spot_img
HomeFréttirSnæfell sendu Keflavíkursópinn til síns heima

Snæfell sendu Keflavíkursópinn til síns heima

Einfalt var það fyrir þriðja leik í úrslitum dominosdeildar kvenna í dag, Snæfell undir 0-2 og þurftu að komast í fjórða leikinn eða Keflavík yrðu Íslandsmeistarar. Snæfell sýndu tennurnar og sigrðuð leikinn 68-60 og stendur einvígið því 1-2 eftir mikinn baráttuleik þar sem varnarleikur var í hávegum hafður og liðin standa að jöfnu í nánast flestum þáttum boltans.

 

Mikið var í húfi og liðin ógnuðu vel í byrjun leiks og staðan fljótt 8-8. Ariana opnaði á þrist og fylgdi Erna henni eftir og svo Bryndís og Gunnhildur fyrir Snæfell. Leikurinn var skipulagður og hraður hjá liðnunum og náðu Keflavíkurstúlkur að komast í bílstjórasætið og leiða 8-14. Snæfell komust yfir 17-16 með þremur frá Aaryn Ellenberg eftir að Keflavík hafði tvívarið skot frá Snæfell undir körfunni. Staðan eftir fyrsta hluta 17-17.

 

Liðin voru ekki að ráðast á körfuna eins óhikað í öðrum hluta en Snæfell komu vel skipulagðar og tóku forystuna 31-23 þegar seig á leikhlutann. Svæðisvörn Snæfells var að taka nokkuð um miðjan hlutan og voru þær einungis komnar með tvær villur undir lok fyrri hálfleiks. Snæfell stálu boltum og hittu vel úr því og komust í 38-25 forystu á meðan Keflavík voru óheppnar í skotum sínum. Snæfell leiddi 40-27 í hálfleik en þær voru líka með eitt geigað víti 13/14 sem taldi drjúgt.

 

Keflavík sóttu heldur betur á í upphafi seinni hálfleiks og tóku 7-0 áhlaup og minnkuðu munin í 40-34. Keflavík komust yfir 44-45 eftir fantagóðan varnarleik þar sem þær ýttu Snæfelli útúr spili sínu og hirtu boltan trekk í trekk. Keflavík fór illa með Snæfell í þriðja leikhluta 7-20 en staðan var jöfn 47-47 fyrir lokaátökin.

 

Keflavík missti mikilvægan leikmann af velli þegar Birnu Valgerði fékk brottrekstur eftir að sparka í Gunnhildi Gunnarsdóttir sem sat á gólfinu. Snæfell nýttu sér þetta eilítið og náðu áttum og komust aftur yfir 54-49. Leikurinn var þó langt í frá úti og staðan 56-56 þegar um fjórar mínútur voru eftir. Snæfell áttu ótrúlegan kafla þar sem Aaryn setti þrist eftir að reyna að bjarga boltanum sem var á leið útaf úti í horni og staðan allt í einu orðin 64-56 með miklu harðfylgi Snæfells. Snæfell snéru sér leiknum í hag undir lokin og þegar 46 sekúndur voru eftir var staðan 68-60 sem urðu lokatölur eftir rosalegan baráttuleik og enginn bikar á loft í kvöld en Snæfell tryggði sér séns til að koma einvíginu í oddaleik.

 

Fjórði leikhluti fór 20-13 fyrir Snæfell eftir að hafa fatast flugið snarlega í þriðja hluta. Ef getum týnt eitthvað til í tölum, þar sem liðin voru og eru alveg samstíga í flestum þáttum, þá eru það 90% vítanýting Snæfells og að ekki er að koma eins mikið framlaga af bekk Keflavíkur í þessum leik líkt og áður.

 

Hetja leiks Snæfells var varnarleikur þeirra sem var mun betri nú og fleiri komu með sterkar innkomur ef ekki í að skora þá fráköstum og baráttu. Aaryn Ellenberg er þó „playmakerinn“ og skilar 33 stigum, 11 fráköstum og 7 stoðsendingum. Á eftir henni koma Gunnhildur Gunnarsdóttir 12 stig og 4 frák. Berglind Gunnarsdóttir 9 stig og 9 frák. Bryndís Guðmunds 9 stig, 4 frák. Í liði Keflavíkur var Ariana Moorer með flotta tvennu 17 stig og 20 fráköst og var erfið viðureignar en henni næst var Thelma Dís með 14 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar.

 

Fjórði leikur liðanna verður í Keflavík á miðvikudaginn 26. Apríl og þar sem það sama upp á teningnum og fyrir þennan leik, annað hvort knýr Snæfell þetta í oddaleik eða Keflavík lyftir titli.

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn #1 (Davíð Eldur)

Myndasafn #2 (Sumarliði Ásgeirsson)

 

Umfjöllun / Símon B. Hjaltalín

Fréttir
- Auglýsing -