spot_img
HomeFréttirSnæfell með sannfærandi heimasigur í fyrsta leik

Snæfell með sannfærandi heimasigur í fyrsta leik

 

Snæfell og Stjarnan mættust í fyrsta leik undanúrslita Dominos deildar kvenna í Stykkishólmi. Stjarnan hafði náð einum sigri heima af fjórum leikjum liðanna í vetur.

 

 

Vörn Snæfells var nánast óaðfinnanleg eftir miðjan fyrsta leikhluta. Þær komust fljótt í 10 stiga mun 22-12 og staðan 24-14 eftir fyrsta fjórðung. Stórar körfur duttu niður hjá Stjörnunni sem héldu þeim á róli en þær voru komnar 15 stigum undir 35-20. Snæfell voru grimmari í fráköstum og undir körfunni voru þær að ýta Stjörnunni burt vitandi að Ragna Margrét er klók. Staðan eftir fyrri hálfleik var 50-38. Aaryn var komin með 24 stig fyrir Snæfell og var smellhittin.

 

Síðari hálfleikur hófst orrustulega og bæði lið að selja sig dýrt, en ekki hvað, vissu greinilega bæði að úrslitakeppnin væri hafin. Jafnræði var með liðunum og hart barist en Snæfell var 15 stigum yfir eftir þriðja hluta 75-60 eftir góðan þrist frá Aaryn sem var komin með 39 stig og 11 fráköst. Stjarnan tóku 11-0 kafla úr 82-65 í 82-74 og gerðu sig líklegar í að koma sterkar inní lokamínúturnar en Snæfellsstúlkur eru reyndar og sýndu mikinn styrk í lokin og náðu að rétta það af sem tapaðist niður og leiða 1-0 í seríunni eftir 93-78 sigur.

 

Þáttaskil

 

Góður varnarleikur Snæfells í upphafi gaf þeim forystu í leiknum ásamt stórgóðum leik Aaryn Ellenberg. Stjarnan áttu þó góða spretti og sóttu oft á en vantaði uppá til að breyta leiknum. Fráköst og grimmd Snæfells var dýrari í kvöld sem refsuðu meira eftir fráköst og unna bolta. Þáttaskil leiksins var 10 stiga forystan sem Snæfell skóp sér í fyrsta hluta og dugði til að stýra leiknum.

 

Hetjan

 

Aaryn Ellenberg var óstöðvandi og með hana í svona ham áttu gestirnir ekki séns. Hún var búin að skora 24 stig í hálfleik og endaði með stórfína tvennu uppá 49 stig og 14 fráköst og bætti við 6 stoðsendingum. Snæfell áttu frákastabaráttuna 46/34 og náðu 15 sóknarfráköstum og af þeim koma 11 stig. Liðin voru annars mjög svipuð í tölfræði heilt yfir.

 

Á eftir Aaryn hjá Snæfelli kom Gunnhildur Gunnarsdóttir með 13 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Bryndís Guðmundsdóttir 12 stig og 6 fráköst og Berglind Gunnarsdóttir 11 stig og 6 fráköst. Í liði Stjörnunnar var Danielle Rodriguez með 18 stig og 9 stoðsendingar. Bríet Sig Hinriksdóttir 14 stig og 9 fráköst. Bryndís Hanna Hreinsdóttir 14 stig og Ragna Margrét Brynjardóttir 13 stig og 6 fráköst.

 

Tölfræði leiksins 

 

Myndasafn 

 

Viðtöl: 

 

 

Umfjöllun / Símon B Hjaltalín.   

Mynd / Sumarliði Ásgeirsson

Fréttir
- Auglýsing -