spot_img
HomeFréttirSnæfell Íslandsmeistarar kvenna 2015

Snæfell Íslandsmeistarar kvenna 2015

Í Stykkishólmi mættust Snæfell og Keflavík í leik 3 í úrslitum Dominosdeildar kvenna og höfðu Snæfell yfirhöndina í einvíginu 2-0 og því að úrslitaleikur fyrir Keflavík. Snæfell höfðu möguleika á að sópa einvíginu og kóróna þar með frábært tímabil sitt sem þær svo gerðu og sigruðu Keflavík með minnsta mun 81:80 og fögnuðu vel og vandlega í lok leiks. 

Staðan um miðjan fyrsta hluta var 11-12 fyrir Keflavík og voru liðin að fara vel af stað í þessum leik. Þristar fuku í netið frá Gunnhildi í Snæfell og Bryndísi í Keflavík og allt eins og það á að vera. Fullt hús og spennustigið við suðumark. Gunnhildur kom Snæfelli svo í 14-12 og keyrði vel á gestina. Lovísa Falsdóttir jafnaði 18-18 og þannig kraumaði kakan í fyrsta hluta og staðan 22-21 fyrir Snæfell.

 

Keflavíkurstúlkur voru grimmari í fráköstum og höfðu vinningin þar í upphafi en Snæfell var skjóta töluvert meira og nýttu illa til frekari forystu. Liðin skiptust á skora en Snæfell komust í sex stiga forystu 37-31 og fór smá ráðleysistími í hönd sem varði ekki lengi en kom samt. Þeim var engin vandi á höndum liðunum að laga slíkt en Snæfell tóku góð stopp og fráköst og kláruðu sig vel í sóknum undir lok annars hluta sem skóp þeim 10 stiga forystu 45-35.

 

Hjá Snæfelli var Kristen McCarthy komin með 20 stig og Gunnhildur Gunnarsdóttir 11 stig en Hildur Sigurðardóttir fór í frákastabaráttuna og var komin með 7 fráköst. Í liði Keflavíkur var Sara Rún áræðin, átti flottan leik og keyrði vel að körfunni, komin með 13 stig og 5 fráköst og henni næst var Sandra Lind með 9 stig.

Keflavík sótti á og náðu muninum í fjögur stig 49-45 en með ágætum og góðum þrist frá Hildi Sig náðu Snæfell aftur níu stiga forystu. Liðin voru að sveiflast nokkuð og Keflavík náðu aftur að saxa á og nú í tvö stig 54-52. Alda Leif átti ein stóran þrist fyrir Snæfell og kom þeim í 59-54 og svo aftur 64-54. Snæfellsstúlkur leiddu 64-56 fyrir lokafjórðunginn en höfðu ekki enn farið á vítalínuna eftir 30 mínútna leik.

 

Bryndís Guðmundsdóttir kom inná reyndi að kveikja í sínu liði og smellti þremur stigum í netið 64-59 og stalla hennar, Sara Rún var funheit og gerði slíkt hið sama 66-62. Keflavík stilltu upp þéttri svæðisvörn og náðu í kjölfarið að gera þetta að eins stigs leik 68-67 og svo yfir 68-69. Snæfell hittu illa úr sínum skotum og Keflavík ákveðnari í fráköstum. 34:51 var tíminn sem leið þar til Snæfell fór á vítalínuna en María Björnsdóttir gerði vel og kláraði það víti og Snæfell leiddi 71-69 um miðjan fjórða fjórðung. Sara Rún jafnaði 73-73 og var að nálgast 30 stigin með 29 og spilaði glimmrandi vel.

 

Gunnhildur Gunnars átti líka til stóru skotin í vasanum og kom Snæfelli aftur yfir 78-77. Þegar mínúta var eftir var farið útdeila sprengitöflum í stúkunni og Snæfell var yfir 80-77. 50 sekúndur voru eftir og Carmen var skellt á bekkin hjá Keflavík. Keflavík sóttu engu að síður á undir lokin og staðan var 81-80 þegar 13 sekúndur voru eftir. Snæfell kastaði boltanum frá sér og Keflavík hafði 8 sekúndur til stefnu en Snæfell settu upp veggi og náðu boltanum þegar 2 sekúndur voru eftir og leiktíminn úti. 81-80 og Snæfell Íslandsmeistarar í ótrúlegum leik. Að öðrum ólöstuðum þá átti Sara Rún alveg frábæran leik fyrir Keflavík og kvaddi þær í bili með reisn, þvílíkur leikmaður.

Hildur Sigurðardóttir hefur gefið það út að þetta var hennar síðasta tímabil í boltanum og því mikil þáttaskil í kvennaboltanum þar sem þessi frábæri leikmaður hefur verið á toppnum síðasta rúmlega áratuginn eða svo. Einstakur ferill hjá frábærum körfuknattleiksmanni sem verður sárt saknað úr boltanum.  Karfan.is óskar Hildi Sigurðardóttir sérstaklega til hamingju með daginn og frábæran feril…….sjáumst svo á næsta ári!

Leikmaður úrslitakeppninar var Kristen Denise McCarthy hjá Snæfelli.

 

Snæfell: Kristen Denise McCarthy 24/6 frák/5 stoðs. Gunnhildur Gunnarsdóttir 17/7 frák. Hildur Sigurðardóttir 13/12 frák. María Björnsdóttir 11/6 frák. Alda Leif 6/4 frák. Helga Hjördís 4. Berglind Gunnarsdóttir 4. Hugrún Eva 2. Silja Katrín 0. Rebekka Rán 0. Anna Soffía 0. Rósa Kristín 0.

Keflavík: Sara Rún 31/6 frák. Bryndís Guðmundsdóttir 13/13 frák/8 stoðs. Carmen Tyson-Thomas 12/12 frák. Ingunn Embla 10. Sandra Lind 10/8 frák. Lovísa Falsdóttir 2. Marín Laufey 2. Birna Ingibjörg 0. Hallveig Jónsdóttir 0. Thelma Dís 0. Emilía Ósk 0. Bríet Sif 0.

 

Símon B Hjaltalín.

Fréttir
- Auglýsing -