snæfellingar gengur á lagið og settu hvert þriggja stiga skotið ofaní á fætur öðru og þegar þrjár og hálf mínúta var liðin var munurinn kominn upp í 23 stig, 87-64.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður var munurinn 25 stig, 95-70, og undirritaður man hreinlega ekki hvenær seinasta skot geigaði hjá Snæfell.  Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka fékk Anthony Drejaj sína 5. og seinustu villu og þar með fór eina lífið úr sóknarleik Fjölnis á bekkinn.  Munurinn var 22 stig, 97-75, og lítið sem benti til annars en að bikarinn færi í Hólminn.  Þjálfarar beggja liða gáfu minni spámönnum leiktíma á lokamínútunum og engin breyting varð á muninum því Snæfellingar fóru með frækinn sigur af hólmi, 109-86.  Það var því enduretkin saga fyrir Fjölni sem tapaði stórt í bikarúrslitunum 2005 fyrir Njarðvík.  Snæfellingar fögnuðu vel og innilega að leikslokum og fjölmargir stuðningsmenn liðsins létu þakklæti sitt í ljós með með söng og klappi.

Tölfræði leiksins


Texti: Gísli Ólafsson

Myndir: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -