spot_img
HomeFréttirSnæfell stóðst áhlaup KR og komust í úrslit

Snæfell stóðst áhlaup KR og komust í úrslit

 
Snæfell er komið í úrslit úrvalsdeildar í fjórða sinn í sögu félagsins og mæta þar Keflavík í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Snæfell mætti Keflvíkingum fyrstu þrjú skiptin sem liðið komst í úrslit og beið þar ávallt lægri hlut en fá nú fjórða tækifærið til þess að spreyta sig. Snæfell lagði KR í kvöld 83-93 í oddaleik í DHL-Höllinni eftir æsispennandi lokasprett. Íslandsmeistarar KR gerðu heiðarlega tilraun til þess að stela sigrinum en Martins Berkis kann vel við sig í DHL-Höllinni og setti þrist á hárréttum tíma sem hélt Hólmurum við efnið.
Sigurður Þorvaldsson var besti maður kvöldsins með 28 stig og 9 fráköst í liði Hólmara en hjá KR hrökk Morgan Lewis í gang á lokasprettinum og lauk leik með 17 stig en hann hafði afar hægt um sig framan af leik.
 
Sigurður Þorvaldsson gerði fjögur fyrstu stig gestanna og fljótlega skiptu KR-ingar um varnarmann á honum, settu Pavel á Sigurð en Brynjar Þór hóf leikinn á því að dekka hann. Þessar varnarfærslur KR höfðu ekki mikil áhrif því Sigurður átti eftir láta töluvert að sér kveða í viðbót. Menn voru með líflegasta móti í upphafi leiks og 8 leikmenn af þeim 10 sem byrjuðu hann náðu að skora á þremur fyrstu mínútunum.
 
Undir lok fyrsta leikhluta rann smá þriggja stiga æði á bæði lið þar sem Jón Ólafur Jónsson breytti stöðunni í 17-27 fyrir Snæfell og gestirnir leiddu svo 21-30 eftir fyrsta leikhluta.
 
Martins Berkis kom sterkur inn af Snæfellsbekknum í fyrsta leikhluta og hélt áfram að láta að sér kveða í öðrum. Sigurður Á. Þorvaldsson lék áfram lausum hala þar sem KR-ingar áttu fá svör gegn honum í kvöld. Sóknarleikur Snæfells var sterkur í fyrri hálfleik þar sem Hólmarar teygðu vel á vörn KR og hreyfðu boltann hratt og örugglega. Að sama skapi var varnarleikur heimamanna afar dapur og staðan í hálfleik 43-54 Snæfell í vil og ekki oft sem KR-ingar fá á sig 54 stig í hálfleik.
 
Brynjar Þór Björnsson og Finnur Atli Magnússon voru báðir með 8 stig í hálfleik hjá KR en í liði Snæfells var Sigurður Þorvaldsson kominn með 16 stig.
 
Í kvöld reyndist þriðji leikhluti banabiti KR-inga. Snæfell vann leikhlutann 10-19 en þurftu að hafa afar lítið fyrir hlutunum þessar 10 mínútur. KR henti boltanum frá sér í gríð og erg og á köflum var hálf vandræðalegt að fylgjast með meisturunum engjast um á sínu eigin parketi.
 
Um miðjan þriðja leikhluta sló í brýnu milli miðherjanna Hlyns Bæringssonar og Fannars Ólafssonar. Pústrar og nokkur vel valin orð fóru þarna manna á millum og víðar um völl virtust heimamenn láta hvert smáatriði fara í taugarnar á sér sem lyktaði með hryllilegum lokamínútum í leikhlutanum fyrir heimamenn.
 
Sigurður Þorvaldsson kom Snæfell í 48-68 og munaði um minna að Lewis í liði KR skyldi vera algerlega heillum horfinn. Liðin héldu svo inn í fjórða leikhluta í stöðunni 53-73 þar sem aðeins fjögur stig voru skoruð síðustu tvær og hálfa mínútuna í þriðja leikhluta.
 
Kúvending varð á leiknum í fjórða leikhluta, KR byrjaði 7-0 og var það fyrir tilstilli Skarphéðins Ingasonar sem KR fann neistann. Það var enginn annar liðsmaður KR að láta til sín taka svo Skarphéðinn steig upp og setti tóninn. Á tæpum tveimur mínútum smellti Skarphéðinn niður tveimur þristum og eftir stoðsendingu frá Pavel Ermolinskij á miðjum vellinum tróð Morgan Lewis með tilþrifum og staðan 67-75 eftir tæplega þriggja mínútna leik.
 
Íslandsmeistararnir voru hvergi nærri hættir þó vissulega hefði það sett strik í reikninginn að Skarphéðinn skyldi fá sína fimmtu villu og hverfa frá leiknum. Pavel Ermolinskij minnkaði muninn í 76-79 með þriggja stiga körfu, skömmu síðar minnkaði Morgan Lewis muninn í 78-79 og KR búið að gera 25 stig gegn 6 frá Snæfell og leikurinn galopinn.
 
Ef það er einhver sem kann vel við sig í DHL-Höllinni þá er það Martins Berkis. Þriggja stiga karfa hans þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka komu sér afar illa fyrir stemmninguna í liði KR og staðan orðin 78-82 fyrir Hólmara.
 
KR minnkaði muninn í 80-82 en þá braust Pálmi Freyr Sigurgeirsson í gegnum vörn KR og skoraði úr erfiðu færi og staðan 80-84. Risavaxin karfa fyrir Snæfell og í raun lokapúslið sem Hólmarar þurftu því bæði lið voru komin með skotrétt og þannig spiluðust síðustu sekúndurnar. KR freistaði þess að brjóta en Hólmarar settu niður 33 af 45 vítum sínum í leiknum og þar var Sigurður Þorvaldsson með 17 víti og 16 fóru niður, stáltaugar hjá kappanum sem sagði eftir leik fjögur að hann kviði því ekki að mæta í oddaleik í DHL-Höllina og kom það bersýnilega í ljós í kvöld.
 
Lokatölur urðu svo 83-93 Snæfell í vil sem eru nú komnir áfram í úrslitaseríuna gegn Keflavík. Magnað einvígi að baki hjá tveimur sterkum liðum þar sem allir sigrarnir í einvíginu unnust á útivelli.
 
Sigurður Á. Þorvaldsson var maður leiksins með 28 stig og 9 fráköst en Martins Berkis bætti við 16 stigum og Hlynur Bæringsson var með 15 stig og 9 fráköst. Hjá KR vantaði að lykilleikmenn væru með frá upphafi og þegar upp er staðið reyndust Hólmarar hafa slitið sig of langt frá KR sem fá þó mikið hrós fyrir magnaða baráttu á lokasprettinum.
 
KR: Morgan Lewis 17/5 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 15/4 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 15, Pavel Ermolinskij 14/13 fráköst/7 stoðsendingar, Finnur Atli Magnússon 8, Tommy Johnson 5, Fannar Ólafsson 4/4 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 3/5 fráköst, Darri Hilmarsson 2, Steinar Kaldal 0, Ólafur Már Ægisson 0, Egill Vignisson 0.
 
Snæfell: Sigurður Á. Þorvaldsson 28/9 fráköst, Martins Berkis 16/5 fráköst, Hlynur Bæringsson 15/9 fráköst/3 varin skot, Jón Ólafur Jónsson 12/7 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 9, Sean Burton 8/8 stoðsendingar, Emil Þór Jóhannsson 5, Páll Fannar Helgason 0, Kristján Andrésson 0, Egill Egilsson 0, Gunnlaugur Smárason 0, Sveinn Arnar Davíðsson 0.
 
_______________________________________________________________________
 
Byrjunarliðin:
 
KR: Pavel Ermolinskij, Brynjar Þór Björnsson, Morgan Lewis, Finnur Atli Magnússon og Fannar Ólafsson.
 
Snæfell: Sean Burton, Emil Þór Jóhannsson, Sigurður Á. Þorvaldsson, Jón Ólafur Jónsson og Hlynur Bæringsson.
 
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Kristinn Óskarsson
 
Ljósmynd/ Martins Berkis fór á kostum í öllum þremur undanúrslitaleikjunum í DHL-Höllinni og setti í kvöld stóra körfu sem hélt KR í skefjum á lokasprettinum.
 
Fréttir
- Auglýsing -