spot_img
HomeFréttirSnæfell miklu betri í síðari hálfleik: Leiða 1-0 gegn KR

Snæfell miklu betri í síðari hálfleik: Leiða 1-0 gegn KR

 
Snæfell leiðir 1-0 gegn KR í undanúrslitaeinvígi liðanna í Iceland Express deild karla eftir 84-102 sigur í DHL-Höllinni í kvöld. Hólmarar fóru á kostum í síðari hálfleik, léku magnaða vörn, röðuðu niður þristum og uppskáru sanngjarnan yfirburðasigur á KR 84-102. Menn fögnuðu þó hóflega enda um langhlaup að ræða í þessu tilfelli. Martins Berkis var atkvæðamestur í liði Snæfells í kvöld með 21 stig en Finnur Atli Magnússon gerði 20 stig í liði KR.
Finnur Atli Magnússon færði sér vel í nyt klaufagang í Snæfellsvörninni á upphafsmínútum leiksins í kvöld og gerði 9 af 12 fyrstu stigum KR í leiknum. Snæfellingar voru oftar en ekki að skilja Finn eftir og KR-ingar bara pumpuðu boltanum á hann og Finnur skilaði sínu. KR sleit sig aðeins frá Snæfell í 19-13 þegar Morgan Lewis kom með Stjörnuleiks-takta inn á gólfið. Pavel Ermolinskij öllum að óvörum ákvað að reyna að skora sjálfur en brenndi af sniðskotinu, Lewis fylgdi vel á eftir og tróð með tilþrifum.
 
Gestirnir pressuðu lítið eitt á heimamenn undir lok fyrsta leikhluta en pressan skilaði litlu. Snæfellingar náðu þó að minnka muninn í 22-19 og þannig stóðu leikar eftir fyrsta leikhluta.
 
Í upphafi annars leikhluta voru Snæfellingar komnir með þriðja varnarmanninn á Pavel Ermolinskij. Sean Burton byrjaði, næstur var Martins Berkis og þriðji var Páll Fannar Helgason en Hólmarar voru duglegir að rúlla ferskum fótum á Pavel og ekki var langt að bíða að sá fjórði fengi að spreyta sig en það var Emil Þór Jóhannsson. Fyrir vikið átti Pavel nokkuð erfitt uppdráttar sóknarlega og var búinn að tapa 4 boltum í hálfleik.
 
Jón Ólafur Jónsson jafnaði metin í 22-22 með þriggja stiga körfu í byrjun annars leikhluta en skotnýting gestanna hafði verið dræm fram að þessu. Skömmu síðar fékk Jón sína þriðju villu og hélt á bekkinn. Jón Orri Kristjánsson kom gríðarlega sterkur inn í liði KR og lét vel til sín taka á báðum endum vallarins.
 
Áfram héldu gestirnir að skilja eftir Finn Atla Magnússon sem skoraði auðveldar körfur en jafnt var á öllum tölum og mikil harka í leiknum. Það var svo Páll Fannar Helgason sem fékk það hlutverk að loka leikhlutanum er hann sallaði niður þrist og Snæfell leiddi 40-43 í hálfleik.
 
Finnur Atli var með 11 stig og Jón Orri 10 stig í liði KR en hjá Snæfell var Sigurður Þorvaldsson kominn með 14 stig í hálfleik og Hlynur Bæringsson 10 og þar af 6 úr þriggja stiga skotum.
 
Sean Burton opnaði þristareikninginn sinn í upphafi síðari hálfleiks og breytti stöðunni í 42-46 fyrir Snæfell en Burton átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik. Í garð gekk svo þristaæði leitt áfram af Martins Berkis sem setti 5 í 7 tilraunum í kvöld. Gestirnir sigu fram úr og leiddu svo með 18 stigum, 57-75, að loknum þriðja leikhluta þar sem Sean Burton gerði 7 síðustu stig leikhlutans. Alger viðsnúningur á leiknum sem fram að þessu hafði verið mjög jafn. Snæfell vann leikhlutann 17-29 og héldu svo áfram og settu nýtt met þessa leiktíðina. Urðu fyrstir til þess að fara yfir 100 stig í DHL-Höllinni!
 
Mögnuð vörn Snæfells hélt áfram í fjórða leikhluta en KR-ingar gerðu skammlíft áhlaup og virtust aldrei líklegir til þess að ógna forskoti gestanna. Lokatölur urðu svo 84-102 Snæfell í vil sem leiða nú einvígið 1-0. Liðin mætast svo aftur og þá í Stykkishólmi næsta miðvikudag.
 
Tíu leikmenn Snæfells skoruðu í leiknum, þeirra atkvæðamestur var Martins Berkis með 21 stig, Sigurður Þorvaldsson var með 20 stig og Hlynur Bæringsson gerði 19 stig og tók 14 fráköst. Hlynur setti einnig niður 3 af 4 þristum sínum í leiknum og minnti KR-inga á að það þarf líka að dekka hann utan við þriggja stiga línuna.
 
Hjá KR var Finnur Atli Magnússon að leika manna best og gerði 20 stig. Hann refsaði Snæfellingum vel fyrir að skilja sig oft og margsinnis eftir óvaldaðan. Morgan Lewis gerði 15 stig og Jón Orri Kristjánsson var með 13 stig. Pavel Ermolinskij var ekki fjarri þrennunni með 9 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar en gestirnir höfðu góðar gætur á honum og rúlluðu heilum 5 varnarmönnum á honum í leiknum.
 
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Kristinn Óskarsson
 
Byrjunarliðin:
 
KR: Pavel Ermolinskij, Brynjar Þór Björnsson, Tommy Johnson, Finnur Atli Magnússon og Fannar Ólafsson.
 
Snæfell: Sean Burton, Emil Þór Jóhannsson, Sigurður Á. Þorvaldsson, Jón Ó. Jónsson og Hlynur Bæringsson.
 
 
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Snæfellingar fögnuðu sigri sínum vel og innilega í DHL-Höllinni í kvöld.
 
Fréttir
- Auglýsing -