7:00
{mosimage}
Ingvaldur Magni Hafsteinsson sem spilað hefur með Snæfell undanfarin ár og hefur verið við nám í Lögregluskólanum í Reykjvík á haustmánuðum tók sér frí frá körfuiðkun vegna námsins. Varnarleikur Snæfells í síðustu leikjum hefur þurft slípun og er alveg víst að Magni er þar hlekkur sem hefur tekið sinn toll fyrir utan að hafa átt sín góðu augnablik í sóknarleik liðsins.
Eftir spjall við Daða Heiðar Sigurþórsson formann körfuknattleiksdeildar Snæfells og Magna sjálfann staðfestu þeir við fréttaritara á leik Hamars og Snæfells að hann myndi hefja æfingar með Snæfelli aftur í janúar og gleðst nú ábyggilega margur Hólmarinn við það að fá strákinn aftur í hópinn og ekki síst öfluga löggæslu á svæðið.
Daði sagði að ekki hafi verið gert sérstaklega ráð fyrir þessu á undirbúningstímabilinu þar sem nokkrir endar voru lausir en fagnar gríðarlega að geta styrkt hópinn.
Magni sagðist geta tekið hluta verklega þáttsins í lögreglunni í Stykkishólmi og að hann hlakkaði til að fara að æfa á fullu með félögunum og glotti við þegar hann sagði að það yrði svo að koma í ljós hvort hann kæmist í liðið. Sjáum til, en óneitanlega styrkur fyrir lið Snæfells á seinni sprettinum í Iceland Express deildinni.
Símon B. Hjaltalín.
Mynd: [email protected]