spot_img
HomeFréttirSnæfell varði heimavöllinn vel í toppslag

Snæfell varði heimavöllinn vel í toppslag

 
Snæfell sem hafði aukið forskotið á toppnum eftir síðustu umferð eru með 32 stig í efsta sæti en Haukar, gestir þeirra í kvöld, verma annað sætið með 26 stig og hafa verið spennandi leikir á milli liðana þó Snæfell hafi haft sigur í báðum. Fyrsti leikurinn fór 66-67 í Hafnarfirði en annar leikurinn 88-75 í Hólminum.
 
 
 
Bæði lið komu með góðan varnarleik í upphafi leiks og voru að taka mjög fín stopp á hvort annað og staðan 8-8 eftir sjö mínútna leik. Haukastúlkur runnu út á sóknarklukku í tvígang og bæði lið hittu ekkert sérstaklega en voru að taka fráköstin á víxl. Talandi um á víxl þá átti Íris Sverrisdóttir góðann þrist en Hildur Sigurðardóttir svaraði strax og staðan 13-13. Staðan eftir fyrsta hluta var 15-16 fyrir Hauka.
 
 
Eins og áður sagði var leikurinn í járnum og spennandi en eftir fjögra mínútna leik í öðrum hluta var staðan 21-20 fyrir Snæfell. Heimastúlkur sóttu þá vel og Chynna Brown fór tvívegis á vítalínuna og setti þrjú þar en Hildur Sigurðardóttir bætti einu sniðskoti við og staðan 26-20 og Haukar tóku tal saman. Haukum hafði ekki gengið vel í sóknum sínum og fengið lítið úr að moða gegn vörn Snæfells. Lele Hardy var sem skugginn af sjálfri sér í sókninni þó hún hafi verið fín í fráköstum. Hildur Sigurðardóttir smellti þessum líka fína þrist og Snæfell komust í 31-22 en hún var ekki hætt þar og var öflug í lok fyrri hálfleiks og staðan 39-30.
 
 
Hildur Sigurðardóttir hafði sett 14 stig en næstar voru Hildur Björg og Eva Margrét með sín hvor 6 stigin. Í liði Hauka var Lele Hardy með 9 stig og 10 fráköst en Margrét Rósa 8 stig.
 
Haukastúlkur höfðu farið aðeins yfir sín mál og komu einbeittari í upphafi seinni hálfleiks heldur en þær luku þeim fyrri. Þær sóttu stíft og voru harðar varnarlega og náðu aðeins að saxa á 43-37 en Lele Hardy hitti gífurlega illa og var með 13% nýtingu í tvistum 2 af 16. Snæfellsstúlkur leystu sinn leik ágætlega eftir það og komust í 10 stiga forystu 47-37. Haukastúlkur gáfu aðeins eftir undir lok þriðja hluta og staðan 58-44 fyrir lokahlutann.
 
 
Þegar Snæfell hafði skorað fimm stig í upphafi fjórða hluta 63-44, þá tóku Haukar tíma í spjall og mættu ákveðnar aftur á völlinn en var það nóg? Þær höfðu hrist sig saman áður í leiknum en svo gefið eftir fljótt gegn gríðarsterkri vörn Snæfells en Lele Hardy lagaði framlag sitt eilítið. Hildur Sigurðardóttir hitti úr þrist og kom Snæfelli í 21. stigs forystu 67-46. Snæfellsstúlkur unnu sig vel inn í leikinn og síðari hálfleikur var ægifagur að sjá hjá þeim sem skilaði þeim 79-64 sigri eftir að Silja Katrín lét þeirra síðast skot rigna með þrist og staðan í toppsæti deildarinnar styrkari og ansi vænleg eftir leiki kvöldins.
 
 
Snæfell: Chynna Brown 18/13 frák. Hildur Sigurðardóttir 17/4 frák/7 stoðs. Eva Margrét 13/6 frák/4 stoðs. Hildur Björg 12/7 frák. Guðrún Gróa 8/4 frák. Hugrún Eva 6/5 frák. Silja Katrín 3. Helga Hjördís 2/4 frák. Edda Bára 0. Rebekka Rán 0. Aníta Rún 0.
 
Haukar: Lele Hardy 17/18 frák. Gunnhildur Gunnarsdóttir 11/4 frák. Margrét Rósa 10/4 frák. Íris Sverrrisdóttir 9. Lovísa Björt 5. Jóhann Björk 4. Dagbjört Samúelsdóttir 4. Auður Íris 2. Sylvía Rún 2. Þóra Kristín 0.
 
 
Mynd/ Eyþór Benediktsson
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín
  
Fréttir
- Auglýsing -