spot_img
HomeFréttirSnæfell með sigur í systraleik

Snæfell með sigur í systraleik

Það má segja að systrafélög hafi mæst í Hólminum dag í bikarkeppninni. Snæfell og Breiðablik æfa saman og eiga í góðu samstarfi vegna þess hve margir leikmenn Snæfells stunda nám og vinna á höfuðborgarsvæðinu. 

 

 

Byrjunarliðin voru svona: María, Berglind, Rebekka, Bryndís og Haiden fyrir Snæfell.

Isabella, Berglind, Telma, Kristín og Elín Sóley fyrir Breiðablik. 

 

Leikurinn byrjaði vel fyrir Snæfell og komust þær fljótlega í 11 – 1. Svo kom kafli þar sem undirritaður hélt að um æfingu væri að ræða, það sem var öðruvísi er að það voru dómarar á svæðinu en það er sjaldnast á æfingum. Mikið um tapaða bolta og það virkaði eins og leikmenn væru á öðrum stað en þær áttu að vera. Snæfell leiddu með 10 stigum allan fjórðunginn. 

 

Ingi Þór og Baldur þjálfarar Snæfells voru orðnir þreyttir á töpuðum boltum og lélegum ákvörðunum, þannig þeir skelltu í pressu og náðu muninum upp í 20+ í hálfleik.

Snæfell leiddi Blikastúlkur í gildrur um allan völl og gerði þeim erfitt fyrir. Blikar mega þó vel við una að fá svona góða vörn á sig og sýndu oft á tíðum góð tilþrif við að leysa pressuna og ráðast á körfuna. Ungt og efnilegt lið sem þær félagar Árni Eggert og Davíð Ásgríms eru með, gleðin og ákefðin í liðinu var til fyrirmyndar. 

 

Það verður nú að segjast eins og er að munurinn á liðunum er gríðarlegur og að þegar Snæfell skipti um gír voru yfirburðirnir ótvíræðir. 

 

Leikurinn endaði með yfirburða sigri Snæfells 85 – 48 og geta bæði lið farið ágætlega sátt frá leiknum, allir fengu að spila og margir leikmenn fengu mikilvæga reynslu.

 

Haiden Palmer endaði leikinn með myndarlega þrennu 16/10/10 og bætti 8 stolnum við það. Berglind Gunnars var með 16 stig og samherji hennar í Íslenska landsliðinu, Byrndís Guðmundsdóttir var með 15 stig og 10 fráköst. Rebekka var með 12 stig 4/6 í þristum, Anna Soffía skoraði 9 stig, María setti 8 stig og tók 10 fráköst, Andrea 6 stig og 7 fráköst og að lokum skoraði Sara Diljá 3 stig. Hrafnhildur barðist vel og mun án efa eiga framtíðina fyrir sér í rauða búningnum.

 

Hjá þeim grænu var Berglind með 17 stig, Elín Sóley 9, Telma Lind og Aníta Rún með 6,  Guðrún Edda 5/5, Arndís Þóra 3 og Isabella Ósk með 2/10 fráköst.

 

Áhorfendur hefðu getað verið fleiri en sunnudags göngutúrinn er alltaf tekinn í blíðskapar veðri hérna í Hólminum þannig margir voru fjarverandi.

Fréttir
- Auglýsing -