ÍR tók á móti efsta liði deildarinnar Snæfelli í Iceland Express deild karla í kvöld en þar eru þeir með 10 stig eftir 5 sigra og 1 tap en ÍR í 11. sæti með 1 sigur og 5 tapleiki. ÍR byrjuðu ferskir og voru greinilega hungraðir í fleiri stig og sigra í deildinni.
Sóknarleikur ÍR gekk ágætlega upp en þeir þurftu meira að hafa fyrir varnarleiknum til að halda Snæfelli frá sér. Snæfellingar gerðu sig seka um einstaka slakar sóknir en þeir urðu að halda í við ÍR og máttu við fáum mistökum þar sem ÍR var að hitta vel. Fyrsti hlutinn var að mestu jafn og var ÍR að ná að leiða með mest 9 stigum 37-28 þar sem Kelly Biedler var að fara fyrir sínum mönnum með 14 stig. Egill Egils náði að smella einum ísköldum úr kælinum fyrir Snæfell og lagaði stöðuna 37-31 fyrir ÍR eftir fyrsta leikhluta.
ÍR var komið 10 stigum yfir 48-38 en Snæfell herti tökin og náðu með tímanum að síga aðeins nær eftir nokkur mistök ÍR en hægt þó þar sem góð skot voru ekki að detta Snæfelli í hag. Ryan Amoroso var sendur í sturtu eftir sína aðra óíþróttamannslega villu þar sem fáir gerðu sér grein fyrir hvað væri í gangi en Kristinn Óskarsson var með atvikið á hreinu sem fyrr og sendi stigahæsta mann Snæfells í bað. ÍR leiddi 58-53 í hálfleik og var þeirra stighæstur Kelly Biedler með 18 stig og næstur Matic Ribic með 10 stig. Í liði Snæfells var Ryan Amoroso með 18 stig og Sean Burton 11 stig.
Síðari hálfleikur byrjaði lítið eitt kaflaskiptur en Snæfell virtist líklegt til að koma sér inn í leikinn og í stöðunni 69-58 var Emil Þór að detta í gang hjá Snæfelli og skoraði 8 stig á stuttum tíma en ÍR náði að halda sig eilítið frá þeim þó og um miðjann hlutann var staðan 71-65 en eftir góða pressuvörn Snæfells náðu þeir að brúa bilið betur 73-71 og jafna 73-73. Staðan var 78-73 fyrir lokafjórðunginn en ÍR hafði rétt sinn hlut eilítið eftir að eitt stykki Emil Þór hafði komið aftan að þeim með góðum leik. Sem fyrr var Kelly Biedler ásamt Nemjana Sovic að halda ÍR á floti.
Eftir heilmikinn atgang var Snæfell að skríða nær og nær en mikið spennustig var í leiknum í fjórða hluta og voru til að mynda Sovic, Biedler og Kristinn hjá ÍR komnir með 4 villur. Þegar staðan var 84-79 fór Snæfell að pressa aftur og unnu sig bítandi inn i leikinn en Sean jafnaði með þrist 86-86 og Pálmi kom svo Snæfelli yfir 88-89. Snæfell komst í 90-97 og voru að spila allt annan leik en fyrtsu þrjá hlutana á meðan ÍR voru að ströggla á móti varnarleik Snæfells og boltinn ekki að detta í netið. Snæfell héldu haus og ÍR fóru að brjóta síðustu mínútuna og voru Snæfell þá komnir á þokkalegt skrið og sigruðu leikinn 94-107. Það var Emil Þór sem steig upp eftir brotthvarf Ryan Amoroso og setti púður í leik Snæfells.
Ekki var Live stat inni í Seljaskóla í kvöld en það kemur væntanlega á síðu KKÍ síðar en hér eru stig þeirra sem skoruðu í leiknum.
ÍR:
Kelly Biedler 30 stig. Matic Ribic og Nemjana Sovic 20 stig hvor. Vilhjálmur Steinarsson 9 stig. Níels Dungal og Hjalti Friðriksson 8 stig hvor. Kristinn Jónasson 3 stig.
Snæfell:
Sean Burton 26 stig. Nonni Mæju 22 stig. Emil Þór 21 stig. Ryan Amoroso 18 stig. Pálmi Freyr 12 stig. Atli Rafn og Egill Egils 3 stig hvor. Sveinn Arnar 2 stig.
Dómarar: Jón Bender og Kristinn Óskarsson.
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Emil Þór Jóhannsson sækir að körfu ÍR í Hellinum í kvöld.
Umfjöllun: Símon B. Hjaltalín.



