spot_img
HomeFréttirSnæfell meistari meistaranna

Snæfell meistari meistaranna

Fyrir fjórum dögum síðan hafði kvennalið Snæfells aldrei unnið titill en í dag eru þeir orðnir tveir. Það var aldrei spurning um hver færi með titilinn heim þegar Njarðvík og Snæfell mættust í keppni meistaranna í kvöld. Snæfellskonur unnu leikinn sannfærandi, 60-84. Hjá Snæfell var Kieraah Marlow að spila frábærlega en hún endaði leikinn með 24 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar.
Strax á fyrstu mínútu leiksins meiddist Lele Hardy á öxl eftir samstuð og virtist eins og hún hafi farið úr lið. Eftir að sjúkraþjálfarinn hafi litið á hana var hún kominn aftur inn á rúmri mínútu seinna og ekki virtist vera að um mikil meiðsl væri að ræða þar sem hún dró vagninn fyrir Njarðvík mest allan leikinn.
 
Nokkuð jafnræði var með liðunum á fyrstu mínútu leiksins og var eins og bæði lið væru tilbúin í slaginn og ætluðu ekkert að gefa eftir. En í stöðunni 11-13 tók Snæfell sig til og skellti í lás í vörninni sem varð til þess að þær fóru á 0-11 „run“. Á þessum tíma virtist eins og Snæfell ætlaði að klára leikinn í fyrsta leikhlutanum þar sem Njarðvík átti engin svör við neinu sem Snæfell lagði upp. Leikhluturinn endaði síðan 17-29 fyrir Snæfell sem voru komnar á góða siglingu fyrir annan leikhlutann. Hjá Njarðvík var Hardy komin með 8 stig en hjá Snæfell var Marlow með 10 stig.
 
Í upphafi annars leikhluta var greinilegt að Njarðvík ætlaði að selja sig dýrt og ætlaði sér að berjast fyrir bikarnum. Þær sóttu stíft að Snæfell en áttu þó fá svör við svæðisvörn þeirra. En um miðjan leikhlutann setti Ingibjörg Vilbergsdóttir risa þrist og minnkaði muninn niður í sex stig, 36-42. Við það vöknuðu Snæfell aftur og skoruðu þær síðustu sex stig leikhlutans sem endaði 36-48. Hjá Njarðvík var Hardy komin með 15 stig og hjá Snæfell var Marlow komin með 16 stig og Berglind Gunnarsdóttir með 10 stig.
 
Þriðji leikhlutinn byrjaði eins og hinir tveir þar sem jafnræði var með liðunum. Mikill hraði var í báðum liðunum á þessum tíma og áttu bæði liðin erfitt með að koma boltanum í körfuna. Njarðvík var hægt og rólega að minnka muninn í leikhlutanum og komust í 51-58 þegar mínúta var eftir og allt stefndi í frábæran fjórða leikhluta. Snæfell passaði samt sem áður að hleypa þeim ekki of nálægt sér og áttu síðasta orðið í leikhlutanum sem sá til þess að þær fóru með níu stiga forskot inn í síðasta leikhlutann, 51-60. Hjá Njarðvík var Hardy komin með 20 stig og Ingibjörg Vilbergsdóttir með 13 stig. Marlow var komin 20 stig fyrir Snæfell, Berglind Gunnarsdóttir með 12 og Hildur Björg Kjartansdóttir með 11.
 
Fyrir leikhlutann leit út fyrir að síðustu 10 mínútur leiksins skildu einkennast af spennu og baráttu fram að loka sekúndu. Ingi Þór hafði greinilega sagt einhver vel valin orð við sínar konur því að allt annað lið mætti til leiks og átti Snæfell hreinlega leikhlutann. Þær komu miklu grimmari til leiks heldur en þær höfðu verið að spila framan af. Við það fór allt að ganga hjá þeim á meðan ekkert var að ganga hjá Njarðvíkur konum. Um miðjan leikhlutann var eins og öll trú Njarðvíkur var búin og því var eltingaleikurinn of mikill fyrir þær. Snæfell uppskar að lokum sanngjarnan sigur, 60-84, og eru komnar með sinn annan titil á fjórum dögum.
 
Maður, já eða reyndar kona, leiksins var án efa Kieraah Marlow sem spilaði hreint ótrúlega vel og endaði leikinn eins og áður segir með 24 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar. Einnig átti Hildur Björg Kjartansdóttir frábæran leik og er hún að vaxa í frábæran leikmann sem vert verður að fylgjast með í framtíðinni. Hún endaði leikinn með 19 stig, 7 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta. Berglind Gunnarsdóttir skilaði síðan 14 stigum, 3 fráköstum og 2 stolnum og Alda Leif Jónsdóttir, sem er að komast í sitt fyrra form, endaði leikinn með 10 stigum, 4 fráköstum og 4 stoðsendingum.
 
Hjá Njarðvík var Lele Hardy að spila frábærlega og er greinilega í frábæru formi en hún endaði leikinn með 21 stig, 14 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna. Auk Lele Hardy átti Ingibjörg Vilbergsdóttir góðan leik en hún sallaði niður 13 stigum, tók 6 fráköst og stal 5 boltum.
 

Umfjöllun/ Rannveig Kristín Randversdóttir – [email protected]
Fréttir
- Auglýsing -