spot_img
HomeFréttirSnæfell slapp með skrekkinn á heimavelli

Snæfell slapp með skrekkinn á heimavelli

Umgjörðin var eins og best er á kosið, vel mætt á leikinn og voru það nokkrir dyggir Valsarar sem létu sjá sig á þessu bjarta og fallega kvöldi í Hólminum.

Snæfell byrjaði leikinn af krafti og keyrðu þær Valskonur í kaf á fyrstu fjórum mínútum leiksins. Boltinn gekk vel á milli leikmanna og var gleðin í fyrirrúmi. Hraðaupphlaupin voru allmörg í byrjun og fengu Snæfellskonur þau eftir góða vörn. Þegar leikhlutinn var hálfnaður var varnarleikur Vals orðinn góður og náðu þær að stoppa flæði Snæfells nokkuð vel. Með hægari leik eiga Valskonur góða möguleika á því að standa í Snæfell. Karisma var aldeilis staðráðin í því að hafa leikinn jafnan, spilaði frábæra vörn og kláraði vel undir körfunni. Karisma skoraði 12 af fyrstu 18 stigum Vals og er hún gríðarlega mikilvæg liðinu.

 

Jafn leikur þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum þegar Gunnhildur fer á línuna, setur bæði og vonast til að stoppa nokkur skipti á meðan Karisma fær sér jökulkalt vatn úr Svelgsánni. Pásan var ekki löng og stoppið kom ekki. Hólmarar vor hins vegar slegnar út af laginu og sætta sig helst við þriggjastiga skot, þegar þær sóttu að körfunni reyndu þær að þröngva erfiðum skotum og fengu því ekkert frá dómurum leiksins sem voru þeir Eggert Þór Aðalsteinsson og Einar Skarphéðinsson. Harkan verður meiri þegar það vorar og er það hlutverk þeirra að halda leikmönnum innan marka sem sæma okkar fallegu íþrótt. Staðan 32 – 29 í hálfleik og leikurinn í járnum, mikill hiti var í leikmönnum og þjálfurum liðanna enda er allt undir á þessum tímapunkti. Ástin á leiknum er bersýnileg hjá öllum sem mættu í Hólminn í kvöld, þvílík stemmning.

 

Síðari hálfleikur byrjar á brösuglegum sóknum frá báðum liðum og stórkostlegum mistökum frá báðum liðum. Liðin komust yfir það og byrjuðu að salla niður körfunum næstu eina og hálfu mínútuna. Hittni Snæfells var ekki nægilega góð undir körfunni en fyrir utan línuna var hún frábær 8 af 15 í þristum þegar þriðji leikhlutinn var hálfnaður. Gunnhildur Gunnarsdóttir var að gefa Hólmurum kraft með frábærum leik. Valsarar áttu frekar erfitt að finna opna leið að körfunni og voru að fá Snæfell hratt á sig. Munurinn kominn í tólf stig og Snæfell farið að líða betur. Snæfell náði á þessum kafla að loka algjörlega á Karisma sóknarlega og var það lykillinn af þeirra forskoti. Í lok þriðja leikhlutans fóru Snæfellingar illa að ráði sínu og töpuðu boltanum í gríð og erg.

 

Þegar fjórði og síðasti leikhlutinn byrjaði var staðan 49 – 42 fyrir Snæfell og voru Valskonur að daðra við það að ná forskotinu til baka. Valur byrjaði betur og skoruðu þær Hlíðarendadömur sjö fyrstu stig leikhlutans og jöfnuðu leikinn, takk fyrir túkall!

Snæfell vöknuðu við öskrin af bekknum hjá gestunum og komu sér aftur í fimm stiga forystu. Spennan var því mikil í leiknum og baráttan á pari við spennuna.

Þegar leikurinn var í járnum voru Valskonur að koma sér nálægt körfunni og komu þær sér í góðu stöðu fyrir sóknarfráköstin sem þær töku allmörg í leiknum.

Lokamínútan var nákvæmlega svona: Þegar mínúta var eftir af leiknum fékk Gunnhildur tvö vítaskot fyrir Snæfell, hún skoraði úr öðru og kom leiknum í þrjú stig. Karisma var ekki lengi að koma muninum í eitt stig áður en Haiden kom honum aftur í þrjú stig með góðu gegnum broti. Þegar 31,6 sek lifðu af leiknum voru Valsarar í sókn og tapa boltanum eftir sex sekúndur. Haiden fer á línuna og skellir báðum niður og kemur leiknum í fimm stiga forystu. Áhorfendur er staðnir á fætur og má finna spennuna í loftinu.  Valur tekur leikhlé og setja upp í snöggt skot sem endar með þrist frá Guðbjörgu og kemur hún muninum í tvö stig. Haiden kláraði leikinn á línunni og Valskonur klúðruðu stóru skotunum í loka sóknunum.

Það er mikilvægt að vinna fyrsta leikinn og mega Hólmarar prísa sig sæla með að vera 1 – 0 yfir í einvígi liðanna. Það stefnir í hörku rimmu á milli þessara liða og verður leikurinn á laugardaginn án efa stórskemmtilegur eins og leikurinn í kvöld.

Tölfræði leiksins 

Myndasafn – Sumarliði Ásgeirsson

Umfjöllun/ GS

Fréttir
- Auglýsing -