Snæfell hafði betur á heimavellinum gegn Grindavík í kvöld, 78-62. Hayden Denise Palmer var með 33 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar fyrir heimakonur. Hjá Grindvíkingum var Whitney Michelle Frazier með 16 stig og 13 fráköst.
Snæfellingar voru betra liðið í kvöld. Þær fóru vel af stað og komust í 5-0. Grindvíkingar gerðu þó vel að vinna upp muninn og undir miðjan leikhlutann voru gestirnir komnir yfir. Það voru þó Snæfellingar sem voru með 1 stigs forystu eftir 1. leikhlutann og litu þær aldrei við. Leikurinn varð spennandi á köflum en Snæfell vann þó alla leikhlutana. Hayden Palmer átti mjög fínan leik en 11 af hennar 33 stigum komu af vítalínunni. Ingi Þór þjálfari Snæfell kom mörgum á óvart í kvöld þegar hann setti Gunnhildi Gunnarsdóttur. Gunnhildur meiddist í leik landsliðsins á dögunum og var gert ráð fyrir að hún yrði ekki meira með fyrr en eftir áramót. Ánægjufréttir fyrir Hólmara enda mikilvægt fyrir lið að hafa svona sterkan leikmann og leiðtoga í hópnum.
Snæfellskonur fóru sterkari af stað í kvöld enda óhætt að segja að liðið hafi ekki verið sátt með útkomuna í síðasta leik. Meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá báðum liðum í vetur og þá sérstaklega höfuðmeiðsli hjá liði Grindavíkur. Petrúnella Skúladóttur er komin aftur á völlinn en hún fékk alvarlegan heilahristing fyrr í vetur og spilaði ekki í rúman mánuð eftir á. Björg Einarsdóttir, Hólmarinn í Grindavík, var hins vegar ekki með en hún hlaut höfuðáverka nýlega. Það er spurning hvort Grindvíkingar séu í vandræðum með stuttu fjarlægðina frá endalínum körfuboltavallarins að veggjunum í Mustad-höllinni. Ekki oft sem að heyrst hefur af jafn mörgum höfuðmeiðslum hjá svona mörgum leikmönnum sama liðs á jafn stuttum tíma. Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir Grindavík sem hefur í raun aldrei ná leik þar sem allir lykilleikmenn eru heilir.
Snæfell-Grindavík 78-62 (16-15, 22-15, 16-13, 24-19)
Snæfell: Haiden Denise Palmer 33/6 fráköst/6 stoðsendingar, Bryndís Guðmundsdóttir 18/8 fráköst, Sara Diljá Sigurðardóttir 9/5 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 6, María Björnsdóttir 4/9 fráköst, Andrea Björt Ólafsdóttir 2/6 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 2, Rebekka Rán Karlsdóttir 2, Anna Soffía Lárusdóttir 2, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 0, Hrafnhildur Magnúsdóttir 0, Gunnhildur Gunnarsdóttir 0.
Grindavík: Whitney Michelle Frazier 16/13 fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 14/14 fráköst, Ingunn Embla Kristínardóttir 9, Jeanne Lois Figeroa Sicat 6, Lilja Ósk Sigmarsdóttir 5/5 fráköst, Petrúnella Skúladóttir 4, Helga Einarsdóttir 4, Hrund Skuladóttir 4, Viktoría Líf Steinþórsdóttir 0, Ólöf Rún Óladóttir 0.
Myndasafn: Sumarliði Ásgeirsson