Snæfell leiðir undanúrslitaeinvígið 2-1 gegn KR eftir 77-81 spennusigur í DHL-Höllinni í dag. Leikurinn var stál í stál frá upphafi til enda þar sem liðin skiptust 24 sinnum á forystunni. Hólmarar reyndust sterkari á lokasprettinum sem einkenndist af vítakeppni en það var þó af frumkvæði Martins Berkis sem gestirnir sigu fram úr en hann sett niður 5 af 7 þristum sínum í leiknum og þeir voru í dýrari kantinum í síðari hálfleik. Hlynur Bæringsson var stigahæstur hjá Snæfell með 19 stig og 15 fráköst en Morgan Lewis gerði 29 stig og tók 10 fráköst hjá KR.
Morgan Lewis mætti klár til leiks og skoraði nánast að vild gegn Snæfellsvörninni en jafnt var þó á öllum tölum í hörkuleik. Martins Berkis setti svo niður sterkan þrist fyrir Hólmara þegar skammt var eftir af fyrsta leikhluta og staðan 17-20 en gestirnir leiddu 19-23 eftir fyrsta þar sem Sveinn Davíðsson kom sterkur af bekknum en Jón Ólafur Jónsson leiddi samt sóknarleik gestanna og var stóru mönnum KR illviðráðanlegur.
Heimamenn í KR voru ekki lengi að ná forystunni og gerðu fyrstu sex stig annars leikhluta og staðan 25-23 þegar Ingi Þór Steinþórsson tók leikhlé fyrir sína menn. Hólmarar komu sterkir til baka og liðin skiptust á því að skora og munurinn aldrei mikill. Sean Burton var enn að eiga í erfiðleikum en alla seríuna hafa KR-ingar haft góðar gætur á leikstjórnandanum knáa.
Pavel Ermolinskij komst svo loks á blað í stigaskorinu eftir tæplega 18 mínútna leik þegar hann jafnaði metin í 33-33 með gegnumbroti fyrir KR. Pálmi Freyr Sigurgeirsson var snöggur að næla sér í sína þriðju villu í liði Snæfells en hafði sig þó mikið í frammi á meðan hann var á vellinum.
Eins og verið hefur í úrslitakeppninni var línan sem fyrr nokkuð ströng í dómgæslunni og menn duglegir við að fá villur og lykilmenn beggja liða því komnir á hættusvæði í hálfleik.
Rétt eins og í fyrsta leikhluta áttu Hólmarar fína rispu undir lok leikhlutans og Emil Þór Jóhannsson hleypti Snæfellingum kappi í kinn þegar hann stal boltanum í sendingu frá Tommy Johnson og skoraði fyrir Snæfell þar sem liðin gengu svo til búningsherbergjanna í stöðunni 35-40 í hálfleik.
Morgan Lewis var að gera Hólmurum lífið leitt í fyrri hálfleik með 18 stig hjá KR en Hlynur Bæringsson fór að finna körfuna í öðrum leikhluta og var kominn með 11 stig og 9 fráköst hjá Snæfell.
Heimamenn í KR hófu síðari hálfleik af krafti og gerðu sex fyrstu stigin áður en Hlynur Bæringsson skoraði fyrir Snæfell og kom gestunum aftur yfir 41-42 en Hlynur hefur oft verið með betri skotnýtingu í teignum heldur en í dag. Þá ber að geta þess að þetta var þá í 11. sinn í leiknum sem liðin skiptust á forystunni en það gerðist 10 sinnum í fyrri hálfleik.
Martins Berkis hrökk enn eina ferðina í gang í Vesturbænum og setti niður tvo sterka þrista á meðan Sean Burton var enn að berjast við að komast í takt við leikinn. Páll Fannar Helgason setti svo niður góðan þrist fyrir Hólmara og staðan 54-58 en heimamenn í KR áttu flottan lokasprett þar sem Tommy Johnson gerði þrjú síðustu stig leikhlutans í erfiðu þriggja stiga skoti og staðan 65-62 KR í vil fyrir lokasprettinn.
Eftir tæplega fimm mínútna leik í fjórða leikhluta var staðan 67-65 fyrir KR, eða 2-3 í leikhlutanum. Alls voru þetta 5 stig á 5 mínútum og sóknarleikur liðanna var hálfgerður brandari, það datt ekkert ofaní, hvorki þristar, teigskot né sniðskot. Næstu fimm mínútur losnaði þó aðeins um höftin og körfurnar komu hægt og sígandi.
Martins Berkis er hvergi smeykur og sýndi það með tveimur stórum þristum sem komu Snæfell í 69-71 og Hólmarar komust svo í 69-75 með 10-0 áhlaupi. Fannar Ólafsson kom KR aftur á sporið með því að setja niður eitt vítaskot og Morgan Lewis minnkaði muninn í 74-75 af vítalínunni og ein mínúta til leiksloka.
Snæfell hélt í sókn og KR braut þegar 40 sekúndur voru eftir. Pálmi Freyr Sigurgeirsson þekkir körfurnar vel í Vesturbænum og smellti niður báðum vítunum, staðan 74-77 fyrir Snæfell. Þegar 21 sekúnda var eftir var brotið á Morgan Lewis sem setti aðeins niður annað vítið og 75-77. Eftir viðlíka vítakraðak til viðbótar var staðan 77-79 og sex sekúndur eftir þegar Morgan Lewis reif sig upp í þriggja stiga skot sem fór ekki í hringinn. KR var dæmdur boltinn sem hafnaði út af og aftur fékk Lewis boltann, hann keyrði upp að körfunni en sniðskot hans fór ekki í hringinn. Hlynur Bæringsson tók frákastið og KR braut strax á honum. Hlynur setti niður bæði vítin og breytti stöðunni í 77-81 sem urðu lokatölur leiksins.
Þegar innan við mínúta var eftir af leiknum meiddist Fannar Ólafsson á ökkla en hann var studdur af velli og óljóst hversu alvarleg meiðslin eru.
Fimm leikmenn Snæfells gerðu 10 stig eða meira í leiknum og þeirra atkvæðamestur var Hlynur Bæringsson með 19 stig og 15 fráköst en hann var aðeins með 33,3% nýtingu í teignum og hefur nýtingin hjá miðherjanum oft verið betri. Martins Berkis kom næstur en sá kappi er svellkaldur og setti hann niður 5 af 7 þristum sínum í leiknum og lauk leik með 15 stig.
Hjá KR var Morgan Lewis atkvæðamestur með 29 stig og 10 fráköst og Finnur Atli Magnússon bætti við 13 stigum.
Það sem varð KR að falli í dag var skotnýtingin, Snæfell voru ekkert að raða niður körfunum en heimamenn í KR voru t.d. bara með 12,5% þriggja stiga nýtingu á meðan gestirnir voru með 30,8% þriggja stiga nýtingu.
________________________________________________________________________
Byrjunarliðin:
KR: Pavel Ermolinskij, Brynjar Þór Björnsson, Morgan Lewis, Finnur Atli Magnússon og Fannar Ólafsson.
Snæfell: Sean Burton, Emil Þór Jóhannsson, Sigurður Á. Þorvaldsson, Jón Ólafur Jónsson og Hlynur Bæringsson.
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Jón Guðmundsson.
Ljósmynd/Tomasz Kolodziejski: Það var hart barist í DHL-Höllinni í dag.



